Því það er náttúrlega fátt mikilvægara á jólum en að halda í venjur til að tryggja að öll jól renni saman í ein í minningunni.

Jólin eru dásamleg. Sama hvernig árar eru þau flestum yndisleg hátíð þar sem fjölskyldur koma saman, njóta hátíðarinnar og borða góðan mat. Opna pakka, spila og bara almennt njóta þess að vera saman.

En jólin breytast. Þau fara frá því að vera ótrúlega spennandi tími með gjöfum sem koma á óvart í að vera nokkurra daga törn þar sem allt þarf að skipuleggja í hengla. Óskalistar breytast í excel-skjöl, ábyrgðin vex og pressan eykst. Og hvað sem líður góðum ásetningi um að byrja snemma næst hefur sagan tilhneigingu til að endurtaka sig og allt í einu áttar maður sig á að það þarf að redda ansi mörgu á lokametrunum.

Þegar ég var lítill var ég starfsmaður á plani í jólaundirbúningnum. Ég þurfti bara að mæta og sinna mínu starfi. Það var einfalt: Þykjast taka til í herberginu mínu, kaupa gjafir handa mömmu og pabba og bræðrum mínum og reyna að komast í gegnum aðfangadag án þess að brjóta neitt og springa ekki úr spenningi.

Svo verður maður fullorðinn, eignast slatta af börnum og jafnvel barnabörnum, og allt í einu er maður orðinn einhvers konar verkefnisstjóri jólanna. Eða yfirmaður framkvæmdasviðs jólahátíðarinnar, eins og það héti ef maður væri hjá hinu opinbera.

Það er undir manni sjálfum komið hvort allt verður í lagi. Búið að kaupa allar gjafirnar, allan matinn og sjá til þess að allar hefðirnar séu á sínum stað. Því það er náttúrlega fátt mikilvægara á jólum en að halda í venjur til að tryggja að öll jól renni saman í ein í minningunni. Ég hef reyndar daðrað við ákveðnar breytingar síðustu ár, enda haldið jólin í útlöndum. Það er alls ekki í boði núna og þá liggur í augum uppi að maður gerir bara allt eins og venjulega.

Þetta er ekki einfalt starf. Það þarf að fela jólagjafirnar, finna eitthvað sem mögulega gæti komið á óvart (sem verður erfiðara með hverju árinu), þrífa, kaupa í matinn, elda og sjá til þess að allt sé á sínum stað.

Til að bregðast við þessari ábyrgð höfum við hjónin tekið upp þann einstaklega ójólalega sið að setja þessa hátíð upp í excel-skjöl, eins og ég hef ábyggilega talað um einhvern tímann áður í pistli. Í jólamöppunni er listi með gjöfum ársins, litakóðar sem segja til um hver staðan sé (búið að ákveða, kaupa, pakka inn og skila) og dálkar með jólagjöfum fyrri ára svo við gefum ekki sömu gjöfina aftur. Frekar fjarri þeim hugmyndum sem ég hafði um jólin þegar ég var lítill drengur sem gat ekki beðið eftir að klukkurnar hringdu inn jólin.

Svo gerir maður bara sitt besta og þetta fer allt einhvern veginn. Þessi jólaundirbúningur hefur samt verið skrýtnari en venjulega, í takt við annað á þessu ári. Fjöldatakmarkanir og fjarlægðarmörk hafa sett svip sinn á búðarferðir og sennilega verður jólahaldið sjálft dálítið spes. Ég sé þetta alveg fyrir mér: Allir í tíu manna jólakúlunni búnir að spritta sig, slá saman olnbogunum til að óska hver öðrum gleðilegra jóla og þykjast halda tveggja metra fjarlægð við þá sem ekki búa á sama heimili.

En það gleymist örugglega þegar sest er niður á aðfangadagskvöld. Messan ómar í útvarpinu, pakkarnir bíða og spennan vex.

Eins mikið og ég elska jólin þá tengi ég æ meira við minninguna um mömmu, sitjandi í stólnum sínum og horfandi yfir stofuna, fulla af jólapappír og gjafir út um allt að segja: Æ, það er gott að þetta er búið!

Gleðileg jól, elskurnar mínar.