Þórdís Inga Þorsteinsdóttir fæddist 18. september 1924. Hún lést 30. nóvember 2020.

Útför Þórdísar Ingu fór fram 11. desember 2020.

Þá hefur elsku amma fengið hvíldina, sem var líklega kærkomin fyrir hana.

Amma var hörkudugleg og frábær fyrirmynd. Hún naut þess að hlúa að fólkinu sínu og allir sem kynntust henni nutu góðs af. Hún sýndi væntumþykju sína frekar í verkum en orðum. Það var hennar líf og yndi að stjana við fólkið sitt. Við ólumst upp við það að afi var sendur t.d. með kleinur, súkkulaðikökur og heimatilbúna hamborgara alla föstudaga til barnanna sinna. Þvílík veisla sem við vissum að við ættum í vændum. Á jólunum keyrði afi einnig út aspassúpuna hennar sem var á heimsmælikvarða. Í seinni tíð hafa margir reynt að leika eftir listir ömmu í eldhúsinu en aspassúpan, rjómakakan og aðrar kræsingar sem amma galdraði fram verða aldrei eins góðar og hjá ömmu.

Sterk æskuminning er þegar við fjögur sátum í eldhúsinu í Bólstaðarhlíð og amma skutlaði pönnukökunum á diskana okkar, yndislegt.

Á hverju sumri var okkur plantað í Volvoinn og ferðinni heitið norður á Skíðastaði. Afi var búinn að þekja aftursætið með köflóttum teppum, því ekki vildi sá gamli fá matarklessur í bílinn. Amma var búin að opna fyrsta boxið með einhverju góðgæti áður en við vorum komin út úr höfuðborginni.

Ekki voru allir jafn sælir með þetta, því holóttir vegir og bílveiki er ekki góð blanda.

Við dvöldum yfirleitt í viku í litla bústaðnum, þar var ekki rennandi vatn, bara lækurinn, útikamar og kertaljós, og það bara fyrir rétt rúmlega 30 árum. En þvílíkir dásemdardagar sem við áttum með ömmu og afa. Eftir hverja máltíð vorum við send með matarafganga upp á krummasteininn þar sem krummi mætti fljótlega og gæddi sér á góðgætinu.

Amma gerði okkur einnig ljóst að við máttum ekki trufla álfana sem bjuggu í stóru rauðu grjóti rétt fyrir ofan bústaðinn.

Amma var einstakur dýravinur hvort sem það voru krummarnir eða kisan Lára sem fékk ekkert nema sérvaldar rækjur, rjóma og nýsoðna ýsu á diskinn sinn. Eftir að afi dó flutti hún í íbúð fyrir eldri borgara og sú gamla var fljótlega búin að hæna að sér andahjón sem heimsóttu hana í mörg ár og fengu sér í gogginn.

Eftir skyndilegt fráfall elsku afa fyrir 18 árum sýndi amma hvað hún var sterk. Hún þurfti að læra að sinna hinum praktísku málum sem afi hafði alltaf séð um og stóð sig eins og hetja.

Mikið hefur afa þótt ljúft að fá Ingu sína til sín í Draumalandið.

Elsku amma okkar, takk fyrir allt það fallega og góða sem þú kenndir okkur.

Þínir ömmukrakkar,

Þórdís, Hrund, Friðleifur

og Ingólfur.