Húsavík Séð yfir svæðið við höfnina. Húsið þar sem Fiskiðjusamlag Húsavíkur rak starfsemi sína er til hægri á myndinni, en neðri hluti þess er við Hafnarstétt, en Garðarsbraut að ofanverðu. Norðlenska hefur átt húsið síðustu ár, en það hefur ekki verið í mikilli notkun.
Húsavík Séð yfir svæðið við höfnina. Húsið þar sem Fiskiðjusamlag Húsavíkur rak starfsemi sína er til hægri á myndinni, en neðri hluti þess er við Hafnarstétt, en Garðarsbraut að ofanverðu. Norðlenska hefur átt húsið síðustu ár, en það hefur ekki verið í mikilli notkun.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Framtíðarsýn Óla Halldórssonar, forstöðumanns Þekkingarnets Þingeyinga, er að á Húsavík verði í náinni framtíð suðupottur hugmynda og atvinnulífs við Hafnarstéttina í miðbænum.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Framtíðarsýn Óla Halldórssonar, forstöðumanns Þekkingarnets Þingeyinga, er að á Húsavík verði í náinni framtíð suðupottur hugmynda og atvinnulífs við Hafnarstéttina í miðbænum. Viðræður standa yfir um að nýta húsnæði sem Fiskiðjusamlag Húsavíkur byggði upp fyrir starfsemi sína. Þar sem áður stóðu fiskvinnslukonur í röðum í vinnslusalnum fyrir nokkrum áratugum verði frumkvöðlasetrið Hraðið starfrækt. Það heiti sækir bæði í sögu hraðfrystihússins á staðnum og til hraðla, sem tengjast þá aftur nútíma og nýsköpun.

Heildarhugmynd um stóran klasa þróunar-, þekkingar- og rannsóknastarfsemi undir einu þaki á Húsavík hefur hins vegar verkheitið Frystihúsið. Þekkingarnetið vinnur að þessum málum m.a. með Náttúrustofu Norðausturlands, Rannsóknasetri Háskóla Íslands og Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra.

Í gamla frystihúsinu, sem er alls um fjögur þúsund fermetrar að stærð í hjarta Húsavíkur, yrði öflugt og fjölbreytt þekkingasetur undir einu þaki. Óli tekur skýrt fram að samningum sé ekki lokið við eigendur hússins, en þau mál skýrist væntanlegu á næstu vikum. Lítil starfsemi hefur verið í húsinu síðustu misseri.

Áður en draumurinn um stórt þekkingarsetur yrði að veruleika þyrfti að fara í talsverðar framkvæmdir í húsinu og segir Óli að viðræður séu einnig í gangi um fjármögnun þeirra. Óli tekur fram að húsakosturinn sem slíkur sé ekki upphaf eða endir verkefnisins, þótt vissulega sé það mjög ákjósanlegt að byggja á merkri sögu atvinnulífs og þróunarvinnu í frystihúsinu í miðbæ Húsavíkur.

Í síðustu viku úthlutaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 76,5 milljónum krónum til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða. Uppbygging frumkvöðlasetursins á Húsavík og myndun klasa nokkurra stofnana fékk 19 milljóna styrk sem kemur til greiðslu á næsta ári. Þá eru fleiri leiðir til fjármögnunar í undirbúningi og munu skýrast á næstunni.

Óli segir að styrkurinn muni nýtast til að greiða húsaleigu í upphafi og koma starfsemi í Hraðinu af stað. Hann segir að unnið verði út frá einfaldleika og hráu húsnæði fyrir þessa starfsemi, t.d. eins og finna megi í fiskvinnslusal frystihúss. Í Hraðinu er fyrirhugað að verði lífleg miðstöð þar sem tekið verði á móti frumkvöðlum, einstaklingum, fyrirtækjum og skólahópum. Góð vinnuaðstaða, öflug umgjörð og frjótt umhverfi, m.a. með stafrænni smiðju (fab lab) er markmiðið.

Marel og Fiskiðjusamlagið

Óli segir að Þekkingarnet Þingeyinga sé hýsill þessara verkefna, en muni síðan framleigja aðstöðu til annarra. Hann segir að við undirbúning að nýsköpunarsetrinu í Hraðinu komi kjarni yfir 20 aðila, einkum opinberar stofnanir á sviði rannsókna og þekkingar.

Alls ekki sé útilokað að einkafyrirtæki bætist við og nefnir Óli stórfyrirtækið Marel í því sambandi. Sögu þess megi tengja við Húsavík, en fyrstu vogirnar frá Marel hafi m.a. verið notaðar í Fiskiðjusamlaginu á Húsavík um 1980. Langur vegur sé frá þeim tíma í sögu fyrirtækisins og mikil þróun hafi átt sér stað. Óli segist gera sér góðar vonir um að Marel komi að borðinu á einn eða annan hátt og segir að við undirbúning verkefnisins hafi það verið kynnt stjórnendum fyrirtækisins.

Annað setur við Skútustaði?

Ekki er víst að Þingeyingar láti staðar numið við uppbygginguna á Húsavík. Í umræðunni hefur verið að koma upp þekkingarsetri í Mývatnssveit í tengslum við uppbyggingu þjóðgarðsmiðstöðvar og hefur Hótel Gígur við Skútustaði verið nefnt í því sambandi. Þekkingarnet Þingeyinga hefur unnið að þróun þess verkefnis með Mývetningum og eru vonir bundnar við að myndarlegt þekkingar- og nýsköpunarsetur verði myndað þar.

Með aðstöðu víða

Þekkingarnet Þingeyinga er símenntunar-, háskólanáms- og rannsóknasetur. Stofnunin rekur mönnuð námsver á Húsavík, Þórshöfn og í Mývatnssveit og er einnig með aðstöðu á Kópaskeri, Raufarhöfn og á Laugum í Reykjadal.

Þekkingarnetið býður upp á námskeiðahald, hefur milligöngu um námsleiðir og námsframboð fyrir fólk og vinnustaði og rekur fjarnámssetur með þjónustu og vinnuaðstöðu fyrir háskólanema á svæðinu. Einnig er stofnunin miðstöð rannsókna og hýsir til lengri og skemmri tíma fólk, stofnanir og fyrirtæki sem stunda rannsóknir í héraðinu.

Alls starfa um 20 manns innan þekkingarsetursins á Húsavík um þessar mundir, þar af 10 í föstu starfi hjá Þekkingarnetinu. Þegar mest er umleikis eru starfsmenn yfir 30, auk þess sem erlendir rannsakendur og háskólanemar koma og fara.