Leikstjórinn Lars von Trier á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2011
Leikstjórinn Lars von Trier á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2011 — Morgunblaðið/Halldór Kolbeins
Danski kvikmyndaleikstjórinn Lars von Trier mun leikstýra þriðju sjónvarpsseríunni af Riget eða Ríkinu, sem einnig hefur verið nefnt Lansinn á íslensku.

Danski kvikmyndaleikstjórinn Lars von Trier mun leikstýra þriðju sjónvarpsseríunni af Riget eða Ríkinu, sem einnig hefur verið nefnt Lansinn á íslensku. Politiken greinir frá því að undirritaður hafi verið samningur milli Zentropa, DR og Viaplay um framleiðslu þáttanna sem teknir verða upp á næsta ári og frumsýndir á Viaplay árið 2022. Fyrsta þáttaröðin, Riget I , var frumsýnd 1994 og önnur þáttaröðin, Ri get II , 1997 og skörtuðu þættirnir leikurum í aðalhlutverki á borð við Ernst-Hugo Järegård og Kirsten Rolfes, sem nú eru bæði látin. Samkvæmt umfjöllun Politi ken stóð alltaf til að gera þriðju þáttaröðina, þótt ekki hafi orðið af því fyrr en þetta mörgum árum seinna. Þættina skrifaði Lars von Trier í samvinnu við Niels Vørsel.

Í umfjöllun Politiken er rifjað upp að Trier hafi notað þáttaröðina til að gera tilraunir með kvikmyndamálið og halda spekingar því fram að án þeirra hefði Dogma-kvikmyndastíllinn aldrei þróast í Danmörku. Þættirnir um Riget fjalla um baráttu góðs og ills og bjóða upp á slatta af yfirnáttúrlegum viðburðum og hryllingi.

Þriðja þáttaröðin ber heitið Riget Exodus og samkvæmt upplýsingum frá framleiðendum er um sjálfstætt verk að ræða sem krefst þess ekki að áhorfendur hafi séð fyrri seríurnar.

„Ekki liggur enn ljóst fyrir hverjir muni fara með hlutverkin í Riget Exodus , en orðrómur er um að við munum sjá blöndu af þekktum persónum úr fyrri seríum og glænýjum persónum. Í tengslum við framleiðslu á Riget Exodus hafa fyrri seríurnar tvær, Riget I og Riget II , gengið gegnum miklar tæknilegar uppfærslur og endurbætur svo hægt sé að sýna allar seríurnar saman í hæsta gæðaflokki fyrir bæði gamla og nýja aðdáendur. Báðar fyrri seríurnar verða fáanlegar á Viaplay,“ segir í tilkynningu frá streymisveitunni.