Óstöðvandi Nora Mörk hefur spilað frábærlega á EM í Danmörku og mótherjar hennar í keppninni hafa ráðið illa við hana í varnarleiknum.
Óstöðvandi Nora Mörk hefur spilað frábærlega á EM í Danmörku og mótherjar hennar í keppninni hafa ráðið illa við hana í varnarleiknum. — AFP
Þórir Hergeirsson og lærikonur hans í norska landsliðinu í handknattleik leika til úrslita á EM kvenna sem fram fer í Danmörku þessa dagana en þetta er í fimmta sinn á tíu árum sem liðið kemst í úrslitaleik Evrópumótsins.

Þórir Hergeirsson og lærikonur hans í norska landsliðinu í handknattleik leika til úrslita á EM kvenna sem fram fer í Danmörku þessa dagana en þetta er í fimmta sinn á tíu árum sem liðið kemst í úrslitaleik Evrópumótsins.

Norðmenn unnu þriggja marka sigur gegn Dönum í undanúrslitum í Herning í gær en leiknum lauk með 27:24-sigri norska liðsins.

Noregur komst í hann krappann í fyrri hálfleik en liðið lenti fjórum mörkum undir þegar tíu mínútur voru eftir af hálfleiknum. Norðmenn skoruðu síðasta mark fyrri hálfleiks og tókst að minnka muninn í þrjú mörk. Danir leiddu því 13:10 í hálfleik.

Norðmenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og tókst að jafna metin í 14:14 eftir rúmlega fimm mínútna leik. Jafnræði var með liðunum eftir það en þegar tíu mínútur voru til leiksloka hrökk norska liðið í gang, skoraði sjö mörk gegn tveimur mörkum danska liðsins, og fagnaði þæglegum endurkomusigri í leikslok.

Nora Mörk var markahæst í norska liðinu sem fyrr og skoraði sex mörk. Hún er markahæsti leikmaður mótsins með 48 mörk í sjö leikjum en hún er með 77% skotnýtingu á mótinu til þessa.

Noregur hefur sjö sinnum fagnað sigri á EM en ekkert lið hefur unnið keppnina oftar. Þá hefur liðið þrívegis fengið silfur og einu sinni brons en Noregur mætir ríkjandi Evrópumeisturum Frakklands í úrslitaleik í Herning á sunnudaginn.

Frakkar unnu afar öruggan ellefu marka sigur gegn Króötum í undanúrslitum í Herning, 30:19, en staðan að loknum fyrri hálfleik var 15:5, Frökkum í vil.

Frakkar eiga titil að verja í keppninni en liðið vann 24:21-sigur gegn Rússum í úrslitaleik í París á EM í Frakklandi 2018.

Einvígi Frakka og Norðmanna í úrslitum verður afar forvitnilegt en á meðan Frakkar hafa spilað stórkostlegan varnarleik á mótinu til þessa hefur sóknarleikurinn verið sterkasta hlið Norðmanna. Þá leika þrír af tíu markahæstu leikmönnum mótsins með Noregi, þær Mörk, Camilla Herrem og Stina Oftedal. Á meðan Frakkar eiga einn fulltrúa á listanum, Alexöndru Lacrabére.