Sparkendur á Englandi komast ekki á frí um jólin fremur en endranær; þvert á móti er aukið við álagið á þá góðu drengi. Veislan hefst annan í jólum með sex leikjum og þeirri umferð lýkur daginn eftir, sunnudaginn 27. desember. Næsta umferð hefst strax mánudaginn 28. desember og verða leikir á dagskrá í úrvalsdeildinni daglega til mánudagsins 4. janúar, að gamlársdegi undanskildum, sem skýtur skökku við; það er ekki eins og búið sé að bjóða mönnum í samkvæmi eða á brennu.
Af forvitnilegum leikjum má nefna Lundúnaslag Arsenal og Chelsea á öðrum degi jóla; viðureign Úlfanna og Tottenham Hotspur 27. desember og heimsókn meistara Liverpool til Newcastle 30. desember. Manchester United og Aston Villa heilsa nýju ári í Leikhúsi draumanna; Manchester City mætir á Brúna 2. janúar og törninni lýkur á mögulegum toppslag Southampton og Liverpool á Maríuvangi 4. janúar.