[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Talsverður gangur er kominn nú þegar í verslun fyrir jólin, fyrr en kaupmenn bjuggust við.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Talsverður gangur er kominn nú þegar í verslun fyrir jólin, fyrr en kaupmenn bjuggust við. Engar algildar skýringar eru á þessu, en kaupmenn benda á að vegna gildandi samkomutakmarkana hafi fólk ef til vill rýmri tíma en áður. Noti því svigrúmið þessa dagana og ljúki við þau innkaup sem hægt sé. Sprenging kortér fyrir jól sé ólíkleg.

Baka og njóta samveru

„Það hefur verið talsvert líf í öllum viðskiptum hjá okkur síðustu vikur,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa. „Jólabaksturinn er greinilega hafinn á mörgum heimilum; hveiti, sykur, egg og smjörlíki seljast nú sem aldrei fyrr. Á sama tíma fer minna út af tilbúnum kökum svo tilhneigingin er greinilega sú að fjölskyldur njóta samverunnar með því að baka í eldhúsinu heima. Sala á gjafavörum hefur einnig verið talsverð, svo sem bókum, en í ár eru Samkaup með um 350 titla í boði. Útgefendur eru fyrir þessi jól einfaldlega með góðar bækur sem seljast vel af því þær ná til lesenda,“ segir Gunnar Egill.

Mikil og vaxandi umsvif hafa verið í netverslun Samkaupa, sem efld var til muna þegar samkomutakmarkanir komu til fyrr á þessu ári. Þær leiddu til þess að færri fara nú en áður í hefðbundnar búðir, en nærri lætur að innkaup yfir netið vegi þar upp á móti. „Þetta eru verslunarhættir sem landinn tileinkaði sér fyrir alvöru á fáeinum dögum í fyrstu bylgju Covid síðastliðið vor. Þessi viðskiptamáti er alveg tvímælalaust kominn til að vera.“

Nóvember viðlíka stór og jólamánuðurinn

„Jólasalan hefst nú talsvert fyrr en var fyrr á árum,“ segir Gestur Hjaltason framkvæmdastjóri Elko. Sú breyting hafi orðið á markaðnum að nóvember sé orðinn viðlíka stór í öllum viðskiptum og sjálfur jólamánuðurinn. Þarna ræður miklu, að sögn Gests, að nú er á Íslandi keyrt stíft á sölu og markaðssetningu fyrir Svartan föstudag síðast í nóvember og Netmánudaginn sem nú var 30. nóvember, en var í byrjun desember í fyrra. Fyrir vikið hafi sala nú allra fyrstu dagana desember verið ögn minni en á sama tíma í fyrra, en muni svo fljótlega jafnast út.

„Svo eru líka enn samkomutakmarkanir í verslunum sem hamla sölunni sem hefur sín áhrif. Netverslun bætir það að verulegu leyti. Ég býst við um það bil 5% söluaukningu í ár miðað við jólaverslun í fyrra,“ segir Gestur Hjaltason. Fyrir komandi jól segir hann PS5 -leikjatölvuna vera vinsæla, hún seljist alltaf upp og langir biðlistar séu eftir slíkum tækjum. Símar, sjónvörp og þráðlaus heyrnartól séu vinsælar jólagjafir. Þá renni ýmiss konar raftæki til matargerðar jafnan út, rétt eins og heitar lummur.