Ranghumyndir Nekt, kynlíf og frjálsræði í því samhengi var oft í umræðu erlendra gesta. Sú umræða var yfirleitt alltaf á annan veginn og sjaldan rætt um ásælni evrópsku karlanna á þessu sviði þegar þeir komu til Grænlands.
Ranghumyndir Nekt, kynlíf og frjálsræði í því samhengi var oft í umræðu erlendra gesta. Sú umræða var yfirleitt alltaf á annan veginn og sjaldan rætt um ásælni evrópsku karlanna á þessu sviði þegar þeir komu til Grænlands.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókarkafli | Í bókinni Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland rekur Sumarliði R. Ísleifsson viðhorf til Íslands og Grænlands frá miðöldum til samtímans. Báðar hafa þessar þjóðir verið framandi í augum annarra.

Bókarkafli | Í bókinni Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland rekur Sumarliði R. Ísleifsson viðhorf til Íslands og Grænlands frá miðöldum til samtímans. Báðar hafa þessar þjóðir verið framandi í augum annarra. Lengi voru ímyndir þeirra svipaðar en margt hefur líka greint á milli. Hér er greint frá viðhorfum til Grænlands og Grænlendinga fyrr á öldum.

Trúboð og landkönnun. Grænland 1750-1850

David Crantz fjallaði í verki sínu frá sjöunda áratug 18. aldar ítarlega um náttúru Grænlands, eins og sannur upplýsingarmaður, um loftslag, hafís, plöntur, land- og sjávardýr, nánast eins og hann væri að skrifa alfræðirit. Hann var ekki viss um hvort Grænland væri eyja eða ekki enda nyrstu hlutar landsins ókannaðir – það skýrðist heldur ekki fyrr en liðið var á 20. öld. Crantz varð tíðrætt um hversu kalt væri í landinu og mætti það furðu gegna hversu mikill kuldinn væri. Frostharka var skiljanlega mörgum í huga sem dvöldu langdvölum á Grænlandi.

John Ross gat tekið undir þessar skoðanir um landið um hálfri öld síðar. Að vetrinum væri þar ekkert nema hvít auðnin, ekkert sem gleddi augað eða vekti áhuga eða sem gæti orðið listamanni að yrkisefni eins og Ross lýsti samt á skáldlegan hátt: Enginn gróður, engin tré, allt kæft í helgreipum íssins, engin skil á milli vatns og lands. Allt frosið. En Ross var í takt við tímann. Hann lýsti því á rómantískan hátt hvernig ísinn gat tekið á sig margvíslegar myndir, jafnt mikilfenglegar sem ógnvekjandi. Ísinn vakti í senn óhug og aðdáun, hatur og fegurðartilfinningu eins og Ross lýsti honum.

En náttúra Grænlands gat sýnt af sér fleiri myndir eins og Ross gat um. Hann undraðist t.d. er hann kom til Suður-Grænlands að sjá hversu gróið landið var, allt var í blóma en ekki eingöngu úfnir klettar og kaldur snjór eins og leiðangursmenn höfðu búist við. Ross kvaðst því ekki lengur undrast að landið hefði fengið nafnið Grænland, en þeirri nafngift hefðu þeir einmitt gert gys að áður en leiðangursmenn komu þangað. Jafnvel loftslagið gæti verið ágætt. Að sumu leyti svipaði Grænlandi því til aðstæðna sem leiðangursmenn þekktu. Ross hafði auga fyrir því hvaða kosti Grænland gæti boðið upp á.

Á ferðum sínum um Grænland merktu leiðangursmenn sér landið. Þeir gáfu stöðum, sem sjálfsagt höfðu heiti fyrir, ný nöfn – eins konar skirn – og lögðu landið þannig undir sig. Staðirnir voru, að minnsta kosti tímabundið, t.d. kenndir við breska aðmírálinn og könnuðinn Francis Beaufort (1774-1857), heimskautakönnuðinn William Parry (1790-1855) og aðra svipaða.

Í lýsingum höfunda á þessu tímabili er því fólki sem kemur við sögu skipt gróflega í tvo hópa: Annars vegar íbúa Grænlands af stofni Inúíta sem eru álitnir „frumstætt“ fólk af ýmsu tagi en hins vegar „siðmenntað fólk“. Hinir siðmenntuðu voru úr ýmsum áttum: Leiðangursmenn sjálfir, danskir íbúar Grænlands og loks fornir norrænir íbúar landsins. Þeir síðastnefndu koma þó skiljanlega ekki mikið við sögu í þessum verkum að undanskildu því að saga norrænna manna á Grænlandi var oft rædd og fram eftir 19. öld voru enn bundnar vonir við að finna mætti slíkt fólk í landinu, ekki síst á Austur-Grænlandi, eða að minnsta kosti skýr merki um veru þess. Enski heimskautakönnuðurinn William Scoresby (1789-1857) fór um þær slóðir snemma á öldinni og taldi sig finna mannvistarleifar sem tengdust norrænum mönnum. Hann velti fyrir sér hvort enn mætti finna norræna menn þarna eða hvort þeir hefðu blandast Inúítum. Árið 1828 var gerður út sérstakur leiðangur á vegum danskra stjórnvalda til þess að komast helst endanlega að hinu sanna undir forystu danska sjóliðsforingjans Wilhelms August Graah (1793-1863). Graah ferðaðist víða um Austur-Grænland í þessu skyni en fann hvergi fólk af norrænum uppruna. Þessar hugmyndir voru þó ekki úr sögunni og entust fram á 20. öld og jafnvel þá 21. Á ofanverðri 19. öld velti Emil Bluhme (1833-1926) því t.d. fyrir sér hvort fólk á Austur-Grænlandi væri af öðrum uppruna en Inúítar, enda hefði fólk þar „kákasísk“ einkenni, eins og það var kallað.“ Um svipað leyti rifjaði Georg Hartwig (1813-1880) upp frásagnir af byggð í borginni Alba, sem fyrr hefur verið rætt um og velti fyrir sér möguleikum á að finna norræna menn á Norðaustur-Grænlandi.

Bandaríski fræðimaðurinn Karen Oslund hefur kannað hversu mikil áhrif vitundin um norræna menn á Grænlandi og sögu þeirra hafi haft á afstöðu fólks til Grænlands. Hún telur að hún hafi leitt til hugmynda um endurreisn Grænlands, restoration, endurreisn kristinnar menningar og lífshátta. Þetta hafi hins vegar breyst þegar leið á 19. öld vegna þess að þá hafi flestum verið orðið ljóst að ekkert norrænt fólk væri að finna á Grænlandi sem héldi í gamla siði og menningu, þar væru aðeins Inúítar. Umfjöllun könnuða um Dani á Grænlandi var yfirleitt jákvæð. Þeir voru sagðir vera bæði „menntaðir og snjallir“ og trúboð þeirra hefði skilað góðum árangri við erfiðar aðstæður. Danir voru því fulltrúar siðmenningarinnar á Grænlandi.

Þegar David Crantz fjallaði um Grænlendinga lýsti hann þeim svo að lífshættir væru líklega svipaðir og tíðkast hefði hjá mannfólkinu fyrir syndaflóðið. Þeir væru óspilltir af öllu því sem hefði mengað líf fólks í siðmenntuðum löndum, „ extra civitatem “. Crantz kvaðst því taka undir með Johann Anderson um að lífshættir Grænlendinga og siðferði ættu sér miklu fremur rætur í hvötum þeirra, svipað og hjá dýrum, en í skilningi og grundvallarreglum. Grænlendingar voru því staddir á eins konar frumstigi mannlífsins, að mati Crantz, á milli dýra og manna. Þeir höfðu varðveitt hið bernska og saklausa í lífsháttum sínum og gátu því orðið þeim fyrirmynd sem menningin hefði spillt. Crantz vildi varðveita hið bernska í fari Grænlendinga en siðmennta þá um leið og fjarlægja hið villta og siðlausa í fari þeirra. Það taldi hann fyllilega mögulegt, enda ekki í vafa um að þeir væru mennskir. Þessar skoðanir tóku margir aðrir höfundar upp og kynntu Grænlendinga sem hina fullkomnu fulltrúa the noble savage , villimannlega og barnslega í senn, og að margt mætti af þeim læra.

Þessir höfundar veltu fyrir sér stöðu og lífsgildum Grænlendinga. Þeir spurðu sig að því hvort Grænlendingar lifðu kannski hamingjuríkara lífi en þeir sjálfir. Að mati sumra höfunda mátti því vel segja að Inúítar hefðu margt fram yfir hina „siðmenntuðu og þurfti engan Jean-Jacques Rousseau til þess að sýna fram á yfirburði hinna fyrrnefndu, að mati Roberts Huish. Bernard O'Reilly taldi jafnvel að Grænlendingar hefðu sérstöðu meðal villimanna vegna þeirra kosta sem þeir væru búnir, andstætt t.d. hefnigjörnum og þjófóttum Afríkubúum. Í samræmi við þá skoðun var staðhæft að Grænlendingar væru heiðarlegir, gestrisnir, friðsamir og mildir í skapi. Þeir sýndu hver öðrum góðsemi og sinntu vel um börn sín. Þá deildu Grænlendingar afar sjaldan; deilur sínar leystu þeir að mestu með því að syngjast á. Þeir lifðu því í friði og öryggi, „í fullkomnu samræmi“ án deilna og illyrða sem margir mættu taka sér til fyrirmyndar.

„Frumstæðir“ hættir Grænlendinga voru mjög til umfjöllunar en ekki var síður rætt um þá á þann hátt að þeir væru viðfangsefni fyrir siðmenningu, hvort og hvernig unnt væri að koma þeim til nútímans, í anda hugmynda upplýsingarmanna. David Crantz sagði t.d. í þessu samhengi að Grænlendingar væru ekki eins heimskir og villimenn væru yfirleitt taldir vera heldur oft skarpir og snjallir. Þeir gætu vel lært ýmsar iðnir, t.d. væri Grænlendingur rakari fyrir Evrópumennina sagði Crantz. Hann lýsti líka búnaði og verkfærum Grænlendinga sem væri vissulega fábrotinn en margt leystu þeir þó snilldarlega af hendi, t.d. smíði báta sinna. Einnig væru þeir afbragðs sjómenn og væru yfirleitt vel á sig komnir líkamlega. Ratvísi þeirra var einnig viðbrugðið og hversu vel þeir áttuðu sig á aðstæðum. Í þessu samhengi skipti máli hvernig Grænlendingum tókst að tileinka sér menningu Evrópumanna. David Crantz gat þess t.d. að vel væri hægt að kenna grænlenskum börnum að lesa og skrifa. John Ross komst að svipaðri niðurstöðu. Hann kvaðst t.d. hafa undrast hversu vel grænlenskar konur gætu sungið og hversu auðveldlega þær lærðu að syngja þýska sálma. Af fyrri kynnum hefði hann einmitt álitið að þetta fólk hefði ekki tónlistarhæfileika.

Líka koma fyrir „játningar“ frá leiðangursmönnum þess efnis að þeir gætu vissulega ekki hafa lifað af án aðstoðar heimamanna en í því fólst viðurkenning á því að heimamenn væru aðkomumönnum fremri í að komast af, þrátt fyrir tæknilega yfirburði aðkomumannanna á vissum sviðum. Samskipti gátu því einkennst af gagnkvæmri virðingu og gestir og heimamenn náðu stundum að kynnast venjum, siðum og neysluháttum hvors annars, án þess að fordómar byrgðu þeim sýn. Segja má að sumir leiðangursmenn og höfundar hafi litið á Grænlendinga sem vænlega nemendur í að siðvæðast, verða eins og „nútímalegir“ Evrópumenn. Rómantísk frumstæðishyggjuviðhorf voru þó einnig tíð: Að sjá „frumstætt“ líf í hillingum.

Neikvæður tónn var líka algengur. Inúítum var lýst svo að þeir væru afar smávaxnir, vart nema ríflega fimm fet á hæð og því tæplega fullskapaðir, nema kannski þeir sem hefðu blandast Dönum. Á litinn væru þeir ólífubrúnir og því andstæða þeirra „hvítu“. Þá væru þeir svo illa gefnir að yfirleitt væri ekki unnt að kenna þeim að telja nema upp í fimm og engum upp í meira en tíu. Jafnvel þeir sem væru skást útlítandi væru þó í raun viðbjóðslegir. Og þegar þeir spjölluðu saman hljómuðu þeir helst eins og fuglar. Börnum var stundum lýst þannig að þau litu út nákvæmlega út eins og apar. Skilningur þeirra og útlit ætti því meira skylt við dýr en fólk.

Óhreinlæti Grænlendinga og mataræði voru vinsæl umræðuefni í þessu samhengi. John Ross ræddi um viðbjóðslegan mat og óþef. Isaac I. Hayes lýsti aðstæðum Grænlendinga á svipaðan hátt og ræddi um sóðaskap þeirra, daun í híbýlum og tötralegan klæðnað. Helst ætu þeir hálffrosið eða hálfrotið selkjöt eins og aðrar þjóðir snæddu pylsur og teldu það hnossgæti. Sumir ætu jafnvel af slíkri græðgi að þeir köstuðu upp en vildu samt halda áfram átinu. Hýenur virtust fremur kunna sér magamál en Grænlendingar. Þeir ætu jafnvel eigin lýs eða byðu gestkomandi þær sem lostæti. Þá vildu þeir ekki líta við því sem leiðangursmenn hefðu upp á að bjóða, hvorki búðingi né brandi, sagði John Ross. Hann fullyrti þó að þessir hættir væru ekki bundnir við Grænlendinga. Svipaðar fregnir væri að hafa af búskmönnum í sunnanverðri Afríku. Hér eru „eiginleikar“ Grænlendinga því gerðir skiljanlegir með því að líkja þeim við fólk eða dýr í Afríku, þar sem talið var að villimennskan réði ríkjum.

Sumar lýsingar fjölluðu um illsku og grimmd heimamanna, svo sem miskunnarleysi gagnvart öldruðum og hjálparlausum, grimmd gagnvart vandalausum og þjófnað frá útlendingum. Sögur um þjófnað voru algengar en þó var á það bent að sumir frumbyggjar annars staðar í heiminum, t.d. á eyjum í Kyrrahafi, væru enn verr haldnir af þessum lesti. Töluvert var einnig rætt um að grænlenskar konur reyndu að tæla leiðangursmenn eða þá að þær seldu sig fyrir lítið, og iðulega með samþykki eiginmannsins. Undirferli og svik heimamanna komu líka við sögu. Isaac I. Hayes fullyrti t.d. að hópur Inúíta hefði sóst eftir lífi þeirra. Það hefði einungis verið fyrir snarræði þeirra sjálfra að heimamenn komu fyrirætlunum sínum ekki í framkvæmd. Markmið Inúítanna hefði þá verið að komast yfir búnað leiðangursmanna án þess að greiða fyrir hann. „Eskimóar“ gætu því vart staðið neðar hvað varðar siðmenningu. Þeir stæðu t.d. frumbyggjum Ameríku langt að baki en væru þó Afríkumönnum fremri. Eins og lesandi sér er hér drepið á svipuð efni og títt var að ræða um þegar fulltrúar nýlenduvelda fjölluðu um fólk á framandi slóðum: vændi, þjófnað, grimmd, heimsku og svik.