Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Fyrir skömmu kom út hjá útgáfunni Leo Libri barnabókin Jólapakkið – Jóladagatal fyrir forvitna krakka eftir frænkurnar Helgu Sv. Helgadóttur og Kristínu Karlsdóttur en Ásbjörn Erlingsson myndskreytti. „Verkefnið var frábært og fyndið, ekki síst vegna þess að þær höfðu húmor fyrir ruglinu í mér og ég fékk að bæta við nokkrum skondnum smátriðum í myndirnar, ég náði meira að segja að lauma inn einum prumpubrandara, sem er alltaf gott,“ segir Ásbjörn. „Vinnan var líka sérstök vegna þess að Helga býr á Íslandi, Kristín er í skapandi skrifum í Svíþjóð og ég bý í Hollandi.“
Þegar RÚV auglýsti eftir hugmyndum vegna jóladagatals, sem til stóð að vera með fyrir jólin í fyrra, sendu Kristín og félagar inn hugmynd sem var unnin áfram þar til valið stóð á milli hennar og einnar annarrar. „Þá hætti RÚV við og hugmyndin fór niður í skúffu, en mér fannst svo mikil synd að ekkert yrði úr þessu að ég fór að dusta rykið af henni með þessum árangri,“ segir Helga um bókina. „Hún á að fara niður með jólaskrautinu og svo á að taka hana upp með því fyrir hver jól.“
Skopmyndir og fígúrur
Eftir að hafa brautskráðst úr myndlist frá Listaháskóla Íslands fór Ásbjörn í framhaldsnám til Hollands, þar sem hann leggur stund á rannsóknartækni, svo sem forritun, stafræna miðla og listir í gagnvirkum miðlum, og gerir ráð fyrir að útskrifast með MSc-gráðu í sumar. Hann hefur haldið tvær myndlistarsýningar í Reykjavík, en þetta er í fyrsta sinn sem hann myndskreytir bók. „Oftar en ekki teikna ég skopmyndir og skrýtnar fígúrur og því var í raun mjög eðlilegt að fara yfir í þetta,“ segir hann um myndirnar í Jólapakkinu.
Bókin „færir forna, íslenska sagnaleifð í samtímann – og í framtíðina“, eins og segir í kynningu. Sagan byrjar í Reykjavík eftir um 80 ár. Ekki hefur verið haldið upp á jólin í áratugi og 1. desember 2100 hefur Grýla fengið nóg af látunum í iðjulausum jólasveinunum og rekur þá úr hellinum til áður hefðbundinna starfa. Þá þarf að endurvekja jólaandann og til þess þarf góð börn og vélmenni.
Þríeykið, sem kemur að bókinni, skemmtir sér konunglega þegar margar sögur eru í hverri mynd, að sögn Ásbjörns. „Þegar rýnt er í myndirnar má sjá smáatriði, sem eru í gangi þótt heildarmyndin vísi beint í textann.“ Hann segist vera mikið jólabarn og Stekkjastaur hafi alltaf verið í uppáhaldi hjá sér. „Ég tengi mest við hann, er frekar langur og stirður maður.“
Námið hefur forgang næstu mánuði, en Ásbjörn segist jafnframt reyna að stunda listina og taki til dæmis þátt í listamarkaðnum „Uppskeru“ á vegum veftímaritsins Flóru (uppskera-listamarkadur.is/). „Orkan fer annars að stórum hluta í að þrauka í gegnum alla þessa vitleysu sem fylgir heimsfaraldrinum,“ segir hann og bætir við að námið sé nánast allt rafrænt vegna kórónuveirunnar.