Teitur Gylfason fæddist í Mosfellssveit 22. september 1961. Hann lést á líknardeild Landspítalans 21. nóvember 2020. Foreldrar hans eru Steinunn K. Theodórsdóttir, f. 17. nóvember 1932 í Reykjavík, d. 19. maí 2020, og Gylfi Pálsson f. 1. febrúar 1933 á Akureyri. Systkini Teits eru Kristín, f. 1953, Þóra, f. 1957, Snorri, f. 1958, Kári, f. 1960, búsettur í Danmörku, og Trausti, f. 1964.

Eiginkona Teits er Soffía Ingibjörg Friðbjörnsdóttir, f. 4. febrúar 1962 á Dalvík. Foreldrar hennar voru Lilja Rögnvaldsdóttir og Friðbjörn Adólf Zophoníasson. Dætur þeirra eru Nanna, f. 1983, og Embla, f. 1988. Eiginmaður Nönnu er Elmar Geir Unnsteinsson og börn þeirra Þórdís Yrja, f. 2012, og Styrmir Orri, f. 2017.

Teitur ólst upp í Mosfellssveit, lauk grunnskólaprófi frá Gagnfræðaskólanum í Mosfellssveit og stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund. Síðar lauk hann fiskiðnaðarprófi frá Fiskvinnsluskólanum og MBA-gráðu frá Háskóla Íslands.

Teitur var 11 ára þegar hann fór í sveit á Göngustöðum í Svarfaðardal og kynntist Soffíu, eftirlifandi konu sinni. Þegar hann var 15 ára fór hann í sveit að Valdarási í Húnavatnssýslu og var þar í tvö sumur. Teitur var 17 ára þegar hann fór fyrst í brúarvinnu, vann hann við brúarsmíði í fjögur sumur. Hann vann í frystihúsi Dalvíkur sem verkamaður og einnig sem verkstjóri í fjögur ár. Árið 1985 hóf Teitur störf hjá Sjávarafurðadeild Sambandsins, sem heitir í dag Iceland Seafood, og vann þar alla tíð síðan. Árið 1989 giftist hann Soffíu og bjuggu þau um tíma á Dalvík en lengst af á höfuðborgarsvæðinu, að frátöldum sex árum þegar fjölskyldan bjó í Japan.

Útför hans fór fram í kyrrþey.

Ég á erfitt með að trúa því að elskulegur pabbi minn sé fallinn frá eftir stutta en erfiða baráttu við illskeytt krabbamein. Við vissum allt frá greiningu meinsins að á brattann væri að sækja en vonin er sterk og í hana hélt ég fast alveg fram á síðasta dag. Eftir stöndum við mæðgur og reynum að átta okkur á tilverunni án hans.

Pabbi var einstakur maður. Hann var hjartahlýr, gáfaður og með sterka réttlætiskennd. Það voru mikil forréttindi að fá að eiga hann sem föður og ég á margar góðar minningar um okkur saman. Hann var óþrjótandi viskubrunnur, vissi margt um fugla, fiska, stjörnur og náttúruna. Hann var fljótur að taka eftir og benda mér á skemmtileg fyrirbæri í umhverfi okkar. Ég var ekki há í loftinu þegar ég var farin að þekkja ýmsar fuglategundir og sumar þeirra af söngnum einum.

Sagnagleðin einkenndi líka pabba og hann gat stytt okkur systrum stundir í löngum bílferðum milli Dalvíkur og Reykjavíkur með sögum af tröllum, álfum og huldufólki. Sagan um „Trunt, trunt og tröllin í fjöllunum“ var sögð með svo miklum tilþrifum að við tókum bakföll af hlátri í baksætinu. Hann hafði unun af því að sanka að sér þekkingu og miðla henni. Hann átti það til að fá áráttu fyrir einhverju tilteknu efni og lesa um það endalaust sér til fróðleiks og ég dáðist oft að getu hans til að leggja hin ótrúlegustu smáatriði á minnið.

Hann var duglegur að ganga á fjöll áður en golfið átti hug hans á sumrin og fórum við feðgin í ófáar göngur saman upp á tinda Íslands. Sumarið 2015 gengum við Laugaveginn með góðum hópi úr vinnunni hans og var það yndislegur tími sem við fengum að eiga saman. Síðar fórum við í aðra ferð upp í Kverkfjöll og keyrðum Sprengisandsleið heim. Þetta eru dýrmætar minningar, við gátum ýmist spjallað í marga klukkutíma eða setið saman í þögninni og notið þess eins að eiga stund saman. Skemmtilegast þótti mér þó þegar hann fór á flug og fræddi mig um allt mögulegt, sú tilfinning að hann væri að opna fyrir mér nýjar víddir hvarf mér aldrei.

Pabbi var einstakur faðir en hann var líka frábær afi, alltaf einlægur og hlýr í garð barnanna. Þórdís fæddist 2012 og hann tók afahlutverkið strax alvarlega. Þau áttu afar fallegt samband og urðu fljótt bestu vinir. Þau ár sem við hjónin bjuggum erlendis var pabbi duglegur að heimsækja okkur, en við Elmar vissum alltaf að aðalhvatinn bak við heimsóknir hans var sterk tenging hans við afabarnið sitt. Þau hurfu inn í sinn eigin heim, byggðu heilu borgirnar úr kubbum, lásu ósköpin öll af bókum og gáfu fuglunum að borða. Styrmir fæddist 2017 og þótt tími þeirra saman hafi verið stuttur þá var hann líka góður enda átti pabbi alltaf tíma aflögu fyrir börn sín og barnabörn. Ég vona að ég eigi eftir að vera börnum mínum jafn góð móðir og pabbi var mér góður og kær faðir.

Sorgin er djúp en ég veit að með tíð og tíma verður hún bærilegri. Á meðan ég bíð einbeiti ég mér að þakklætinu fyrir að hafa verið dóttir Teits og sendi honum kveðju mína með hverjum fugli sem verður á minni leið.

Nanna Teitsdóttir.

Elsku pabbi. Mér finnst ég vera allt of ung til að missa þig. Ég á svo erfitt með að sjá fyrir mér lífið án þín. Mér líður eins og Atlas að reyna að halda uppi himninum en ég finn að ég er að þreytast og eina sem mig langar að gera er að sleppa takinu og leyfa himninum að falla. Ég veit að án þín verða sigrarnir aldrei jafn sætir og sorgin verður alltaf sársaukafyllri. Þú varst uppáhaldsferðafélagi minn, en ein uppáhaldsminningin mín úr ferðalagi var þegar við fórum saman á kajak á Havaí og það synti risaskjaldbaka við hlið kajaksins og við sátum þarna alveg þögul að fylgjast með henni.

Orð fá því ekki lýst hvað ég er þakklát fyrir ferðina okkar til Lapplands og hvað það særir mig að við munum ekki fara saman í eyðimerkurferðina okkar sem við töluðum spennt um á meðan við reyndum að ylja okkur við arininn í Nellim. Við gátum setið saman í marga klukkutíma og okkur skorti aldrei umræðuefni, hvort sem það var sagnfræði, fuglategundir eða einfaldlega lífið. Það sem þú kenndir mér mun ávallt fylgja mér, og þá sérstaklega þetta: Gáfur, fegurð og styrkleiki skipta engu máli ef maður er ekki góð manneskja í grunninn. Jette, vinkona þín, sagði svo fallega: „Nú hefur stórt tré í skóginum fallið,“ en að mínu mati var það stærsta tréð sem féll.

Þín dóttir,

Embla.

Teitur bróðir minn er allur. Við erum báðir fæddir í Eyrarhvammi í Mosfellssveit, hann þremur árum eldri, en við vorum yngstir sex systkina.

Hann hafði mikla þolinmæði gagnvart litla bróður sínum sem stundum elti hann eins og skugginn. Oftar en ekki fékk ég að fylgja með og fannst spennandi þegar ævintýri æskunnar voru á næsta leiti.

Veiðiferðirnar voru eftirminnilegar. Ein ferð í Húnavatn þar sem við Teitur vorum með föður okkar. Teitur var alla tíð afar fiskinn. Einn morgun á Brandanesinu lentum við aldeilis í góðri veiði. Á um klukkustund veiddum við tæplega 50 sjóbleikjur. Teitur stóð þar fremstur í flokki. Hann hafði einfaldlega töframátt veiðimannsins.

Á unglingsárum treystum við Teitur enn meir bræðraböndin því sumarið 1978 réð ég mig sem kaupamann að Valdárási í Fitjárdal. Teitur hafði verið þar tvö sumur á undan mér. Þetta sumar hóf hann störf við brúarsmíði. Aðra hvora helgi átti hann frí og kom þá heim að Valdarási og gisti með mér í risherberginu. Það var stoltur litli bróðir sem gekk í sveitastörfin með stóra bróður sínum. Stundum fór Teitur á sveitaböllin í nágrenninu. Kom þá fyrir að hann vakti mig upp á nóttunni eftir heimkomu, ögn slompaður þar sem hann reytti af sér brandara og sagði gamansögur. Fannst mér þetta svo spennandi að ég var farinn að vaka eftir honum þegar halla tók sumri.

Sumarið 1981 elti ég Teit í brúarvinnuflokkinn og naut ég þess að starfa honum við hlið. Ég nýliði en hann einn af reynsluboltunum. Hann var mikils metinn af strákunum í flokknum, kenndi þeim að meta almennilegt rokk og var sem áður hrókur alls fagnaðar.

Þetta sumar gripu örlögin og ástin hressilega inn í líf Teits. Þegar við vorum að brúa Svarfaðardalsá hjá Dalvík kynntist hann Sossu sem síðar varð lífsförunautur hans. Teitur gjörsamlega kolféll fyrir henni og um jólin það ár flutti hann til Dalvíkur þar sem þau hófu búskap. Skipti Teitur algjörlega um gír og gerðist Dalvíkingur inn að beini. Þau eiga dæturnar Nönnu og Emblu. Aflaklóin Teitur gerði fiskinn að ævistarfi. Fyrst í frystihúsinu á Dalvík og síðar sem þátttakandi í fisksölu og útflutningi á erlenda markaði í áratugi. Japansárin voru Teiti og fjölskyldu hans mótandi, hreinlega framandlegt að heimsækja þau eftir heimkomu frá Japan. Húsgögn, myndir og málverk, allt svo töfrandi frá austrænum slóðum.

Árin liðu, samgangur varð minni með árunum en fyrir rúmum tveimur árum hafði Teitur samband við mig og tjáði mér að hann ætlaði að taka húsið hjá sér í gegn og hvort ég vildi ekki sjá um raflagnirnar. Aftur sameinuðumst við bræður í verki. Mikið var spjallað en samræðurnar orðnar dýpri en á unglingsárunum. Hann hafði nýlokið lestri ævisögu Stalíns og rakti hana fyrir mér eins og honum einum var lagið á meðan dregnir voru vírar í rör og raflagnarefni sett á sinn stað.

Í lok mars sl. hringdi hann í mig og sagði mér að hann hafði greinst með krabbamein sem hann tókst á við af æðruleysi og hugrekki allt til loka.

Vertu kært kvaddur Teitur en minningin um um góðan bróður lifir um ókomna tíð.

Trausti.