Dýpkað við löndunarkranana Útbúið var athafnasvæði fyrir tækin úti í sjó þegar Sandgerðishöfn var dýpkuð.
Dýpkað við löndunarkranana Útbúið var athafnasvæði fyrir tækin úti í sjó þegar Sandgerðishöfn var dýpkuð. — Morgunblaðið/Reynir Sveinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Reynir Sveinsson Sandgerði Heimsfaraldurinn Covid-19 hefur komið víða við, þótt ekki hafi Sandgerðingar fallið fyrir honum enda hafa bæjarbúar tekið þessu af skynsemi.

Úr bæjarlífinu

Reynir Sveinsson

Sandgerði

Heimsfaraldurinn Covid-19 hefur komið víða við, þótt ekki hafi Sandgerðingar fallið fyrir honum enda hafa bæjarbúar tekið þessu af skynsemi. Grímuskylda hefur verið virt mjög vel, öllum samkomum hefur verið slegið á frest, má þar nefna kirkjustarf, starfsemi Lionsklúbbsins o.fl. Það er vonandi að þessi blessuð veira verði sigruð fljótt á næsta ári.

Mikið hefur verið unnið að lagfæringum á húsum eftir að ríkisstjórnin ákvað að virðisaukakattur af vinnu við viðhald á húsum fengist endurgreiddur. Þetta hefur hvatt húseigendur til lagfæringa. Á þetta líka við um fyrirtæki og má víða sjá breytingar til hins betra.

Töluverðar steinsteypuviðgerðir hafa að undanförnu verið á Sandgerðiskirkju og Hvalsneskirkju. Hvalsneskirkja er 132 ára gömul og hlaðin úr grágrýti. Þar voru steypufúgur víða lausar og óþéttar. Það er vandasamt verk að lagfæra steinfúgur í svona gömlu húsi, en það tókst vel. Í Sandgerðiskirkju voru töluverðar sprungur komnar í pússningu á þakkanti sem nú er búið að lagfæra, auk þess var skipt um þakdúk sem var farinn að leka.

Skeljahverfi er nafnið á nýju íbúðarhverfi sem búið er að hanna ofan við íþróttavöllinn við Stafnesveg. Eftir áramót verður farið í útboð á gatna- og lagnakerfi í hluta hverfisins. Í fyrsta áfanga verða 136 íbúðir af ýmsum gerðum, nú er unnið við að leggja fráveitulögn frá væntanlegu hverfi. Lögnin fer eftir Stafnesvegi og í gegnum Miðtúnshverfið að lögn við Sjávargötu. Á þessu ári hafa verið byggðar 18 íbúðir í Sandgerði og 13 í Garði.

Göngu- og hjólastígur hefur verið lagður milli Sandgerðis og Garðs. Stígurinn er um fjórir kílómetrar, malbikaður og upplýstur með 100 ljósastaurum. Almenn ánægja er með stíginn og er hann töluvert notaður.

Litlu plastbátarnir sem áður gátu siglt undir löndunarkranana í höfninni eru nú margir orðnir um 15 til 30 tonna bátar og rista dýpra. Það kom oft fyrir að þeir rækju skrúfuna utan í grjót á botninum. Því var hafist handa við að dýpka svæðið við löndunarkranana en þess má geta að á þessu svæði eru fimm löndunarkranar og oft smá löndunarbið. Vinna við dýpkunina var nokkuð sérstök. Tvær öflugar beltagröfur unnu verkið á fjöru, önnur með fleyg og hin mokaði efninu upp og því komið í stóran haug á hafnarsvæðinu.

Landbrot hefur verið víða við vesturströndina til margra ára. Nú er verið að styrkja ströndina við Hvalsneshverfið og er möl og grjót sem kom upp úr dýpkun í Sandgerðishöfn notað í sjóvörnina. Það er talið að vinna við landbrot víða við vesturströndina verði fram á næsta vor.

Meistaraflokkur Reynis fagnaði góðu gengi í knattspyrnu á árinu. Félagið vann sig upp um deild og hefur verið að kynna efnilega leikmenn sem munu keppa á næsta keppnistímabili.