Eftirvænting Moncef Slaoui hefur væntingar um samþykki í vikunni.
Eftirvænting Moncef Slaoui hefur væntingar um samþykki í vikunni. — AFP
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Moncef Slaoui, sem fer fyrir verkefni um bóluefnaþróun í Bandaríkjunum vonast til þess að Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna muni samþykkja notkun bóluefnis í vikunni.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Moncef Slaoui, sem fer fyrir verkefni um bóluefnaþróun í Bandaríkjunum vonast til þess að Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna muni samþykkja notkun bóluefnis í vikunni. Ríki Bandaríkjanna eru þegar í startholunum að hefja bólusetningarferlið. Væntingar eru til þess að daglegt líf verði með eðlilegum hætti að nýju í vor að sögn Slaoui.

Fregnir af bóluefninu koma í skugga þess að faraldurinn hefur náð nýjum hæðum í landinu. Á degi hverjum falla um 2.000 manns frá af völdum sjúkdómsins.

Slaoui á von á því að lyfjaeftirlitið muni samþykkja bæði bóluefnið frá Pfizer og Moderna. Verða þau tekin fyrir hvort í sínu lagi á fundi lyfjaeftirlitsins. Á fimmtudag verður bóluefnið frá Pfizer til umræðu en þann 17. desember verður fundað um bóluefnið frá Moderna. „Fyrsta sending bóluefnisins mun koma daginn eftir að samþykki liggur fyrir,“ segir Slaoui.

Líkt og víðast hvar annars staðar fara fyrstu skammtarnir til heilbrigðisstarfsmanna. Eru þeir sagðir vera um milljón manns. Samhliða býðst hópi um þriggja milljóna eldri borgara sem dvelja á dvalarheimilum bóluefnið. Í framhaldinu verður það svo í höndum hvers og eins ríkis fyrir sig að ákveða forgangsröðun. „Við gætum verið að horfa upp á það að almenningur geti hafið eðlilegt líf í apríl eða maí á næsta ári,“ segir Slaoui. Um 14,6 milljónir Bandaríkjamanna hafa smitast af Covid-19 og hafa rúmlega 281.200 látist af völdum sjúkdómsins í Bandaríkjunum.