Guðmundur Lárusson fæddist á Seyðisfirði 1. mars 1941. Hann andaðist á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 7. desember 2020. Foreldrar hans voru hjónin Lárus Haraldur Guðmundsson, kennari á Raufarhöfn og Vestmanneyjum, f. 28. apríl 1909 í Reykjavík, d. 18. nóvember 1975 í Reykjavík, og Sigríður Jónsdóttir húsmóðir, f. 17. apríl 1912 á Fáskrúðsfirði, d. 14 mars 1994 í Vestmannaeyjum. Systkini Guðmundar eru Már, f. 10. febrúar 1936, d. 25. október 1998, Margrét Ingibjörg, f. 2. maí 1949, og Jóna Ágústa, f. 12. júní 1951.
Guðmundur kvæntist 29. desember 1966 Björk Vilhelmsdóttur, f. 7. júní 1940 á Siglufirði. Foreldrar hennar voru hjónin Vilhelm Friðriksson, f. 7. september 1921, d. 9. mars 2006, og Margrét Stefánsdóttir, f. 1. mars 1917, d. 5. júlí 1990. Börn þeirra Guðmundar og Bjarkar eru: 1) Lárus Ingi, f. 27. apríl 1963 á Siglufirði, búsettur í Reykjavík. 2) Vilhelm Már, f. 14. ágúst 1972 á Siglufirði, búsettur í San Diego, Bandaríkjunum, giftur Körlu A. Garcia, f. 5. maí 1978 í Guaymas, Mexíkó. Börn þeirra eru Christian Glói, f. 2002, og Karl Andreas, f. 2004. 3) Brynjar, f. 23. maí 1975 á Siglufirði, búsettur í Mosfellsbæ, í sambúð með Hrönn Jónasdóttur, f. 24. júlí 1978. Börn hans eru Ingvar Guðberg, f. 1995, og Linda Björk f. 2002.
Guðmundur sleit barnsskónum á Raufarhöfn en flutti til Siglufjarðar 17 ára gamall og lærði til meistaraprófs í rafvélavirkjun hjá Síldarverksmiðjum ríkisins þar sem hann starfaði um árabil. Árið 1972 stofnaði hann Rafbæ ásamt tveimur vinnufélögum þar sem hann vann það sem eftir lifði starfsævinnar.
Hann var virkur í starfi Alþýðubandalagsins á yngri árum sem og félagsmálum og íþróttastarfi á Siglufirði þar sem hann var einn af stofnendum Golfklúbbs Siglufjarðar og sat í stjórnum Kiwanis, skíðafélagsins og stangveiðifélagsins.
Guðmundur verður jarðsunginn frá Siglufjarðarkirkju í dag, 19. desember 2020, kl. 15.
Streymt verður frá athöfninni, hlekk þess efnis má finna á Facebook-síðu Siglufjarðarkirkju:
Stytt slóð á streymi:
Virkan hlekk á streymi má nálgast á:
Elsku faðir minn, nú þegar ég kveð þig þá skilur þú svo mikið eftir fyrir mig til að minnast þín. Ófáu ferðirnar að skutla og sækja á skíði, ferðirnar inn í Fljót að veiða og sumarfrísferðirnar í tjaldi eru meðal þess sem kemur upp í hugann á svona stundu.
Sú stund þegar þú komst heim með þann stóra úr Fljótaánni eða metfjölda laxa úr sömu á fullur af stolti og brosandi hringinn.
Þær stundir sem þú lagðir hverja stórsteikina á borð fyrir okkur fjölskylduna. Allt það æðruleysi sem þú sýndir í gegnum þín veikindi, þau voru þér ekki mikið til tjóns heldur frekar verkefni sem þurfti að leysa og þú komst þér á fætur og upp á fjöll fyrr en nokkurn grunaði.
Þó að síðustu veikindin þín, MND, sé ólæknandi sjúkdómur, þá var engin uppgjöf og veikindin ekki nein vorkunn hjá þér, heldur eitt stórt verkefni sem þurfti að klára. Þú lést manni alltaf líða vel þegar ég kom í heimsókn og skipti það engu hvar það var eða hvernig ástandið á þér var. Þú kvaddir alltaf þannig að manni leið vel og allt yrði í lagi og það gerðir þú einnig á lokametrunum þínum þegar ég kvaddi þig í síðasta sinn.
Þó að MND-veikindi klárist bara á einn veg þá barðist þú til síðasta dags með jákvæðni og húmor að vopni. Er það veganesti sem ég tek með mér frá þér elsku pabbi minn. Hvíldu í friði.
Brynjar Guðmundsson.
Linda Björk Brynjarsdóttir.
Hún amma var nýbúin að hjálpa honum inn eftir að hafa setið úti þegar ég hringi og segist vera að koma í heimsókn. Þegar ég kem þá segir hún mér að þegar hann frétti að ég væri á leiðinni þá hafi hann staðið strax aftur upp og brunað sjálfur út alveg hjálparlaust þrátt fyrir að hafa verið slæmur í fætinum.
Hann var alltaf svo spenntur að hitta alla og tók á móti öllum með brosi.
Hann var alltaf með í öllum samræðum sama hvað. Og hann ætlaði alls ekki að láta veikindi sín stoppa sig í neinu. Að sjá hvernig hann tæklaði allar þessar hindranir sem hann varð fyrir á lífsleiðinni kenndi mér svo margt og ég mun alltaf líta mjög mikið upp til hans og minnast margra góðra stunda sem við áttum saman, ekki síst þegar maður var lítill pjakkur að stelast í bjórinn hans þegar hann fór að pissa á meðan við horfðum saman á Liverpool í sjónvarpinu, veiðiferðin sem við fórum í á gamla molanum eða öll þau skipti sem við grilluðum saman úti á palli.
„You never walk alone.“
Ingvar Guðberg
Brynjarsson.
Segja má að alvörukynni frænkunnar hafi hafist þegar hún var í fóstri hjá Guðmundi eða Mumma eins og hann var jafnan kallaður innan fjölskyldunnar og Björk eða Gódí sem var hennar auknefni.
Þar höfðu þau það sérstaka verkefni að hemja frekjuna og gelgjuna úr stelpunni en hún hafði verið send til þeirra eftir að fjölskyldan hafði þurft að flýja Vestmannaeyjar eftir gosið 1973.
Það verkefni leystu þau hjónin af stakri prýði eins og þeirra var von og vísa.
Þessi kynni voru síðan endurnýjuð hressilega þegar við hjónin fluttum til Siglufjarðar sumarið 1987. Það var okkur happafengur að eiga þau hjónin að.
Frá byrjun nutum við einstakrar hjálpsemi þeirra og krakkarnir okkar eignuðust nýja afa og ömmu sem ekki voru eins langt í burtu og þau sem bjuggu í Neskaupstað og Reykjavík.
Samskipti okkar voru öll þessi ár sem við bjuggum á Siglufirði með þeim hætti að við vorum að mestu leyti þiggjendur en þau veitendur og voru þau fjölskyldunni ávallt innan handar þegar á reyndi.
Af mörgum hlutum er vert að telja ótrúlega þolinmæði Mumma við að sinna kvabbi frænku sinnar yfir veseni með þvottavél heimilisins auk ýmissa úrræða vegna klaufaskapar húsbóndans á heimilinu.
Mummi var um áratuga skeið rafvélavirki hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Hafði hann lært til þessa starfs á Raufarhöfn þar sem hann var alinn upp.
Hans starf var síðan að mestu bundið við Siglufjörð en þurfti starfsins vegna að fara umtalsvert á milli verksmiðjanna enda þær eins og flestir vita staðsettar um norðan- og austanvert landið. Mummi var hafsjór af sögum frá þessum tíma.
Margar stórskemmtilegar fengum við að heyra frá þessum árum. Upp í hugann koma meðal annars saga hans frá Raufarhöfn þegar Mummi var að keyra Malla og Lullu frá Raufarhöfn með fullan bíl af blómum og varð fyrir því óláni að velta bílnum og þau hjónin sátu í blómahafinu. Ein af stórskemmtilegum sögum frá Seyðisfirði er af soðkjarnasnillingnum sem missti „vaccuumið“ í sjóinn við lítinn fögnuð Einars Magg.
Mummi var mikill veiðiáhugamaður og mikill veiðimaður. Bauð hann húsbóndanum oft með sér inn í Fljótaá. Þar kynntist maður alvöruveiðimanni. Það var rekki neitt hangs yfir hyljum og strengjum.
Þar var farið yfir svæðið oftar en einu sinni í túr og enginn staður skilinn eftir. Enda árangurinn eftir því, mikill afli. Enda var alltaf til lax til heima hjá Mumma og Gódí. Fjölskylda okkar naut mjög oft góðs af því. Við heimsóttum þau oft í kaffi og þá var alltaf til grafinn og reyktur lax á borðum.
Væri gott veður skellti Mummi laxi á grillið og var þá mikið um dýrðir.
Sérstaklega eru áramótin heima hjá Mumma og Gódí eftirminnileg. Þá komum við alltaf fjölskyldan heim til þeirra á gamlárskvöld og vorum saman um áramótin.
Þetta voru yndislegar stundir.
Nú að leiðarlokum viljum við þakka einstaka vináttu og hjálpsemi í okkar garð. Við mælum einnig fyrir munn Guðlaugar og Lárusar. Elsku Gódí, Lárus Ingi, Villi og Brynjar, við sendum ykkur og fjölskyldum ykkar okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Vertu sæll Mummi okkar, hafðu þökk fyrir allt og allt.
Sigríður (Sigga) Fanný og Þórhallur.
Ein jólin gaf hann okkur þrautir sem við lékum okkur með svo mánuðum skipti. Þótt íslenskan okkar næði ekki lengra en að segja „takk afi“ og við skildum ekki svarið sem væntanlega var „mín er ánægjan“ var faðmlag hans og þel þess eðlis að ekki þurfti orða við.
Í San Diego fór hann alltaf með okkur út að labba og alltaf tókst honum að sína okkur eitthvað nýtt.
Í eitt skiptið tók hann gult blóm sem okkur fannst ansi ómerkilegt og nuddaði því milli fingranna og leyfði okkur að finna lyktina. Það var sæt og góð lykt og nú í hvert skipti sem við förum út að labba á einhverjum stíg gerum við það sama og minnumst afa. Við elskum þig mikið og þín er sárt saknað afi.
Christian and Karl.