Vörn Guðný Árnadóttir lék sinn fyrsta A-landsleik fyrir Ísland gegn Noregi í vináttulandsleik í janúar 2018.
Vörn Guðný Árnadóttir lék sinn fyrsta A-landsleik fyrir Ísland gegn Noregi í vináttulandsleik í janúar 2018. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ítalía Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Knattspyrnukonan Guðný Árnadóttir skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning við ítalska stórliðið AC Milan um helgina.

Ítalía

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Knattspyrnukonan Guðný Árnadóttir skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning við ítalska stórliðið AC Milan um helgina.

Guðný, sem er tvítug að árum, kemur til félagsins frá Val þar sem hún hefur leikið frá árinu 2019 en hún varð Íslandsmeistari með liðinu sumarið 2019.

Miðvörðurinn hefur verið einn besti leikmaður úrvalsdeildar kvenna undanfarin ár, en þegar hún var sex ára gömul þurftu foreldrar hennar hálfpartinn að múta henni til þess að mæta á fyrstu knattspyrnuæfingarnar á Hornafirði.

Hún hefur blómstrað í íþróttinni síðan og á að baki 83 leiki í efstu deild með FH og Val þar sem hún hefur skorað sex mörk.

„Ég er fyrst og fremst ánægð að vera búin að skrifa undir hjá AC Milan og það er gott að vera búin að koma þessu frá,“ sagði Guðný í samtali við Morgunblaðið en kvennalið AC Milan var stofnað í júlí 2018.

„Mér leist virkilega vel á þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað hjá félaginu að undanförnu. Deildin er alltaf að stækka og hlutirnir hafa gerst ansi hratt á Ítalíu síðustu ár. Mér fannst þetta vera gott skref fyrir mig á þessum tímapunkti þar sem ég er sjálf að stíga mín fyrstu skref á atvinnumannaferlinum og ég held að það muni henta mér vel að spila í þessari deild.

Ég var mjög hrifin af hugmyndum þjálfarans Maurizio Ganz um það sem hann vill gera með liðið og hvernig hann sér hlutina fyrir sér í komandi framtíð. Ég ræddi líka við Berglindi Björgu [Þorvaldsdóttur] um tíma hennar hjá félaginu og hún hafði ekkert nema gott um þetta að segja. Ég vissi því að hverju ég gekk þegar ég skrifað undir,“ bætti Guðný við.

Fær reynslu í Napólí

Guðný mun leika með Napólí í ítölsku A-deildinni á láni á keppnistímabilinu og snúa aftur til AC Milan í maí á næsta ári.

„Planið var alltaf að ég myndi fara til Napólí um leið og ég væri búin að skrifa undir í Mílanó. Það eru níu umferðir búnar á tímabilinu og allt liðið hefur verið að spila mjög vel. Varnarleikurinn hefur verið mjög þéttur og liðið hefur aðeins fengið á sig fjögur mörk til þessa, fæst allra liða. Það er því lítið tilefni fyrir þjálfarann að fara að hreyfa mikið við liðinu á meðan hlutirnir hafa gengið svona vel.

Það hentar því vel að ég fari til Napólí og klári tímabilið þar. Það er ýmislegt sem ég þarf að koma mér inn í, eins og tungumálið sem dæmi. Fótboltinn hérna er öðruvísi en fótboltinn heima á Íslandi og þetta er því frábært tækifæri til þess að öðlast reynslu. Ég vonast auðvitað til þess að fá spiltíma með liðinu en ég geri mér líka grein fyrir því að ég er ekki að fara að labba beint inn í byrjunarliðið.“

Napólí hefur ekki gengið sem skyldi það sem af er tímabils en liðið er með 1 stig í tólfta og neðsta sæti deildarinnar eftir fyrstu níu umferðirnar.

„Ég horfði á leik liðsins gegn Juventus um helgina og þær voru miklu betri í fyrri hálfleik. Þær komust yfir en Juventus voru sterkari undir restina og unnu 2:1-sigur. Það er samt hellingur spunnið í þetta Napólí-lið þótt staða þeirra í deildinni sé erfið. Þær spila taktískan fótbolta sem mér líst mjög vel á en úrslitin hafa ekki verið að detta með þeim sem gerist oft þegar lið byrja að ströggla aðeins.

Það er mikilvægur leikur um næstu helgi gegn Hellas Verona og sá leikur gæti skipt sköpum í baráttunni um sæti í deildinni. Það væri því mjög gaman að fá tækifæri í þeim leik en það er að sjálfsögðu undir þjálfaranum komið.“

Stefnir á stöðugleika

Guðný er nýkomin aftur til Napólí eftir að hafa tekið þátt í lokaleikjum íslenska kvennalandsliðsins gegn Slóvakíu og Ungverjalandi í undankeppni EM.

„Ég hef í raun ekki fengið mikinn tíma til að koma mér eitthvað sérstaklega fyrir. Ég fór fyrst til Mílanó, svo til Napólí, svo í landsliðsverkefni og er nú komin aftur til Napólí. Það er allt lokað hérna nema matvörðubúðir og apótek þannig að það er lítið hægt að gera. Ítalirnir eru að vonast til þess að geta opnað einhverjar verslanir á næstu dögum en eins og staðan er í dag er bara grímuskylda hér og hálfgert útgöngubann í gildi.

Ég er búin að vera að mæta á æfingar á hverjum degi sem er alveg smá viðbrigði frá því sem maður er vanur heima, það er að segja að geta bara einbeitt sér að fótboltanum. Ég hef lítið getað skoðað borgina en það kemur vonandi með tíð og tíma.“

Kvennalandsliðið tryggði sér sæti í lokakeppni EM á dögunum eftir sigur gegn Ungverjalandi í Búdapest og vonast Guðný til þess að vera í hópnum sem fer til Englands sumarið 2022.

„Framtíðarplanið hefur alltaf verið að gera sig gildandi í landsliðinu og fá hlutverk í liðinu. Ég var samt sem áður ekki að skrifa undir hjá AC Milan til þess að reyna að auka möguleika mína með landsliðinu. Ég þarf að spila vel með mínu félagsliði, ef ég vil gera mig gildandi í landsliðinu, og þegar allt kemur til alls snýst þetta fyrst og fremst um að standa sig vel á knattspyrnuvellinum.

Það eru tvö ár í lokamótið og ef ég ætla mér að vera í hópnum sem fer á lokamótið þarf ég að ná upp stöðugleika á Ítalíu. Kannski hentar það mér ágætlega að fá eitt auka ár til þess að koma mér inn í hlutina hérna, með EM til hliðsjónar.“

Þá vonast miðvörðurinn til þess að komast heim til Íslands yfir hátíðirnar eftir annasamar vikur.

„Eitt af mínum markmiðum var að komast í atvinnumennsku, það tókst, og nú taka bara við önnur og stærri markmið. Eftir næstu helgi kemur rúmlega mánaðar hlé og ég vonast til þess að komast heim yfir jólin. Ég þarf að taka í kringum þrjú flug frá Napólí til Íslands og þetta verður eitthvert púsluspil en það verður gott að geta eytt jólunum á Íslandi eftir viðburðaríkar síðustu vikur.“

Guðný Árnadóttir
» Fæddist 4. ágúst 2000.
» Uppalin hjá Sindra á Hornafirði en gekk til liðs við FH árið 2013.
» Gekk til liðs við Val eftir tímabilið 2018 og varð Íslandsmeistari með liðinu árið 2019.
» Á að baki 8 A-landsleiki og 48 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands.