„Ég tek alveg eftir því að fólk starir. Ég tók það rosalega inn á mig fyrst en ég hef smá vanist því. Litlir krakkar segja stundum eitthvað og það er bara pínu krúttlegt hvað þau eru opin,“ segir Sólrún Alda.
„Ég tek alveg eftir því að fólk starir. Ég tók það rosalega inn á mig fyrst en ég hef smá vanist því. Litlir krakkar segja stundum eitthvað og það er bara pínu krúttlegt hvað þau eru opin,“ segir Sólrún Alda. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sólrún Alda Waldorff þakkar fyrir að vera á lífi en hún var hætt komin eftir bruna í Hlíðunum í október 2019. Sólrún Alda brenndist illa í andliti og finnur fyrir augnagotum, en er staðráðin í að halda áfram að lifa lífinu með kærastann sér við hlið. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Það er löngu farið að skyggja þetta síðdegi í vikunni þegar blaðamaður bankar upp á hjá Sólrúnu Öldu sem býr í hlýlegri íbúð í miðbæ Reykjavíkur. Enda ekki að undra þar sem við erum stödd í dimmasta skammdeginu og stysti dagur ársins handan við hornið. Við setjumst við eldhúsborðið og ræðum lífið og tilveruna, sem heldur betur snerist á hvolf hjá Sólrúnu Öldu einn októberdag í fyrra.

Rúmt ár er síðan Sólrún Alda vaknaði upp föst inni í brennandi íbúð og lífið breyttist til frambúðar. Af yfirvegun og ró segir Sólrún Alda sögu sína og rétt eins og brátt fer að birta með hækkandi sól sér hún fram á bjartari tíma. Það býr í henni sigurvegari sem lætur ekki deigan síga þótt móti blási. Hugrekki er það orð sem kemur í huga blaðamanns; hugrekki, dugnaður og styrkur.

Kviknar í olíupotti

Sólrún Alda er 23 ára Reykjavíkurmær, en hún sleit barnsskónum í Grindavík. Þaðan lá leiðin í Kvennó og svo í Háskóla Íslands þar sem hún leggur stund á sálfræðinám. Hún tók sér þó eins árs hlé eftir menntaskóla og lagðist í ferðalög um heiminn.

„Ég fór í mánuð til Japans og var að vinna líka. Ég var á þriðja ári í sálfræði og rétt að byrja í lokaprófum þegar slysið varð,“ segir Sólrún Alda og útskýrir að með henni í brunanum hafi verið kærasti hennar Rahmon Anvarov. Hann er tölvunarfræðingur og hagfræðingur og vinnur í dag sem forritari en hann kemur alla leið frá Tadsjíkistan.

„Hann flutti hingað fyrir fimm árum. Við kynntumst bara á Tinder,“ segir Sólrún Alda og hlær.

Unga parið var heima hjá Rahmon þetta örlagaríka miðvikudagskvöld, 23. október 2019, en Rahmon leigði herbergi í kjallaraíbúð í Mávahlíð. Í íbúðinni bjó einnig eigandi íbúðarinnar. Sólrún Alda og Rahmon voru í fastasvefni þegar kviknaði í potti sem var fullur af olíu. Eldurinn breiddist hratt út og eigandinn réð ekki neitt við neitt.

„Ég hef engar minningar frá þessu, en veit eftir að hafa rætt við kærasta minn, eigandann og lögreglu að við vöknum um tvö um nóttina. Eigandinn sér okkur opna dyrnar en svo verður eldurinn svo mikill að við læsumst inni í herberginu. Við reynum þá að brjótast út um gluggann en náum því ekki og svo bara líður yfir okkur,“ segir hún.

„Mér skilst að eigandinn hafi verið að steikja eitthvað í olíu, en hann er kokkur og vinnur á furðulegum tímum. Það kviknaði í pottinum og mér skilst að hann hafi ætlað að hlaupa með hann út en misst hann,“ segir hún og segir þá eldinn hafi breiðst út um íbúðina.

„Og þar með voru útgönguleiðirnar okkar farnar, en hann náði að hlaupa út. Slökkviliðið kom svo nokkrum mínútum seinna og þá var svo mikill reykur. Við erum ekki með brunasár, heldur hitasár, því eldurinn náði ekki inn í herbergið. Það var bara hiti.“

Vaknaði mánuði síðar

Eins og fyrr segir á Sólrún Alda engar minningar frá nóttinni skelfilegu, en hún var flutt á brunadeild Landspítalans og þaðan var hringt í foreldra hennar sem komu með hraði. Þau fengu fyrst að sjá hana morguninn eftir.

„Þeim var þá sagt að ég þyrfti að fara utan og þau bókuðu þá strax miða og drifu sig út með flugi,“ segir Sólrún Alda en hún var flutt með sjúkraflugi til Linköping í Svíþjóð. Í heilan mánuð og nokkrum dögum betur var Sólrúnu Öldu haldið sofandi í öndunarvél.

„Ég man bara eftir því að hafa farið að sofa í Mávahlíð og svo vakna ég á spítala með ókunnugu fólki og það var allt mjög ruglingslegt. Mamma og pabbi og bróðir minn voru þarna og ég öll í snúrum. Foreldrar mínir og læknar voru í nokkra daga að koma mér í skilning um að ég hefði lent í slysi og væri í Svíþjóð,“ segir Sólrún Alda og segir lækna fyrst ekki hafa vitað hvort hún hefði orðið fyrir einhverjum heilaskaða.

„Ég var rúman mánuð í dái. Ég var með rosalegar martraðir. Foreldrar mínir hafa sagt mér að þótt ég væri í dái hafi ég getað heyrt og svarað með því að kinka kolli.“

Það var svo mikil hræðsla

Þegar þú vaknaðir og fórst að skilja aðeins hvað var í gangi, hvað fór í gegnum hugann?

„Það var svo mikil hræðsla. Og reiði líka. Mér fannst þetta svo ósanngjarnt. Í byrjun fann ég fyrir mikilli reiði í garð eigandans þótt ég finni það ekki lengur. Það er löngu farið,“ segir hún.

„Svo var ég með túpur í hálsinum og gat ekkert talað; ekkert tjáð mig. Bara það að reyna að biðja um eitthvað eða þurfa að hafa samskipti við lækna og fjölskyldu var svo erfitt,“ segir Sólrún Alda sem segist aðspurð ekki heldur hafa getað skrifað skilaboð á blað.

„Það tók alveg mánuð að fá hreyfigetu í hendur. Ég man ég fékk talgervil og þá gat ég í fyrsta sinn talað og ég sagði við mömmu að við þyrftum að koma okkur upp einhverju kerfi. Eitthvað svo þau gætu skilið mig,“ segir Sólrún Alda.

„Ég upplifði rosalega miklar kvalir. Ég var á svakalega sterkum verkjalyfjum og var mest sofandi. Ég vaknaði fyrst um sinn bara í hálftíma í senn,“ segir hún.

„Ég man þegar ég var látin setjast upp í fyrsta sinn og látin labba, hvað það var kvalafullt; ég fann til alls staðar í líkamanum. Ég missti svo mikið af vöðvum við að liggja svona í rúman mánuð og svo ofan á brunasárin er ég með ígræðslur. Það var tekin húð af fótleggjum og sárin sem mynduðust þar voru mjög vond.“

Er hann að fara að vakna?

Á meðan Sólrún Alda barðist fyrir lífi sínu í Svíþjóð var Rahmon í sömu sporum á brunadeild heima á Íslandi.

„Ég man að hann var í dái viku lengur en ég. Það var rosalega erfitt að hugsa til hans. Foreldrar hans voru þá komin til hans en það voru ekki mjög mikil samskipti á milli okkar. Ég heyrði kannski í þeim á nokkurra daga fresti, til að heyra hvað væri í gangi hjá honum. Ég hugsaði: „Er hann að fara að vakna?“ Það var versti parturinn,“ segir Sólrún Alda, en unga parið hafði verið saman í eitt og hálft ár þegar slysið varð.

„Rahmon vaknaði svo og var í svipuðu ástandi og ég en var aðeins seinni að fara að tala og ganga. En hann er búinn að ná sér að fullu. Hann brann á 60% af líkamanum; öll bringan, allt bakið og fæturnir. Ég er með minna af brunasárum en kannski á heldur óheppilegri stöðum. Hann brann ekki í andliti,“ segir hún og segist hún hafa brunnið á 35% líkamans.

„Ég brenndist líka rosalega illa í lungunum. Þegar ég kom til Svíþjóðar féllu lungun saman og fjölskyldunni var sagt að halda niðri í sér andanum.“

Náðum bata saman á Grensás

Læknarnir í Svíþjóð sögðu Sólrúnu Öldu að hún stæði sig mjög vel og betur en þeir áttu von á. Hún segist strax hafa verið ákveðin í að koma sér á fætur og hefja batann.

„Stór ástæða fyrir því var að mig langaði svo að komast heim til hans Rahmons og fjölskyldu minnar. Mér fannst líka svo rosalega ósanngjarnt að lífið einhvern veginn stæði í stað. Ég gat ekki útskrifast úr skólanum eða haldið áfram með neitt,“ segir hún en Sólrún Alda fékk að fara heim um einum og hálfum mánuði eftir dvölina í Svíþjóð. Þaðan lá leiðin á Landspítalann í Fossvogi þar sem hún lá í tvær vikur og var hún þá lögð inn á Grensásdeildina þar sem hún lá ásamt Rahmon í þrjá mánuði.

Hvernig var að hitta Rahmon aftur við heimkomuna?

„Það var ofsalega erfitt og ég var mjög hrædd af því ég lít ekki eins út. Hann hafði ekki viljað sjá myndir af mér heldur vildi bara sjá mig þegar ég kæmi. Þannig að ég fann fyrir miklu óöryggi, en það fór mjög vel,“ segir hún og segir það hafa skipt sköpum að hafa haft stuðning hvort af öðru inni á Grensás.

„Það var svo gott og ég held að það sé ástæðan fyrir því að við náðum svona fljótt bata. Við vorum heppin að geta verið þarna saman.“

Tekur eftir að fólk starir

Hvernig hefur þér tekist að læra að lifa með þessu?

„Það hefur verið mjög erfitt og er enn erfitt. Ég ætla ekki að neita því. Ég hef fundið fyrir þunglyndi og kvíða og það hefur verið erfitt að fara út á meðal fólks. Ég tek alveg eftir því að fólk starir. Ég tók það rosalega inn á mig fyrst en ég hef smá vanist því. Litlir krakkar segja stundum eitthvað og það er bara pínu krúttlegt hvað þau eru opin,“ segir hún og hlær.

„Það er auðvitað erfitt að sætta sig við að þetta verði bara svona. Ég hef verið hjá sálfræðingum og hitt prest og talað mig í gegnum þetta. En það koma alltaf dagar sem ég er ekki í lagi.“

Sólrún Alda hefur gengist undir nokkrar aðgerðir síðan hún kom heim og á fleiri eftir, en segir núna allt vera í biðstöðu vegna Covid.

„Það var húð flutt undir augun því húðin herpist svo mikið saman. Svo var gerð tilraun með stofnfrumur, en þá var tekin fita af maganum og sprautað í andlitið. Ég fer í aðra svoleiðis aðgerð í janúar og svo á ég eftir einhverjar fegrunaraðgerðir, það þarf til dæmis að laga nefið,“ segir hún og segir þetta sannarlega hafa verið mikla lífsreynslu. Hún hyggst þó nýta sér reynsluna í framtíðinni.

„Ég get aðeins tengt það við námið mitt. Eftir slysið hef ég meiri áhuga á að vinna áfallavinnu og mig langar líka að tala við fólk um eldvarnir. Mig langar ekki að slysið sé til einskis. Þetta kom fyrir mig og mig langar að gera eitthvað með það og koma í veg fyrir að fleiri lendi í þessu,“ segir hún og segir að í íbúðinni hafi brunavörnum verið ábótavant. Hvorki hafi þar verið reykskynjari né eldvarnateppi.

„Maður getur ekki annað en hugsað: hvað ef?“

Miklar kvalir í andliti

Sólrún Alda kláraði síðasta jólaprófið daginn sem viðtalið var tekið og segir prófin hafa gengið vel. Hún útskrifast í vor og veit ekki enn hvað tekur við, en hefur áhuga á að halda áfram námi, og þá jafnvel í barnasálfræði.

„Ég stefni á að vinna með börnum; það er það sem mig langar mest að gera,“ segir hún.

Nú, rúmu ári eftir slysið, er Sólrún Alda enn líkamlega kvalin.

„Á hverjum einasta degi. Ég er ennþá að taka mikið af sterkum verkjalyfjum, oft á dag. Mér var sagt að sársaukinn myndi vara í tvö ár. Hann er í andlitinu. Húðin í andlitinu er svo viðkvæm. Læknarnir eru að reyna að mýkja húðina með þessum stofnfrumusprautum en ég veit ekki hversu langt það fer.“

Sólrún Alda á mikið af góðum vinum sem tóku henni vel þegar hún kom heim frá Svíþjóð.

„Það versta var að þegar ég var nýfarin að hitta fólk, þá kom Covid. Það eru enn margir vinir sem ég á eftir að hitta. Svo þarf ég að passa mig sérstaklega, út af lungunum, en þau virka ekki enn að fullu. Það er búið að vera mikið fjarnám í vetur, sem var heppilegt bara. Það hentaði mér betur en að vera að mæta. Orkan er minni en áður og ég sef rosalega mikið.“

Fundið fyrir ást og samþykki

Nú er eitt ár í sjálfu sér ekki langur tími. Finnst þér þú hafa náð einhvers konar sátt?

„Já. Ég hélt að það myndi ekki gerast, en það hefur gerst. Þótt ég hefði aldrei viljað lenda í þessu slysi þá hafa líka svo yndislegir hlutir gerst vegna þess. Ég fékk að hitta tengdaforeldra mína í fyrsta skipti, en þau voru hér hjá syni sínum. Það var yndislegt. Ég hef líka fundið fyrir svo mikilli ást og samþykki frá samfélaginu. Ég hef fengið svo mikið af skilaboðum og fólk hefur stundum stoppað mig úti á götu,“ segir hún og segist hafa fundið fyrir stuðningi þjóðarinnar en slysið snerti sannarlega við mörgum.

Sólrún Alda segir brunana í ár hafa fengið mjög á sig en þeir hafa verið óvenjumargir og mannskæðir á árinu.

„Ég man þegar bruninn var í Vesturbænum, þá mætti ég slökkviliðsbílunum. Ég brotnaði bara niður. Þetta var rosalega erfitt. Þá hugsar maður um af hverju fólk hugar ekki að brunavörnum,“ segir Sólrún Alda og biðlar til almennings nú á aðventunni að huga vel að kertum, setja upp reykskynjara og hafa bæði slökkvitæki og eldvarnateppi til taks.

Aldrei langað að deyja

Sólrún Alda segist hafa hitt afskaplega mikið af góðu fólki undanfarið ár og fyrir það er hún þakklát.

„Ég er svo þakklát fyrir fólkið í Svíþjóð og fólkið á Grensás og fyrir sjúkra- og iðjuþjálfara mína. Þær eru yndislegar,“ segir hún og segist enn vera í sjúkraþjálfun og hjá læknum reglulega. Einnig hefur hún leitað eftir stuðningi hjá fólki sem deilir svipaðri reynslu.

„Ég hef heyrt í fólki hérlendis sem lent hefur í andlitsbruna og það hefur verið yndislegt að tala við það fólk. Það er gott að tala við fólk sem hefur lent í því sama og ég. Þó að Rahmon hafi lent í því sama getur hann klætt af sér brunann sinn, sem ég get ekki gert,“ segir hún.

Sólrún Alda hefur síður en svo gefist upp.

„Ég held að maður fái einhvern aukinn styrk þegar maður lendir í svona. Ég hef aldrei sokkið svo djúpt að ég hafi viljað deyja. Ég hef frekar hugsað hvað hefði gerst ef ég hefði ekki lifað af. En mig hefur aldrei langað að deyja. Ég er svo þakklát fyrir að hafa lifað þetta af og að hafa svona gott bakland. Það gerir allt auðveldara.“

Hvernig horfir þú til framtíðar, ertu bjartsýn?

„Já, ég er rosalega bjartsýn. Ég er að fara að klára skólann, flytja í mitt eigið húsnæði og ferðast um heiminn. Mig langar að fara til Tadsjíkistan og heimsækja fjölskylduna hans Rahmons. Mér líður eins og lífið sé rétt að byrja.“