[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Á allra seinustu metrunum fyrir jólaleyfi þingmanna afgreiðir Alþingi fjárlög fyrir næsta ár í endanlegri mynd og ennfremur fjáraukalög vegna yfirstandandi árs, þau fimmtu á þessu ári vegna kórónukreppunnar, með ýmsum tillögum um breytingar á útgjöldum og nýjustu áætlunum um tekjur.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Á allra seinustu metrunum fyrir jólaleyfi þingmanna afgreiðir Alþingi fjárlög fyrir næsta ár í endanlegri mynd og ennfremur fjáraukalög vegna yfirstandandi árs, þau fimmtu á þessu ári vegna kórónukreppunnar, með ýmsum tillögum um breytingar á útgjöldum og nýjustu áætlunum um tekjur.

Meiri hluti fjárlaganefndar lagði í gær fram breytingartillögur við fjárlög ársins 2021 fyrir þriðju og síðustu umræðu, þar sem lagt er til að útgjaldaheimildir verði auknar um 7,6 milljarða á næsta ári. Þar af eru lagðar til frekari hækkanir á tillögum sem fyrir lágu vegna breyttra forsendna frá því að frumvarpið var lagt fram upp á 5,9 milljarða. Nýjar ákvarðanir hafa svo verið teknar um aukin útgjöld á næsta ári upp á 2,5 milljarða og launaendurmat leiðir til 1,7 milljarða hækkunar 2021, m.a. vegna kjarasamninga við lækna, gerðardóms hjúkrunarfræðinga og endurmats á launahækkunum þjóðkjörinna fulltrúa og dómara.

120 milljónir vegna loðnuleitar

Meðal þess sem meirihlutinn leggur einnig til er 470 milljóna kr. framlag til stuðnings íþróttafélögum vegna samkomutakmarkana, en það er hluti af áformum um 970 milljóna kr. stuðning við íþróttafélög.

Meirihlutinn leggur einnig til 120 milljóna kr. framlag til Hafrannsóknastofnunar til að fjármagna kostnað við mælingar á stofnstærð loðnu. Gerð er tillaga um 350 milljóna kr. framlag vegna húsnæðisbóta vegna hækkunar frítekjumarks sem leiðir til 100 millj. kr. útgjaldaauka og hins vegar eru 250 millj. kr. vegna þess að áætlað er að fleiri einstaklingar njóti nú húsaleigubóta en forsendur fjárlagafrumvarps gerðu ráð fyrir.

Tekjuhliðin tekur líka breytingum. Meðal þeirra veigamestu er að nú er gert ráð fyrir 600 milljóna kr. hækkun tekna af tekjuskatti einstaklinga á næsta ári af tveimur ástæðum. „Annars vegar hefur úttekt á séreignarsparnaði reynst heldur meiri en áætlað var, og hins vegar hefur endurmat á launum í uppsagnarfresti og framlengingu hlutabótaleiðar leitt til hærri tekna en ætlað var og þar með hærri tekjuskatts,“ segir í greinargerð.

65 milljarða útgjaldabreytingar á fjáraukalagafrumvarpi

Seinustu aðgerðir vegna afleiðinga kórónuveirunnar eiga langstærstan hlut eða um 55 milljarða kr. í þeim tillögum um breytingar á frumvarpinu til fjáraukalaga vegna yfirstandandi árs sem meirihluti fjárlaganefndar lagði fram fyrir aðra umræðu. Alls er fjárhæð tillagnanna um 65 milljarðar kr. og vegur þyngst kostnaður vegna aukins atvinnuleysis og annarra útgjalda af völdum faraldurins eða um 40 milljarðar. Útgjaldaheimildir vegna hlutabótaleiðar og launa í sóttkví eru hins vegar lækkaðar um 13,6 milljarða þar sem í ljós hefur komið að þessi úrræði hafa ekki verið nýtt í þeim mæli sem ætlað var.

Þau viðbótarútgjöld sem lögð eru til og ekki tengjast faraldrinum og afleiðingum hans eru samtals að fjárhæð rúmlega 9,9 milljarðar kr. Þar af stafa 5,5 milljarðar af endurmati á lífeyrisskuldbindingum og tæpir tveir milljarðar eru vegna fjölgunar þeirra sem fá endurhæfingarlífeyri.

105 milljónir króna til RÚV

Meðal þess sem lagt er til að veitt verði í fjáraukalögum fyrir yfirstandandi ár í tillögum meirihluta fjárlaganefndar er að Ríkisútvarpið fái 50 milljóna kr. framlag vegna aukins kostnaðar og tekjufalls af völdum heimsfaraldursins. Í greinargerð segir að tillagan komi til viðbótar 55,2 milljónum kr. sem fyrir eru í fjáraukalagafrumvarpinu af sama tilefni.

Þá leggur meirihluti nefndarinnar til að Sinfóníuhljómsveit Íslands fái 90 milljóna kr. viðbótarframlag vegna rekstrartekna sem hafa tapast af völdum takmarkana á tónleikahaldi. Samkomutakmarkanir hafi leitt til mikils rekstrartekjufalls hjá hljómsveitinni. Í skýringum kemur fram að í útkomuspá hljómsveitarinnar fyrir árið 2020 sé gert ráð fyrir því að tap rekstrartekna nemi allt að 250 milljónum kr. en á móti sé gert ráð fyrir að úr kostnaði dragi um 160 millj. kr.

Gerðar eru tillögur um 50 milljóna kr. styrk til Borgarleikhússins vegna tekjufalls og 20 millj. kr. framlag til Menningarfélags Akureyrar vegna tekjufalls og kostnaðarhækkana Hofs og Leikfélags Akureyrar.