Góð Vera Illugadóttir er afar skemmtileg
Góð Vera Illugadóttir er afar skemmtileg — Morgunblaðið/Ófeigur Lýðsson
Ein af mínum uppáhaldsstundum núorðið er þegar ég keyri einn frá Reykjavík í Borgarfjörð þar sem ég stunda nám við Háskólann á Bifröst. Á leiðinni hlusta ég ávallt á hlaðvörp og er þetta afar notaleg stund með sjálfum mér.

Ein af mínum uppáhaldsstundum núorðið er þegar ég keyri einn frá Reykjavík í Borgarfjörð þar sem ég stunda nám við Háskólann á Bifröst. Á leiðinni hlusta ég ávallt á hlaðvörp og er þetta afar notaleg stund með sjálfum mér. Ég næ að sökkva mér inn í hinn djúpa heim hlaðvarpa og bílferðin verður hin áhugaverðasta.

Ég verð eins og lítill krakki á jólunum þegar síminn minn greinir mér frá því að það sé komið nýtt hlaðvarp frá Veru Illugadóttur, en hún stýrir Í ljósi sögunnar og gerir það óaðfinnanlega. Nær hún að blanda saman fróðleik og skemmtun eins og henni einni er lagið.

Einn mánudagsmorguninn vaknaði ég spenntur, vitandi að bílferð með Veru biði mín síðar um daginn. Hún varð hins vegar að engu þegar skólafélagi minn og nágranni bað um að fá að fljóta með til Borgarfjarðar. Hann kom mér á óvart og tókst mér ekki að finna nægilega góða afsökun á staðnum og samþykkti því að hann fengi að koma með. Á leiðinni áttum við gott spjall og hlustuðum á góða tónlist. Bílferðin var ekki svo slæm og jafnvel betri en ég þorði að vona. Þrátt fyrir það saknaði ég Veru. Vonandi les hann þennan ljósvaka og tekur strætó næst.

Jóhann Ingi Hafþórsson

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson