Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is
Þetta er sannarlega besta jólagjöfin, að fá Sölku aftur í fangið svona rétt fyrir jól,“ segir Hólmfríður Eva Björnsdóttir en hún og kisan hennar Salka voru óvænt sameinaðar á ný, eftir tveggja ára aðskilnað.
„Þetta er ótrúlegt, mér datt ekki í hug að hún væri lifandi, við vorum löngu búin að gera ráð fyrir að hún væri dauð,“ segir Hólmfríður sem rifjar upp þegar Salka kom fyrst inn í líf hennar.
„Ég fékk Sölku sem kettling hjá Villiköttum í janúar árið 2015. Hún hafði fundist nær dauða en lífi úti á víðavangi, þá þriggja mánaða gömul. Hún var yndisleg og fyrst og fremst kisan mín, þótt fleiri byggju á heimilinu. Salka bjó hjá okkur í þrjú og hálft ár, en þá flutti ég í íbúð þar sem ekki mátti hafa kisur, svo ég þurfti að finna nýtt heimili fyrir hana. Hún fékk yndislega nýja eigendur en aðeins viku seinna hringdi konan í mig og sagði að Salka hefði sloppið út og væri týnd. Hún hafði alltaf verið inniköttur hjá okkur og átti að vera það hjá þeim líka á nýja heimilinu, en slapp óvart út. Þetta var mjög erfitt fyrir mig, því Salka var mjög háð mér og ég fékk samviskubit, fyrst hún strauk af nýja heimilinu. Við fengum strax fellibúr hjá Villiköttum til að freista þess að ná henni. Við settum lokkandi mat í búrið þar sem við komum því fyrir utan við Hvassaleitið þar sem nýja heimilið hennar var, en hún lét ekki sjá sig. Salka hafði búið með mér í Kópavoginum og kannski hefur hún reynt að leggja af stað alla þessa leið aftur heim, en ekki komist yfir allar þær hindranir sem eru á leiðinni. Ég efast ekki um að flutningarnir hafa verið mikil viðbrigði fyrir hana, hún var líka frekar stygg við annað fólk en mig,“ segir Hólmfríður og bætir við að hún hafi verið alveg miður sín yfir því að Salka væri týnd.
„Það var rosalega erfitt fyrir mig að sætta mig við það. Hún týndist í lok júní sumarið 2018 og eftir að hafa reynt að ná henni í fellibúr í þrjá mánuði gáfumst við upp. Við töldum hana af, gerðum ráð fyrir að hún hefði drepist, orðið fyrir bíl eða dáið af öðrum orsökum. Við auglýstum eftir henni, fólk tók þátt í því með okkur að leita að henni og við báðum fólk að hafa augun opin fyrir henni ef það yrði vart við hana í hverfinu, en engar vísbendingar um ferðir hennar komu fram.“
Í leit að æti við ruslatunnur
Þetta var fyrir rúmum tveimur árum, en í síðustu viku fékk Hólmfríður óvænt skilaboð frá stelpu sem heitir Bríet og býr í Hvassaleitinu.„Hún spurði mig hvort ég hefði einhvern tíma átt kisu sem hét Salka. Ég hélt það nú, og svaraði því strax játandi. Hún sagðist hafa orðið vör við kisu sem hefði í nokkrar vikur verið að sniglast í ruslinu utan við heimili hennar, greinilega að leita sér að æti. Hún hafði náð mynd af henni sem hún sendi mér og ég sá strax að þetta var Salka. Bríet hafði sett myndina af Sölku á Kattavaktina á facebook og þar fékk hún skilaboð frá konu sem heitir Dodda Lára, sem bar kennsl á Sölku. Dodda Lára er sú sem hafði fundið hana sem illa farinn villikettling á sínum tíma, sú sem bjargaði lífi hennar og fór með hana til Villikatta, þar sem ég svo fékk hana. Dodda Lára þekkti Sölku, enda er hún sérstök á litinn, þrílit með svartan blett beint framan á nebbanum. Dodda Lára gaf svo Bríeti upp nafnið mitt sem fyrrverandi eiganda og þannig komst þetta allt rétta boðleið.“
Hólmfríður segir að Bríet hafi síðan náð Sölku í fellibúr og þá hafi hún farið með hana til Villikatta.
„Arndís sem vinnur þar tók Sölku með sér heim og gætti hennar þar til ég kom að sækja hana. Þetta voru góðir endurfundir. Salka þekkti mig greinilega strax því hún byrjaði að mala um leið og ég klappaði henni. Hún var stygg við Arndísi og vildi ekki éta neitt hjá þeim og sneri sér fljótt undan, en hún hvæsti samt ekki eða klóraði frá sér. Hún var greinilega vör um sig, eðlilega, eftir að hafa verið á vergangi í rúm tvö ár,“ segir Hólmfríður og bætir við að Salka hafi verið alveg róleg þegar hún nálgaðist hana og hún hafi étið úr lófa hennar.
„Ég held hún hafi þekkt lyktina af mér og röddina, og við það róaðist hún. Ég fór með hana heim og núna malar hún og malar, hún er alveg alsæl að vera komin aftur til mín eftir að hafa verið týnd í tvö ár. Hún fleygir sér á bakið og vill að við klöppum henni á bumbuna. Þetta er yndislegt.“
Sannkölluð seiglukisa
Hólmfríður segir að Salka sé í ágætum holdum og ekki illa á sig komin.„Hún var ekki einu sinni neitt mjög skítug þegar hún náðist, hún hefur greinilega verið dugleg að bjarga sér. Hún er sannkölluð seiglukisa. Hún hefur einhvers staðar komist í mat og væntanlega hefur einhver aumkað sig yfir hana og gefið henni, þótt hún hafi verið stygg. Kona sem skrifaði athugasemd á facebooksíðunni þar sem Salka var auglýst eftir að hún fannst sagði að hún hefði stundum komið inn um kattalúguna hjá sér og étið mat hjá kisunum sínum. Hún hefur greinilega kunnað að redda sér,“ segir Hólmfríður sem nú getur haft Sölku hjá sér, því hún flutti fyrir stuttu, núna í október, í nýja íbúð með sérinngangi.
„Við fluttum þá úr íbúðinni þar sem mátti ekki hafa kisu, þannig að ef Salka hefði fundist tveimur mánuðum fyrr hefðum við ekki getað tekið hana til okkar. Þetta er því fullkomin tímasetning.“
Salka verður innikisa, eins og hún var, enda segist Hólmfríður hafa misst aðra kisu fyrir bíl, og það sé hræðilegt.
„Það væri líka stressandi að hafa hana úti og óttast að hún mundi hverfa aftur. Salka er nýorðin sex ára, því hún fæddist í lok árs 2014, svo hún gæti átt eftir að vera hjá okkur næstu tíu ár. Það er svo ótrúlega gott að fá hana aftur og ég er enn að átta mig á þessu, að það sé raunverulegt að hún sé hérna hjá okkur og sé komin til að vera. Það verður gaman að halda jólin með henni.“