Byrjun Fyrsta sendingin af repjuolíu afhent. Ingibjörg Georgsdóttir hjá Isavia og Jón Bernódusson hjá Samgöngustofu standa við ílátið.
Byrjun Fyrsta sendingin af repjuolíu afhent. Ingibjörg Georgsdóttir hjá Isavia og Jón Bernódusson hjá Samgöngustofu standa við ílátið.
Tilraunaverkefni um notkun íslenskrar repjuolíu á snjóruðningstæki á Keflavíkurflugvelli er hafið. Í vikunni voru gerðar útblástursmælingar á afgasi tækisins þegar það keyrir einöngu á dísilolíu.

Tilraunaverkefni um notkun íslenskrar repjuolíu á snjóruðningstæki á Keflavíkurflugvelli er hafið. Í vikunni voru gerðar útblástursmælingar á afgasi tækisins þegar það keyrir einöngu á dísilolíu. Ætlunin er að keyra tækið á olíu með 5% íblöndun repjuolíu og gera mælingar á útblæstri til samanburðar og síðar einnig með 10% íblöndun.

Jón Bernódusson, verkfræðingur hjá Samgöngustofu, segir að borinn verði saman kolefnissparnaður og útblástur gróðurhúsalofttegunda við notkun þessara þriggja afbrigða eldsneytis. Einnig verða könnuð áhrif á síur og röralagnir vélarinnar.

Isavia og Samgöngustofa gerðu í haust viljayfirlýsingu um tilraunaverkefni sem er liður í viðleitni til orkuskipta á stórum tækjum og skipum. Framkvæmdin hefur tafist vegna kórónuveirufaraldursins. Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, flutti í vikunni þúsund lítra af repjuolíu til Keflavíkurflugvallar. Olían verður notuð til íblöndunar á eitt tæki, snjóruðningstæki sem hefur það hlutverk að hreinsa jaðar flugbrautanna. helgi@mbl.is