Ríkið hyggst lækka skatta, en skattgreiðendur eiga meira inni

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sagði að fjármagnstekjuskattur yrði hækkaður í 22%, úr 20%, í upphafi kjörtímabils „í því markmiði að gera skattkerfið réttlátara óháð uppruna tekna. Samhliða verður skattstofn fjármagnstekjuskatts tekinn til endurskoðunar.“ Staðið var við skattahækkunarhluta þessarar yfirlýsingar en hitt, sem átti að gerast samhliða, hefur beðið síðan. Nú hefur fjármálaráðherra kynnt að úr því verði bætt og er það fagnaðarefni. Mikilvægt er að ríkisstjórnir standi við yfirlýsingar sínar og fyrirheit gagnvart fólki og fyrirtækjum í landinu enda gera þessir aðilar ráð fyrir því, jafnvel þó að stundum verði misbrestur á eða tafir á efndum. Í þessu tilfelli eins og öðrum gildir þó að betra er seint en aldrei. Mikið betra.

Í því frumvarpi sem nú liggur fyrir þinginu og lýtur að breytingu á lögum um tekjuskatt og fjármagnstekjuskatt er ákvæði þar sem kveðið er á um að þeir sem selji sumarhús sem þeir hafi átt í fimm ár hið minnsta, geti selt þau án þess að skattskylda myndist, líkt og um íbúðarhúsnæði væri að ræða, með ákveðnum skilyrðum um stærðarmörk. Um leið sleppur fólk við skerðingu á tekjutengdum bótum úr almannatryggingum þegar sumarhús er selt. Þetta er mikið hagsmunamál, einkum fyrir fjölda eldra fólks sem átt hefur sumarhús lengi en vill nú eða beinlínis þarf að selja það vegna breyttra aðstæðna. Hingað til hefur það lent í skattgreiðslum og skerðingum en með þessari lagabreytingu hverfur sú skattskylda og verður það að teljast réttlætismál, töluvert jafnvel, eins og sést af því að í greinargerð með frumvarpinu segir að ríkið muni vegna þessa missa tekjur á bilinu 600-700 milljónir króna á ári.

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að frítekjumark vaxtatekna tvöfaldist, fari úr 150.000 krónum í 300.000 krónur og að það nái einnig til arðstekna og söluhagnaðar skráðra félaga. Þetta skiptir einnig máli, léttir skattgreiðslur almennings auk þess að stuðla að fjárfestingum. Í grein í Morgunblaðinu á laugardag benti fjármálaráðherra á að með þessu yrði „auðveldara að ávaxta sparifé með fjölbreyttari hætti og á sama tíma er stuðlað að mikilvægri viðspyrnu fyrir efnahagslífið. Með þátttöku almennings á markaði fá íslensk fyrirtæki vind í seglin og geta ráðið og haldið starfsfólki. Ávinningurinn er allra.“

Í greinargerð frumvarpsins segir að áætlað sé að tekjur ríkissjóðs minnki árlega um 770 milljónir króna við þessa breytingu. Með áhrifum af öðrum breytingum sem lagðar eru til í þessu frumvarpi segir í greinargerðinni að gert sé ráð fyrir því að heildarlækkun tekna ríkissjóðs verði um 1,5-1,8 milljarðar króna á ári.

Þessi lækkun er kærkomin en hana verður vitaskuld að skoða með hliðsjón af áhrifum þeirrar hækkunar fjármagnstekjuskattsins sem gerð var í upphafi kjörtímabils. Í því frumvarpi sem lagt var fram fyrir þremur árum og hækkaði skattinn úr 20% í 22% kom fram að áhrifin af hækkuninni á tekjur ríkissjóðs væru áætluð 1,6 milljarðar króna árið 2018 en 2,6 milljarðar króna árlega eftir það.

Þegar horft er til þessara talna er ljóst að þær breytingar sem nú eru lagðar til, þó að jákvæðar séu, duga ekki til að vega upp þau neikvæðu áhrif sem skattahækkunin árið 2017 hafði á skattgreiðendur. Þetta þarf ekki að koma á óvart. Skattgreiðendur draga yfirleitt stutta stráið í samskiptum sínum við hið opinbera, sveitarfélögin ekki síður en ríkið. Umsvif hins opinbera hafa tilhneigingu til að fara vaxandi, þar með talinn fjöldi opinberra starfa og skattbyrðin að sjálfsögðu sömuleiðis. Lækkun skatta gengur almennt hægt fyrir sig og kemur oftast í smáum skrefum ef hún næst fram á annað borð, en skattahækkanir lúta öðrum lögmálum. Þær eru gjarnan framkvæmdar án tafar og án nauðsynlegs hófs.

Um leið og þessu skrefi er fagnað skiptir máli að hafa þetta í huga. Það ætti þingið að gera þegar það fjallar um málið. Það er svigrúm til að ganga enn lengra.