Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
„Við vorum norðvestur úr Garðskaganum þegar við hífðum trollið en hvar tundurskeytið kom í það veit ég ekki nákvæmlega,“ sagði Snorri Snorrason, skipstjóri á togskipinu Pálínu Þórunni GK 49. Þegar trollið var híft síðdegis á miðvikudag var í því sprengjuhleðsla úr gömlu þýsku tundurskeyti. Það var ein öflugasta sprengja sem komið hefur í veiðarfæri íslensks skips á síðari árum að sögn Landhelgisgæslunnar.
Trollið var híft þegar skipið var statt 7,7 sjómílur (14,3 km) norðvestur af Garðskaga. „Við erum búnir að draga þarna mörgum, mörgum sinnum og verið mikið á þessu svæði. Nú fórum við aðeins norðar en venjulega og til baka. Maður gerir sér enga grein fyrir því hvar þetta kom í trollið,“ sagði Snorri.
Um leið og tundurskeytið kom upp var haft samband við Landhelgisgæsluna (LHG). Hún leiðbeindi skipverjum um hvernig ætti að búa um sprengjuna og óskaði eftir því að skipið héldi þegar til hafnar. Komið var til Sandgerðis um klukkustund síðar. Sprengjusérfræðingar LHG fluttu tundurskeytið frá borði og sökktu því á tíu metra dýpi um hálfan annan kílómetra frá höfninni. Því var eytt síðdegis á fimmtudag.
„Í sprengjunni voru um 300 kíló af TNT, eða sambærilegu efni, sem samsvarar um 600 kílóum af dýnamíti,“ sagði Sigurður Ásgrímsson, yfirmaður séraðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar. Hann sagði að sprengiefnið hefði varðveist mjög vel. Sprengihleðslan var svipuð að stærð og í stærstu þýskum tundurduflum sem hér hefur verið eytt.
Vígvöllurinn við Garðskaga
„Þessu tundurskeyti getur hafa verið skotið hvar sem er á þessu svæði. Þar var skotið á mörg skip en skeytin hittu ekki endilega. Svo voru þeir með tundurskeyti sem fóru í stórum sveigum eða hringjum þar til þau annaðhvort hittu eittvað eða misstu drifkraftinn og sukku,“ sagði Friðþór Eydal rithöfundur. Hann hefur skrifað mikið um síðari heimsstyrjöldina og hlutskipti Íslands.
Friðþór sagði að þýskir kafbátar hefðu ráðist á skip hér við land frá því um veturinn 1941 og allt fram undir lok stríðsins vorið 1945. Þeir höfðu sig mest í frammi veturinn 1944-1945. Þá var þýskur kafbátur og stundum kafbátar stöðugt á sveimi í álnum vestan við hraunin í Faxaflóa.
„Síðasta breska herskipinu sem þýskur kafbátur sökkti í stríðinu var sökkt norðan við Garðskaga. Það var breskur togari sem var að slæða upp tundurdufl. Einn komst af,“ sagði Friðþór. Hann sagði líklegt að leifar af ósprungnum tundurskeytum og djúpsprengjum lægju enn á botni Faxaflóa.
Í bók Friðþórs, Vígdrekar og vopnagnýr, Hvalfjörður og hlutur Íslands í orrustunni um Atlantshafið (útg. 1997), er kafli um kafbátahernað Þjóðverja við Ísland. Bókin er aðgengileg á slóðinni http://hdl.handle.net/2027/wu.89070638093. Þar kemur m.a. fram að í janúar 1942 varð bandaríska strandgæsluskipið Alexander Hamilton fyrir tundurskeyti frá þýska kafbátnum U-132 um átta sjómílur norðvestur frá Garðskaga. Það er á svipuðum slóðum og tundurskeytið kom upp í trollinu á Pálínu Þórunni GK á dögunum. „Alexander Hamilton var fyrsta skipið sem bandaríska strandgæslan missti í síðari heimsstyrjöldinni og fyrsta bandaríska herskipið sem sökkt var á Atlantshafi eftir að Bandaríkin drógust inn í stríðið,“ segir í bókinni.
Þýski kafbáturinn U-244 lá í tólf daga norðvestur af Garðskaga í september 1944. U-979 var á sömu slóðum og tókst þeim báðum að komast í færi við skipalest undan Garðskaga 22. september. Bandaríska birgðaskipið U.S.S. Yukon varð fyrir tundurskeyti frá U-979 en komst til Reykjavíkur.
Kafbáturinn U-300 var undir Garðskaga og inni á Faxaflóa í nóvember þetta ár. Skipalest fimm kaupskipa í fylgd fimm lítilla fylgdarskipa var þá á leið til Íslands. Þeirra á meðal var Goðafoss. Skipalestin hreppti vont veður þegar komið var upp að Reykjanesi og var ákveðið að bíða þar betra veðurs. Breska olíuskipið Shirvan varð viðskila við skipalestina og sigldi viðstöðulaust fyrir Garðskaga. Kafbáturinn skaut tveimur tundurskeytum að Shirvan, annað skeytið hæfði og braust út mikill eldur. Goðafoss sigldi fram á brennandi olíuskipið nokkrar sjómílur norðvestur af Garðskaga og stoppaði til að bjarga skipbrotsmönnum af Shirvan. Kafbátsforinginn sá að olíuskipið virtist ekki ætla að sökkva og skaut þriðja tundurskeytinu, sem geigaði. Þá var fjórða tundurskeytinu skotið og það hæfði olíuskipið.
Þegar kafbátsforinginn sá Goðafoss skaut hann tundurskeyti og hitti skipið. Goðafoss sökk á fáeinum mínútum 10. nóvember 1944. Alls fórust 42 manns, þar af 24 Íslendingar. Þetta var mesta manntjón Íslendinga á einum degi í stríðinu.
Þýski kafbáturinn U-1044 réðst að skipalest undan Garðskaga 28. febrúar 1945 og sökkti kaupskipinu Alcedo með tundurskeyti. Hinn 3. mars sökkti kafbáturinn breska togaranum Southern Flower grunnt undan Garðskaga.
Kafbáturinn U-979 kom aftur hingað í apríl 1945. Hinn 2. maí skaut hann tundurskeyti að breska tundurduflaslæðaranum Ebor Wyke og sökkti sjö sjómílum norður af Garðskaga. Það var síðasta breska herskipið sem sökkt var í styrjöldinni. Tveimur dögum síðar skaut U-979 tundurskeyti að olíuskipinu Empire Unity á Faxaflóa og laskaði það. Kafbáturinn var staddur undan Garðskaga hinn 8. maí þegar Þjóðverjar gáfust upp og skipun barst um að halda heim til Þýskalands.
Af þessari samantekt má ráða að mörgum tundurskeytum hafi verið skotið á svæðinu þar sem tundurskeytið fannst á dögunum.