Kúgun úigúra og aðför að andófsmönnum afhjúpa kínverskt stjórnkerfi

Það getur verið dýrkeypt að miðla upplýsingum í Kína. Síðar í þessum mánuði munu hefjast réttarhöld í máli Zhang Zhan, sem er gefið að sök að hafa „efnt til illdeilna og stofnað til vandræða“. Zhang var handtekin í maí og hefur verið í haldi síðan. Hún mun vera aðframkomin og þurfa aðstoð við að komast á salerni.

Glæpur Zhang var að miðla upplýsingum á félagsmiðlum um kórónuveirufaraldurinn. Veiran átti upptök sín í borginni Wuhan í lok árs 2019. Zhang fór þangað í febrúar, sendi út myndir á félagsmiðlum og skrifaði frásagnir þar sem hún gagnrýndi viðbrögð stjórnvalda, þar á meðal fyrir að hefta för milljóna manna með hörðum aðgerðum. Í febrúar skrifaði hún að stjórnvöld hefðu „ekki gefið almenningi nógu miklar upplýsingar og síðan einfaldlega skellt borginni í lás. Þetta var mikið brot á mannréttindum“.

Zhang er ein af fjórum almennum borgurum, sem yfirvöld handtóku fyrr á árinu fyrir að senda fréttir frá Wuhan og bíða nú réttarhalda. Hinir þrír eru Chen Qiushi, Fang Bin og Li Zehua. Fréttaveitan AFP náði tali af lögmanni Zhang og birti frétt um hana í gær, en hefur ekki tekist að ná sambandi við hina þrjá. Þetta fólk á yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi vegna þess að orð þeirra voru yfirvöldum ekki þóknanleg.

Kórónuveiran hefur víða orðið tilefni til að þrengja að réttindum fólks. Það á ekki bara við í alræðisríkjum. Sömu tilhneigingar gætir í lýðræðisríkjum. Hér var lagt fram frumvarp sem átti að tryggja að íþyngjandi aðgerðir, sem þrengdu að rétti fólks og frelsi, ættu sér lagastoð. Vitaskuld er gott að ríkið hafi valdheimildir, en um leið er ástæða fyrir því að skorður eru settar við heimildum til að beita valdi.

Valdheimildir eru ekki vandamálið í Kína og þeim er óspart beitt. Kínversk stjórnvöld hafa brugðist hart við gagnrýni og haft uppi stór orð um upplýsingaglundroða og róg. Gagnrýni utan frá er afgreidd sem aðför að fullveldi landsins í réttarfarsmálum og afskipti af innanríkismálum. Eftir stendur að andófsmenn og lögmenn, sem hafa leitað eftir að flytja mannréttindamál, hafa sætt ofsóknum. Andófsmenn og lögmenn þeirra eru sóttir til saka og settir í fangelsi, þeim er rænt og þeir sæta pyntingum.

Kínverjar gera líka lítið úr gagnrýni á meðferð þeirra á úigúrum, minnihlutahópi múslíma, sem flestir búa í héraðinu Xinjiang. Talið er að milljón úigúrar og fólk úr öðrum minnihlutahópum, einkum múslima, séu í fangabúðum. Í upphafi neituðu kínversk stjórnvöld að þessar fangabúðir væru til, en segja nú að um svokallaðar endurmenntunarbúðir sé að ræða, líkt og eitthvað sé sjálfsagt við að senda fólk nauðugt þangað, og tilgangurinn sé að gera þeim auðveldara fyrir á vinnumarkaði.

Stjórnvöld beita úigúra kúgun og yfirgangi. Markmiðið er að þurrka út menningu þeirra og einkenni. Þáttur í því er að hvetja konur úr röðum úigúra til að ganga að eiga han-kínverja. Í staðinn er þeim lofað vinnu, íbúð eða jafnvel að ættingi verði ekki sendur í fangabúðir.

Meðal þess, sem notað er til að hafa eftirlit með úigúrum, eru myndavélar. Lýsingar á umfangi hins rafræna eftirlits með þeim eru hrollvekjandi.

Meðal annars er talað um sérstakan kennslabúnað, sem getur þekkt fólk á andlitsdráttum, augnskanna, söfnun á erfðaefni og notkun gervigreindartækni, sem beitt er í nafni þess að fyrirbyggja hryðjuverk.

Ekki er langt síðan mátti lesa á heimasíðu kínverska risafyrirtækisins Alibaba að viðskiptavinir gætu keypt hjá því búnað þess til að greina andlitsdrætti úigúra og annarra þjóðarbrota á myndum og myndskeiðum. Þegar farið var að grennslast fyrir um þetta hurfu upplýsingarnar af heimasíðunni.

Vert er að halda því til haga að þetta kúgunartæki verður í sviðsljósinu á næsta ári þegar skemmtigarður undir merkjum bandaríska kvikmyndaversins Universal verður opnaður í Kína og þar á einmitt að beina andlitskennslabúnaði Alibaba við miðasölu og að hleypa inn á svæðið.

Alibaba segir reyndar að búnaðurinn hafi aðeins verið prófaður, en aldrei notaður á vettvangi.

Fyrirtækið Huawei, sem verið hefur í umræðunni hér vegna innleiðingar 5G-fjarskiptakerfis, hefur einnig verið bendlað við eftirlit með úigúrum. Fyrr í mánuðinum greindi bandarískt fyrirtæki, IVPM, sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á eftirlitstækni, frá því að Huawei hefði tekið þátt í að prófa andlitskennslabúnað, sem gæti sent boð til lögreglu við greiningu á andlitum úigúra.

Huawei hefur átt fullt í fangi með að sverja af sér tengsl við kínversk stjórnvöld og reynt að vísa á bug fullyrðingum og grunsemdum um að fái það að setja upp 5G-kerfi á Vesturlöndum muni opnast njósnagátt fyrir kínversk stjórnvöld og þrætti snarlega fyrir að hafa tekið þátt í slíkum prófunum.

Kínverjar kunna að vera vel á veg komnir með að verða mesta stórveldi heims. Þeir hika ekki við að refsa séu þeir gagnrýndir, hvort sem það er innan lands eða utan. Norðmenn, Ástralar og fleiri þekkja það. Það á hins vegar ekki að hika við að gagnrýna ríki, sem breytir réttarkerfi sínu í kúgunartæki og reynir að þurrka út þjóðarbrot með grimmilegum aðferðum.