Fjármálaráðuneytið Guðmundur segir að koma verði í ljós hvernig tekið verði á hallanum í ríkisfjármálum.
Fjármálaráðuneytið Guðmundur segir að koma verði í ljós hvernig tekið verði á hallanum í ríkisfjármálum. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.is Núvirt heildarútgjöld ríkisins til ráðuneyta hafa aukist um tugi prósenta síðustu ár.

Baksvið

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

Núvirt heildarútgjöld ríkisins til ráðuneyta hafa aukist um tugi prósenta síðustu ár. Sé horft til síðustu 13 ára, eða frá efnahagshruninu árið 2008, má sjá gríðarlega aukningu útgjalda til einstaka ráðuneyta. Þetta kemur fram í tölum Stjórnarráðsins, sem Morgunblaðið hefur undir höndum.

Mest hafa framlög aukist til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins eða nær tvöfaldast á tímabilinu. Þar á eftir kemur fjármála- og efnahagsráðuneytið en framlög til ráðuneytisins hafa aukist um 65,6%. Ráðuneytin sem skera sig úr eru utanríkisráðuneytið annars vegar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hins vegar. Þar hafa núvirt framlög lækkað frá árinu 2007.

Áhersla á hagræðingu

Aðspurður segist Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ekki geta tjáð sig um ráðstöfun fjármuna innan annarra ráðuneyta. Hins vegar hafi hann lagt mikla áherslu á hagræðingu innan eigin ráðuneytis. Framlög til utanríkisráðuneytisins hafa dregist saman um 2% á framangreindu tímabili. „Ég hef alltaf lagt mikla áherslu á hagræðingu auk þess að nýta fjármuni eins vel og kostur er. Mínar áherslur hafa snúið að því að minnka yfirbyggingu ríkisins og ég hef sýnt það í verki. Ég hef fækkað útsendum starfsmönnum, lokað sendiskrifstofum og ekki skipað neinn sendiherra,“ segir Guðlaugur og bætir við að hann fagni umræðu um fjármál ríkisins.

„Mér hefur þótt vanta umræðu á dýptina um fjármál ríkisins. Mér hefur ekki þótt eftirfylgnin nægileg í ríkisfjármálum. Það er ekki þannig að með því að setja meiri peninga í ákveðinn málaflokk verði sjálfkrafa betri árangur.“

Breyta verður lögunum

Ljóst er að sökum aukinnar skuldsetningar ríkissjóðs í kjölfar faraldurs kórónuveiru þarf að bregðast við. Segir Guðlaugur að grípa þurfi til aðgerða ef ekki á illa að fara. „Við erum að safna skuldum og ef við greiðum þær ekki niður þurfa barnabörnin okkar að greiða þetta. Við verðum að fara í aukið aðhald. Slíkt er auðvitað eilífðarverkefni en það er alveg sérstaklega mikilvægt núna,“ segir hann og bætir við að nauðsynlegt sé að breyta lögum um opinbera starfsmenn. „Ríkin í kringum okkur hafa verið að gera lög um opinbera starfsmenn líkari því sem þekkist á almennum vinnumarkaði. Það er gríðarlega mikilvægt að þeim sé breytt hér. Oft er þörf en nú er nauðsyn.“

Stórsókn í umhverfsmálum

Líkt og fyrr segir hafa núvirt heildarútgjöld ríkisins til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins nær tvöfaldast á árunum eftir hrunið árið 2008. Að sögn Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra hafa framlög ríkissjóðs til umhverfismála stóraukist á kjörtímabilinu. Þá nemi aukningin á tímabilinu 2017 til og með árinu 2021 rétt um 47%. Aðspurður segir hann fjárveitingar til umhverfismála hafa setið á hakanum í kjölfar hrunsins árið 2008. Því sé eðlilegt að útgjöld til málaflokksins hafi aukist eins mikið og raun ber vitni. „Við erum auðvitað að gefa í þegar kemur að umhverfismálum, ekki síst til loftslagsmála, landvörslu, uppbyggingar innviða og náttúruverndar svo dæmi séu tekin,“ segir Guðmundur og bætir við að núverandi ríkisstjórn hafi sett umhverfismál á oddinn. „Það er mín skoðun að það sé alveg lífsnauðsynlegt að leggja áherslu á útgjöld til umhverfsimála. Ekki einungis það sem snýr að loftslagsmálum heldur margt annað. Sumt af því sem við höfum verið að setja fjármagn í eru verkefni sem hafa verið fjársvelt frá hruni. Það er núna á þessu kjörtímabili sem við höfum spýtt í lófana.“

Spurður hvort ekki þurfi að koma til hagræðingar sökum mikillar skuldasöfnunar ríkissjóðs segir Guðmundur ekki tímabært að svara því. Þá verði að koma í ljós hvernig tekið verði á hallanum í ríkisfjármálum. „Það er t.d. mikil óvissa uppi um hvenær og hvernig ferðaþjónustan tekur við sér. Það er því ekki tímabært að svara þessu, en mér finnst mikilvægt að við reynum að vaxa út úr þessari niðursveiflu. Við eigum að gefa okkur lengri tíma en skemmri til þess.“