[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is „Er það ábyrgð eða hugleysi að sætta sig við örlög sín?

Viðtal

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

„Er það ábyrgð eða hugleysi að sætta sig við örlög sín? Hér tvinnast saman yfir staði og tíma, frá Hólmavík suður eftir Evrópu, kynslóð fram af kynslóð, líf sem kannski eru jafn tíðindalítil og girðingarstaurar en halda þó öllu uppi. Kornabarn sem rétt er yfir eldhúsborð, löngu dáið þýskt skáld, trillusjómaður sem er sérfræðingur í Kierkegaard, döpur rokkstjarna, stúdína úr MR, dánir hvolpar og hver er þessi prestlærði rútubílstjóri? Sum bros geta breytt heimum og sum líf kvikna eingöngu vegna þess að heimar gengu úr skorðum.

Þetta er saga mennsku og breyskleika og hinnar óseðjandi gleymsku.“

Þannig er nýrri skáldsögu Jóns Kalmans Stefánssonar, Fjarvera þín er myrkur , lýst aftan á kápu bókarinnar. Ein af mörgum og jafnvel óteljandi leiðum til að lýsa henni, að mati blaðamanns, sem er nýbúinn að ljúka við bókina þegar hann slær á þráðinn til Jóns Kalmans sem þá á afmæli. Honum er óskað til hamingju með árin 57 og segist hann lítið spá í aldurinn, í raun aldrei velta honum fyrir sér. „Ég missti samband við töluna upp úr þrítugu og man því aldrei hvað ég er gamall,“ segir hann kíminn. Enda aldur bara tala.

Náma, fjall og úthaf

Jón Kalman er spurður út í efnivið sinn, tungumálið, hvort einhver þróun hafi átt sér stað í notkun þess hjá honum á milli bóka. „Þótt tungumálið sem slíkt sé auðvitað afar mikilvægt og eitt mitt helsta verkfæri þá hugsa ég ekki meðvitað um það, hugsa ekki meðvitað um orðin og reyni ekkert sérstaklega að breyta því hvernig ég nota tungumálið á milli bóka. Allt hefur sinn hljóm og það er kannski frekar að maður reyni að finna nýja leið í frásagnarhætti eða frásagnaraðferðum sem eru alveg jafnmikilvægir hlutir og tungumálið fyrir mér,“ svarar hann. Tungumálið sé svo mikil náma, svo mikið fjall og úthaf sem hann sé alltaf að glíma við, uppgötva og baða sig í.

„Stundum líður manni bara eins og algjörum byrjanda, maður er stöðugt að uppgötva eitthvað nýtt, ný orð, nýjar aðferðir til að koma hlutunum í orð og svo er maður alltaf að heyja að sér. Ég var uppteknari af þessu þegar ég var að byrja að skrifa prósa, nóteraði þá ósjaldan í litlar vasabækur upp úr þeim bókum sem maður var að lesa. Þá einkum upp úr eldri skáldskap sem ég las þá talsvert af. En það var rétt bara til að byrja með, síðan hætti ég að nótera orð hjá mér, geri það aldrei. Þau sökkva bara ofan í djúpin innra með manni, koma kannski upp löngu síðar, eða kannski alls ekki,“ segir Jón Kalman og bætir við að undirmeðvitundin sé alltaf sterk í sköpuninni. „Það er alltaf að koma eitthvað upp úr djúpinu sem maður hafði aldrei hugsað út í.“

Vill breyta lesandanum í skáld

Í bókinni er farið fram og aftur í tíma, milli ólíkra persóna og sagna og milli ólíkra staða. Segir af ástum, sorgum, lífi og dauða, eftirsjá og girnd og sögumaðurinn er svo ákveðin ráðgáta. Hann er enda breytilegur eftir bókum Jóns Kalmans og í Fjarvera þín er myrkur er hann aldrei nefndur á nafn. Í upphafi bókar rankar sögumaður við sér í sveitakirkju, veit ekki hver hann er eða hvernig hann komst þangað. Á aftasta bekk situr maður sem horfir háðslega á sögumanninn. Sá kemur reglulega við sögu í bókinni og er lesandans að ákveða hverjir mennirnir tveir séu eða hvort það skipti yfirhöfuð máli.

Þótt blaðamaður viti svarið við næstu spurningu spyr hann hennar engu að síður. Hver er sögumaðurinn og má yfirleitt spyrja Jón Kalman að því? Er þá verið að eyðileggja fyrir þeim sem eiga eftir að lesa bókina?

„Þú mátt endilega spyrja mig að hverju sem er en það er ekki þar með sagt að ég svari því, nema í besta falli óbeint,“ svarar Jón Kalman sposkur. „Það eru vissar spurningar sem ég læt vera að svara hreint út,“ heldur hann áfram, „því hættan er sú að lesandinn taki svörum höfundar sem hinum endanlega sannleik, hinu endanlega svari, og hætti þá að leita sjálfur. Það má ekki. Hver lesandi á að svara með sínum hætti og þau svör þurfa ekkert endilega að ríma við svör höfundarins. Ég vil reyna að breyta lesandanum í skáld, vil vekja sköpunina hjá lesandanum.“

Jón Kalman segir að lesandinn verði að gera það upp við sig hver sé sögumaðurinn. Hver og einn verði að ákveða það eða ákveða að gera það ekki. Sumum þyki það skipta máli, öðrum ekki. „Þetta er ein af aðferðum mínum til að finna nýja leið fyrir skáldsöguna. Ég er að vinna með skáldsagnaform sem er mjög gamalt og eitthvað í mér krefst þess að ég finni nýja leið til að fjalla um lífið og víkka formið. Það er mikilvægt fyrir mig persónulega en líka mikilvægt fyrir form skáldsögunnar.“

Óljóst og augljóst

– Annar maður fylgir sögumanninum, má ekki segja að hann sé að skrifa söguna með honum?

„Hans hlutverk er bæði mjög óljóst og alveg augljóst. En um leið og þú kemst að þeirri skoðun að hlutverk hans sé augljóst áttar þú þig á því að þú hefur rangt fyrir þér. Hann er á einhverjum landamærum, eða einhverju svæði sem hefur aldrei verið kortlagt. Þar sem enginn munur er á vissu og óvissu, þar sem fortíð, nútíð og hugsanlega framtíð eru eitt,“ svarar Jón Kalman.

– Hann er tenging milli heima?

„Já, hann er að vissu leyti tenging milli heima en það er líka mikilvægt að hafa í huga að ekki er hægt að treysta honum.“

– Þegar ég les sé ég fólkið og aðstæðurnar fyrir mér en þessi tiltekna persóna breyttist í huga mér eftir því sem leið á bókina, breytti endurtekið um útlit. Vildir þú ná fram slíkum hughrifum?

„Það gleður mig að heyra það. Þá hef ég gert eitthvað rétt. Og mig grunar að því sé þannig háttað að í hvert sinn sem þú telur þig hafa áttað þig á honum þá breytist hann.“

Ástin býr til örlagakeðju

– Er sagan á endanum einhvers konar uppgjör við ástina, er hægt að súmmera hana þannig upp?

Jón Kalman segir varla hægt að súmmera bókina upp með afgerandi hætti. „En ástin er þarna eitt af meginöflunum, hún er yfir og undir. Fljótt á litið virðist upphafspunktur þessa heims eða þessara sagna vera á Snæfellsnesi fyrir 120 árum, þegar fátæk bóndakona á heiðarbýli skrifar grein um ánamaðkinn, en líklega hefst sagan næstum 30 árum áður austur í Neskaupstað, þegar faðir hennar kynnist og á í ástarsambandi við franskan skipstjóra og reynir síðan að synda til Frakklands. Sögurnar hefjast þannig með ákafri ást sem fær ekki að lifa, sem verður að deyja. Og það virðist gefa tóninn með vissum hætti. Girndin er síðan oft af ástinni og stundum eigum við erfitt með að greina þar á milli. Mér finnst þetta spennandi viðfangsefni. Og það er fullkomlega tímalaust. Þú rekst á það sama hvar sem þig ber niður í mannkynssögunni. Ástin og girndin eru öfl sem hafa í sífellu breytt lífum, komið af stað atburðarásum, valdið óbærilegum skaða, kveikt svimandi hamingju.“

Jón Kalman bendir á að í seinni tíð með tilkomu svonefnds afþreyingariðnaðar hafi fólk fengið rómantískari mynd af ástinni, hinni mjúku, fallegu ást sem geti verið væmin en gleymi því stundum hvað ástin geti verið óhugnanlegt og tillitslaust afl, líkt og náttúran sjálf sem geti verið ægifögur og heillandi en líka fullkomlega miskunnarlaus. „Inni í þessu eru líka vangaveltur um að heimar þurfi að farast til að aðrir verði til,“ segir hann.

– Þegar nokkuð er liðið á bókina kemur stuttur kafli um mögulega endaleysu alheimsins, að handan þess heims sem við þekkjum séu aðrir og mögulega óteljandi heimar. Þetta er óþægileg tilhugsun og ég velti fyrir mér hvort þarna sé kominn lykill að bókinni. Er það rangtúlkun eða ein af mörgum?

„Ja, þetta er náttúrlega ein af mörgum mögulegum túlkunum og fín túlkun. Ef þú getur réttlætt hana fyrir sjálfum þér er hún hárrétt, hvað þig varðar. En hugleiðingar um alheimana eru sjálfsagt einn af lyklunum. Ég er í þessari sögu sumpart að fjalla um möguleikann á því að breyta lífinu, taka erfiða ákvörðun sem breytir þínu lífi og annarra í kringum þig. Eins er ég að fjalla um þennan efa eða óvissu að ef þú tekur ákvörðun – og Kierkegaard er að fjalla um það líka – þá ertu að útiloka ákveðið líf. Þú ert að vissu leyti að ákveða að eitthvað sem hefði getast gerst, eitthvað mikilvægt, muni aldrei gerast. Þú ert að opna á ný örlög, loka á önnur. Ofan í þennan efa, ábyrgðina yfir því að velja eða velja alls ekki, koma þessar vangaveltur um að við lifum í svokölluðum fjölheimi. Það er að alheimur okkar sé bara einn af ótal, ótal öðrum alheimum. Og að við, þú og ég, séum jafnvel til í mörgum þeirra. En þó hvergi nákvæmlega eins. Þú ert alls staðar þú en samt ekki. Og það setur setninguna „hver er ég“ í vægast sagt nýtt og svimandi samhengi,“ svarar Jón Kalman.

– Svo er þetta líka lýsing á skáldskapnum, hvernig hann virkar?

„Algerlega og maður getur sagt að skáldskapurinn sé að mörgu leyti margir alheimar. Fyrir skáldskapinn er það ekki ný frétt að til séu margir alheimar.“

Tónlistin alltaf mikilvæg

Tónlist kemur mikið við sögu í bókinni og smám saman verður til lagalisti kenndur við Dauðann með stóru D-i. Hvað var Jón Kalman að hugsa með notkun sinni á tónlist í sögunni? „Tónlist hefur alltaf skipt mig miklu máli og líka í bókunum mínum og farið vaxandi,“ svarar hann og bendir sérstaklega á bækur sínar Fiskarnir hafa enga fætur , Eitthvað á stærð við alheiminn og Sögu Ástu þar sem tónlistin er sínálæg.

Í Fiskunum ... segist Jón hafa notað tónlistina til að endurspegla tíðarandann. „Þegar ég fór að skrifa Fjarveruna flæddi tónlistin inn og mér varð tiltölulega snemma ljóst að ég myndi nota hana ennþá meira í þessari bók en öðrum. Og öðruvísi, á einhvern hátt. Síðan kemur í ljós að ein af helstu persónum bókarinnar, Eiríkur Halldórsson, er að taka saman lagalista fyrir Dauðann. Eiríkur vill meina að Dauðinn elski og þrái ekkert heitar en lífið en í hvert skipti sem hann faðmar lífið þá deyr það. Það er hans djúpi harmur og Eiríkur segist setja þennan lagalista saman til að hugga Dauðann. En fyrir mig er þetta líka einfaldlega óður til tónlistar, „hommage“, en um leið enn ein aðferðin til að bæta víddum við sögurnar, persónurnar, og síðan sjálfa skáldsöguna. Og stundum nota ég textana meðvitað til að dansa með.“

Jón Kalman er búinn að setja þennan lagalista sinn saman á Spotify undir heitinu „Lagalisti dauðans (Fjarvera þín er myrkur)“ og því mögulegt að hlusta á lögin með lestrinum. Jón Kalman segir þetta allt góð lög og að góð tónlist geri lífið betra. Vilji fólk svo halda teiti að loknum fjöldatakmörkunum og farsótt, teiti til að hugga Dauðann, þá liggur beinast við að spila þennan ágæta lista skáldsins. „Þá kannski þakkar hann fyrir með því að koma ekki,“ segir Jón Kalman kíminn og á þar við manninn með ljáinn.