[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Kínverska geimferðastofnunin tilkynnti í gær að könnunarfar hennar, Chang'e 5, sem safnaði tunglgrýti og jarðvegssýnum í síðustu viku, hefði náð að tengjast eldflauginni sem á að flytja sýnin heim til jarðar, en bæði för voru þá á sporbraut um tunglið.

Sviðsljós

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Kínverska geimferðastofnunin tilkynnti í gær að könnunarfar hennar, Chang'e 5, sem safnaði tunglgrýti og jarðvegssýnum í síðustu viku, hefði náð að tengjast eldflauginni sem á að flytja sýnin heim til jarðar, en bæði för voru þá á sporbraut um tunglið.

Þetta er í fyrsta sinn sem Kínverjar ná að framkvæma slíka aðgerð, en þeir hafa tekið stórstígum framförum í könnun geimsins á undanförnum árum, ekki síst með tunglferðaáætlun sinni, sem heitir Chang'e í höfuðið á gyðju tunglsins í kínverskri goðafræði. Þeir stefna þó enn lengra, og má segja að leiðangurinn nú hafi einungis verið áfangastaður í kapphlaupi stórveldanna og fleiri um að senda fyrsta manninn á yfirborð Mars.

Fyrstu sýnin í fjörutíu ár

Könnunarfarið og eldflaugin sem tengdust í gær eiga nú fyrir höndum um tíu daga ferðalag, en gert er ráð fyrir því að farið lendi aftur á jörðinni, með sýnin sem tekin voru á tunglinu, í kringum 17. desember.

Gangi allt að óskum munu Kínverjar komast í útvalinn hóp þjóða, sem hafa náð að sækja grjót frá tunglinu, en einungis Bandaríkjamenn og Rússar hafa náð þeim árangri áður. Þá verður þetta í fyrsta sinn í rúm fjörutíu ár sem sýni fást af tunglinu, en sovéska könnunarfarið Luna 24 gerði það síðast árið 1976.

Mikill ávinningur er talinn af jarðvegssöfnun Kínverja nú, því að jarðvegur tunglsins er ekki einsleitur, frekar en hann er á jörðu niðri, og því er talið að sýnin geti varpað frekara ljósi á það hvernig tunglið varð til og myndaðist, sem og upplýsingar um mögulega eldgosavirkni þar einhvern tímann í fyrndinni, en engin virk eldfjöll eru nú á tunglinu.

Það er þó ekki bara vísindalegur ávinningur af sýnasöfnuninni, heldur hafa Kínverjar ásamt öðrum stórveldum heimsins sýnt því aukinn áhuga á undanförnum árum að nýta þær auðlindir og góðmálma sem fyrirfinnast á tunglinu, en þar er að finna ýmiss konar efni, sem eru af skornum skammti hér á jörðu. Mun Chang'e 5-könnunarfarið því einnig hafa tekið litrófsmyndir af yfirborði tunglsins, sem geta aðstoðað Kínverja við að greina hvar slíka málma er að finna.

Yfirlýsing til umheimsins

Þá má einnig lesa út úr leiðangrinum öfluga yfirlýsingu til umheimsins um fyrirætlanir Kínverja í geimnum á komandi árum. Þeir hafa varið miklu fjármagni í geimferðaáætlun sína og hafa þannig saxað jafnt og þétt á það mikla forskot sem Bandaríkjamenn og Rússar byggðu upp á árum kalda stríðsins. Þátttaka í geimrannsóknum er því nokkurs konar tákn um stöðu Kínverja sem vaxandi risaveldis og um stöðu þeirra sem leiðtoga í þróun tækni.

Hugur Kínverja hefur raunar staðið til þess allt frá því Sovétmenn sendu Spútník á loft árið 1957, en þá hét Maó Zedong, leiðtogi Kína, því að Kínverjar myndu einnig halda út í geiminn. Það markmið náðist þó ekki fyrr en árið 1970.

Kínverjar sendu svo fyrsta manninn út í geim árið 2003, þegar Yang Liwei fór á sporbaug og fór þar 14 sinnum umhverfis jörðina meðan á 21 tíma geimferðalagi hans stóð.

Kínverjum var ekki boðið að taka þátt í Alþjóðlegu geimstöðinni, en þeir hyggjast reisa sína eigin og á hún að taka til starfa árið 2022.

Líkt og fyrr sagði vilja Kínverjar senda mann til tunglsins, en einungis Bandaríkjamenn hafa náð þeim árangri áður. Er nú stefnt að því að fyrsti Kínverjinn stígi fæti á tungið fyrir árið 2029.

Um svipað leyti stefna Kínverjar að því að sækja jarðvegssýni til Mars með ómönnuðum könnunarförum og þar á eftir er stefnt að því að senda mann til Mars. Þar eru þeir þó ekki einir um hituna, en bæði Rússar og Bandaríkjamenn, sem og fyrirtækið SpaceX, hafa gert slíka ferð að yfirlýstu markmiði sínu. Hitt er þó víst, að Kínverjar eru komnir af fullum krafti í geimferðakapphlaupið.