Sigur Ekkert fær stöðvað þá Harry Kane og Son Heung-min þessa dagana.
Sigur Ekkert fær stöðvað þá Harry Kane og Son Heung-min þessa dagana. — AFP
England Bjarni Helgason bjarnih@mbl.

England

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Harry Kane, framherji enska knattspyrnufélagsins Tottenham, skoraði mark númer 250 á ferlinum þegar liðið vann 2:0-sigur gegn Arsenal í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á Tottenham Hotspur-vellinum í Lundúnum í gær.

Son Heung-min kom Tottenham yfir strax á 13. mínútu með frábæru skoti rétt utan teigs og Kane tvöfaldaði forystu Tottenham með marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks og þar við sat.

Kane hefur skorað 202 mörk fyrir Tottenham frá því hann lék sinn fyrsta leik fyrir félagið árið 2009. Þá hefur hann skorað 32 mörk fyrir enska landsliðið, níu fyrir Millwall þar sem hann var á láni árið 2012, tvö fyrir Leyton Orient þar sem hann var á láni árið 2011 og tvö fyrir Leicester þar sem hann var á láni árið 2013.

Þá var þetta mark númer 100 sem Harry Kane skorar á heimavelli Tottenham í öllum keppnum en framherjinn er einungis 27 ára gamall og á því nóg eftir.

Kane og Son mynda eitt besta sóknarparið í heimsfótboltanum í dag en Son hefur skorað tíu mörk í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og er næst markahæstur á meðan Kane hefur skorað átta mörk í deildinni.

Saman eru þeir með ellefu mörk á milli sín, það er að segja þar sem þeir hafa skorað eftir stoðsendingu frá hvor öðrum.

Aðeins Alan Shearer og Chris Sutton, Blackburn tímabilið 1995-96, og Ryan Fraser og Callum Wilson, Bournemouth 2018-19, hafa skorað fleiri mörk á milli sín á einu tímabili. Shearer og Sutton skoruðu þrettán mörk á milli sín og Fraser og Wilson tólf, en Kane og Son hafa enn þá fimm mánuði til þess að gera enn betur.

Á meðan gengur ekkert hjá Arsenal sem er án sigurs í síðustu fjórum leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni en síðasti sigurleikur liðsins var gegn Manchester United á Old Trafford 1. nóvember.

Þá hefur liðið aðeins skorað eitt mark í síðustu fjórum leikjum en í fyrstu ellefu leikjum tímabilsins hefur Arsenal skorað tíu mörk.

Neita að tapa á Anfield

Sigurganga Englandsmeistara Liverpool á heimavelli sínum Anfield hélt áfram þegar liðið fékk Wolves í heimsókn í gær.

Leikmenn Liverpool voru í miklu stuði gegn slökum Úlfum og unnu afar sannfærandi 4:0-sigur.

Mohamed Salah kom Liverpool yfir á 24. mínútu en hann hefur nú skorað 82 mörk í ensku úrvalsdeildinni frá því hann gekk til liðs við Liverpool frá Roma sumarið 2017. Þá hefur hann lagt upp önnur 29 mörk í deildinni og Egyptinn hefur því komið að 111 mörkum fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.

Þá hefur hann skorað 52 mörk á Anfield í ensku úrvalsdeildinni en aðeins Lionel Messi, Barcelona, og Robert Lewandowski, Bayern München, hafa skorað fleiri mörk á heimavöllum sínum frá 2017. Messi hefur skorað 63 mörk og Lewandowski 59 mörk.

Þá voru þeir Georginio Wijnaldum og Joel Matip einnig á skotskónum fyrir Liverpool en fjórða mark meistaranna reyndist sjálfsmark hjá Nélson Semedo, bakverði Úlfanna.

Liðið er ósigrað á Anfield í 64 leikjum en Liverpool hefur unnið 53 þeirra og gert ellefu jafntefli. Þá hefur Liverpool skorað 169 mörk í þessum 64 leikjum og aðeins fengið á sig 42 mörk.

Í síðustu 32 leikjum sínum hefur liðið unnið 31 þeirra á Anfield en 64 leikir án taps er næstbesti heimavallaárangur í sögu efstu deildar Englands.

Aðeins Chelsea hefur gert betur en liðið lék 86 heimaleiki án þess að tapa frá 2004 til 2008.

Enn einn endurkomusigurinn

Manchester United heldur áfram að snúa leikjum sér í vil en liðið vann 3:1-sigur gegn West Ham á London-vellinum á laugardaginn eftir að hafa verið 1:0-undir í hálfleik. Portúgalinn Bruno Fernandes kom inn á í hálfleik og sneri leiknum við. Portúgalinn hefur verið magnaður fyrir United síðan hann kom til félagsins frá Sporting fyrir 68 milljónir punda í janúar 2020.

Fernandes hefur skorað 22 mörk og lagt upp önnur 14 í 38 leikjum fyrir United í öllum keppnum.

Hann er að fá nýjan samning hjá félaginu sem mun gera hann að einum launahæsta leikmanni félagsins og á hann það svo sannarlega skilið.