Baksvið
Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, féllst í gær á tillögu þá sem Bankasýsla ríkisins lagði fram síðdegis á fimmtudag þess efnis að hefja söluferli á Íslandsbanka. Ráðherra undirbýr nú greinargerð sem lögð verður fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, auk þess að óska umsagnar Seðlabanka Íslands í samræmi við ákvæði laga þar um. Þegar umsagnarfrestur um greinargerðina er liðinn mun ráðherra svo taka endanlega ákvörðun um hvort sölumeðferð skuli hafin. Samkvæmt tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu er miðað við að fresturinn líði 20. janúar næstkomandi.
Höfða til almennings
Líkt og fram kemur í tillögu Bankasýslunnar er stefnt að því að selja hluti í almennu útboði og skrá öll hlutabréf í bankanum í kjölfarið á skipulegan verðbréfamarkað hér á landi.„Áformin eru í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en Íslandsbanki er í dag alfarið í eigu ríkisins,“ segir í fyrrnefndri tilkynningu. Þá er Landsbankinn einnig í eigu ríkisins. Í stjórnarsáttmálanum er ekki nákvæmlega kveðið á um að selja skuli Íslandsbanka. Hins vegar er því markmiði lýst að minnka skuli eignarhald ríkisins í bankakerfinu.
Líkt og tímalínan sem birt er hér að ofan sýnir hefur Íslandsbanki lengst af verið í eigu einkaaðila. Bankinn, eða fyrirrennari hans, gamli Glitnir, komst hins vegar í eigu ríkisins þegar lánardrottnar Glitnis afhentu bankann sem hluta af stöðugleikaframlagi við afnám hafta árið 2015. Bankinn hafði komist í þeirra eigu að stærstum hluta ef að hann hrundi með brauki og bramli í septemberlok 2008, fyrstur íslensku viðskiptabankanna.
Ólíkt Íslandsbanka hefur Landsbankinn hins vegar lengst af starfstíma sínum frá stofnun 1886 verið í eigu ríkisins. Bankinn var hins vegar í einkaeigu á árunum 2003 til 2008 uns hann féll í sömu svipan og Glitnir.
Með því að minnka eignarhlut sinn í Íslandsbanka hyggst ríkissjóður minnka áhættu sína af hinum ógnarstóra eignarhlut í fjármálakerfinu sem er hlutfallslega stærri hér á landi en í nokkru öðru þróuðu ríki heims, efla virka samkeppni á fjármálamarkaði, hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldin og sölu á hlutum, að stuðla að fjölbreyttu, heilbrigði og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma, auka fjárfestingarmöguleika fyrir innlenda einstaklinga og fagfjárfesta og að minnka skuldsetningu eða auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra fjárfestinga.
Endurræsa vélarnar
Í byrjun mars síðastliðins sendi Bankasýslan tillögu til ráðherra um að hefja söluferli á Íslandsbanka og hafði þeirrar tillögu lengi verið beðið víða. Þar var lagt til að ráðist yrði í að selja að lágmarki 20% hlut í bankanum og að það yrði gert með almennu útboði, skráningu bankans á markað og beinni sölu til fjárfesta. Örfáum dögum síðar var tillagan dregin til baka sökum þess ástands sem var að teiknast upp vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.Nú hefur tillagan hins vegar verið lögð að nýju fram en með breyttu sniði. Ekki er lagt til að bein sala á hlut í bankanum fari fram heldur aðeins ráðist í útboð á hlutum í honum. Í minnisblaði Bankasýslunanr segir að ástæða sé til að hefja söluferlið að nýju þar sem kraftur hafi verið í hlutabréfamarkaði og að farsæl hlutafjárútboð hafi verið haldin hér á landi með mikilli þátttöku almenning. Vísar stofnunin þar eflaust og ekki síst til hlutafjárútboðs Icelandair Group í september þar sem nærri 30 milljarðar söfnuðust í formi nýs hlutafjár. Þá er einnig áréttað að afkoma Íslandsbanka hafi reynst góð á árinu og betri en álykta mátti út frá sviðsmyndaspá Seðlabankans frá því í júní síðastliðnum. Góður tími til að selja.
Í tillögu stofnunarinnar er ekki ákvarðað hversu stóran hluta skuli selja í fyrstu atrennu og að viðbrögð fjárfesta í samhengi við væntar arðgreiðslur bankans muni ráða úrslitum um hvort hagstætt sé fyrir ríkið að selja hlut sinn.