Bókamaður Útkoman er þrjár bækur og mér fellur vel að sinna fjölbreyttum verkum, segir Atli Rúnar í viðtalinu.
Bókamaður Útkoman er þrjár bækur og mér fellur vel að sinna fjölbreyttum verkum, segir Atli Rúnar í viðtalinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Atli Rúnar Halldórsson blaðamaður hefur veg og vanda af útgáfu þriggja bóka sem koma út fyrir þessi jól.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Atli Rúnar Halldórsson blaðamaður hefur veg og vanda af útgáfu þriggja bóka sem koma út fyrir þessi jól. Fyrst er þar að nefna bókina Flýgur tvítug fiskisaga þar sem í máli og myndum segir frá Fiskideginum mikla á Dalvík frá þeim fyrsta árið 2001 og eftir það. Þarna er Svarfdælingurinn Atli á heimavelli, en hann hefur verið fastagestur á Fiskideginum og þar með öðru tekið myndir og safnað frásögnum sem urðu efniviður bókarinnar.

Þýskur listamaður og íslensk atvinnusaga

Svo eru það hinar bækurnar sem Atli hefur ritstýrt og haft umsjón með útgáfu á. Beckmann er saga tréskurðarmeistarans Wilhelms Ernsts Beckmanns. Sá var þýskur og kom til Íslands árið 1935 á flótta undan ofsóknum nasista í heimalandi sínu. Segja má að hingað hafi Beckmann komið á öldum örlaganna og margt bendir til að tæplega hafi verið ætlun að dveljast hér lengi, segir Atli. Hins vegar fór svo að Beckmann festi hér rætur og eignaðist fjölskyldu, jafnhliða því að vinna að list sinni. Hann gerði skírnarfonta, altaristöflur og fleiri muni sem er að finna í að minnsta kosti 14 kirkjum. Að auki marga fleiri muni og listaverk sem má finna bæði hér á landi og erlendis. Beckmann hélt sig langt frá samfélagi listafólks í landinu og hans er hvergi getið í Íslenskri listasögu, miklu riti um íslenska myndlist sem út kom fyrir nokkrum árum.

Þriðja bókin er Lífshlaup atvinnumanns , saga Péturs Péturssonar, þingmanns Alþýðuflokksins, sem á sinni tíð lét að sér kveða í íslensku þjóðlífi sem stjórnmála- og athafnamaður, víða í atvinnustarfsemi þar sem ríkið kom að málum. Stýrði meðal annars starfsemi Innkaupastofnunar ríkisins, var framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar, Álafoss og Norðurstjörnunnar á Raufarhöfn og stjórnaði starfsmannamálum við byggingu Sigölduvirkjunar.

Magnús Pétursson, sonur Péturs, þekktur frá fyrri tíð sem forstjóri Landspítalans, ríkissáttasemjari og ráðuneytisstjóri, skráði söguna. Atli Rúnar bjó síðan efnið til prentunar í bók sem er og verður mikilvæg heimild um íslenska atvinnusögu, íslensk utanríkisviðskipti í austurvegi og um mannlíf á öldinni sem leið.

Grúska í áhugaverðum málum

„Bakgrunnur minn er fyrst og fremst í blaða- og fréttamennsku og gagnast vel í bókastússinu. Ég var reyndar líka á sínum tíma nemi í bókiðnadeild Iðnskólans í Reykjavík og hef áhuga á prentvinnslu. Í bókaskrifum og útgáfu finnst mér ég hafa fundið mína hillu; svo vel kann ég við að sökkva mér niður í viðfangsefnin og grúska í áhugaverðum málum,“ segir Atli Rúnar.

Um sögu Fiskidagsins greinir Atli frá að útgáfa sem þessi hafi verið lengi í deiglunni. Hann svo sjálfur lagt af stað sumarið 2019 og skrifað beinagrind að bókinni. Í framhaldinu boðið forsvarsfólki þessarar skemmtilegu bæjarhátíðar til samstarfs sem hafi svarað kalli með stuðningi og hvatningu.

„Þessi skrif voru áhugaverð, rétt eins og Fiskidagurinn mikli er frábær skemmtun,“ segir Atli Rúnar. Bók þessi – og hinar tvær – er gefin út undir merkjum S varfdælasýsls , forlags í eigu Atla og systkina hans frá Jarðbrú í Svarfaðardal. „Já, mér fellur vel að sjá um útgáfuna alla leið. Eitt af því skemmtilegasta í þessu verkefni var dreifing bókarinnar til sjávar og sveita í Dalvíkurbyggð á dögunum. Við Júlíus Júlíusson, sem hefur stýrt Fiskideginum mikla frá upphafi, afhentum íbúum einfaldlega bækur, eina fyrir hvert heimili í byggðarlaginu. Gengum hús úr húsi og fengum viðbrögðin beint í æð. Auðvitað var sérstaklega gaman að fara bókahring í gömlu sveitinni minni, Svarfaðardal. Mér finnst líka sérstaklega ánægjulegt að skrifa svona um mannlífið í minni heimabyggð og hver veit nema fleira og meira af slíku komi síðar.“

Beckmann strax áhugaverður

Bókin um Wilhelm Ernst Beckmann á sér þann aðdraganda að til Atla var leitað að púsla saman tiltæku efni í máli og myndum til prentunar í bók. Til er Stofnun Wilhelms Beckmanns og í forystu stjórnar er Hrafn Andrés Harðarson, fyrrverandi bæjarbókavörður í Kópavogi.

„Stjórnin hafði samband við mig í september 2019 og eftir klukkustundarlangan fund varð að samkomulagi að ég byrjaði samdægurs að vinna að bók um mann sem ég hafði aldrei heyrt nefndan og vissi ekkert um. Mér fannst sagan strax áhugaverð og fór að leita frekari heimilda og frásagna um Beckmann. Einstök listaverk hans leynast víða, mörg hafa verið skráð og myndir af þeim eru birtar í bókinni. Einnig má nefna að Beckmann er höfundur að merki Hótels Borgar sem margir þekkja. Beckmann, sem lést 1965, var maður sem markaði skil,“ segir Atli sem ritstýrði bókinni og vann líka í texta og myndum.

Fleiri koma að verkinu, svo sem Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur sem skrifar um „fjölhagann“, eins og hann kallar Beckmann.

Nýtti tímann uppbyggilega

Þrjár bækur á einu ári er vænn skammtur, eins og Atli Rúnar viðurkennir.

„Svona atvikuðust mál; ég fékk þessi verkefni í fangið og sumu varð að ljúka fljótt. Ég tók því langa vinnudaga og sat stíft við lengst af líðandi ári. Kórónuveiran réð því að lítið var farið úr húsi og því mátti nýta tímann uppbyggilega. Útkoman er þrjár bækur, hver annarri ólík, og mér fellur vel að sinna fjölbreyttum verkefnum. Hugmyndir eru um ný verkefni og úr þeim getur orðið bók eða bækur en ósennilegt er að þær verði þrjár á árinu 2021,“ segir Atli Rúnar.