Gunnar Ingi Gunnarsson
Gunnar Ingi Gunnarsson
Eftir Gunnar Inga Gunnarsson: "Það var ekki bara fyrir 2000 árum að ljósið lá í skugganum og hið merka verk Guðs fékk ekki sviðsljósið eða athyglina sem það átti skilið."

Nú eru jól. Þessi skemmtilegi tími árs þar sem við gerum okkar besta að kveikja ljós í myrkrinu, þar sem í útvarpinu eru spiluð lög sem fjalla um jólaljós, jólahjól, jólasveina og inn á milli undarlega sögu um lítið jólabarn.

Kristnir menn fagna þá holdgun Guðs í Jesú Kristi. Við fögnum þeim gleðifregnum að þegar ómögulegt var fyrir okkur að nálgast Guð, sama hversu mikið við reyndum, steig Guð niður til okkar. Þetta er hornsteinn vonarinnar í kristinni trú, þetta er rót trúar okkar sem ber ávöxt í góðum verkum í lífi kristinna manna, þetta er uppspretta vonarinnar. Sama hvernig aðstæður breytast og annað fólk bregst er „Guð sá hinn sami í gær, og í dag og um alla eilífð“ eins og bókin góða segir okkur, og hann lætur okkur „hvílast á grænum grundum“, en hann er líka hjá okkur í gegnum „dimma dali“.

Á árinu þegar Jesús kom í heiminn fæddust einnig mörg önnur börn inn í mismunandi kringumstæður og fjölskyldur, sum börn inn í fátækt, önnur inn í velgengni, sum fæddust í litlum húsum og önnur í köstulum, en við syngjum um barnið sem fæddist heldur betur við undarlegar kringumstæður, hann var lagður í jötu og líklega voru dýrin ekkert svo langt undan.

Margir hafa reynt að finna svar við því af hverju það var séð svona illa um Jósef og greyið Maríu sem var að fara fæða, voru þau hægfara út af þungun hennar og litli bærinn ekki með pláss þegar þau loks komu þangað til fjölskyldu Jósefs? Eða var það hugsanlega út af því að hún var ólétt og þau ekki gift sem var ástæðan fyrir því að enginn vildi taka þau inn?

Satt að segja þá vitum við það ekki af hverju þau fengu ekki stað í heimahúsi eða gistiheimili, en eitt vitum við, að nú um 2000 árum seinna þá fögnum við hátíðlega og minnumst barnsins sem fæddist ekki í kastala, heldur var lagt í jötu, barninu sem var ýtt til hliðar og hugsanlega útskúfað, því að þarna í skugganum lá ljós heimsins, í jötunni lá konungur lífsins.

Þetta barn sem fæddist ekki inn í og sóttist ekki eftir ríkidæmi, pólitísku valdi eða hernaðarvaldi er barnið sem hefur umbreytt mannkynssögunni, sem hefur fengið konunga og keisara til að beygja kné sín, sem hefur mótað hugsunarhátt, siðferði og gildi vestrænnar menningar.

En það var ekki bara fyrir 2000 árum að ljósið lá í skugganum og hið merka verk Guðs fékk ekki sviðsljósið eða athyglina sem það átti skilið. Nú eru jól 2020 og við bjuggumst svo sem við því að þau gætu mögulega orðið öðruvísi en þau fyrri, þar sem þetta er jú árið 2020 og maður veit aldrei við hverju á að búast.

En nú fyrir nokkrum dögum voru settar nýjar sóttvarnareglur, sem standa í gildi til 12. janúar, og ég, sem er forstöðumaður í söfnuðinum Loftstofunni Baptistakirkju fylgist grannt með í þeirri von að við sem söfnuður gætum loksins komið saman í persónu, sungið saman, lært saman og fagnað fæðingu frelsara okkar, en ég varð fyrir heiftarlegum vonbrigðum.

Vonbrigðin hnigu ekki út frá því að samkomubann var enn í gildi yfir höfuð, heldur aðeins fyrir suma. Bíósalir máttu hafa 50 manns, leiklistasýningar máttu hafa 30 uppi á sviði og 50 úti í sal, og „menningarviðburðir“ (hvað sem það á nú að þýða) máttu hafa 50 manns en kirkjur máttu einungis hafa 10.

Nú skil ég algjörlega gildið í því að skemmta sér sem getur haft upplyftandi áhrif um stundarsakir en ég á erfitt með að skilja hvernig það samræmist almennri skynsemi að það sé forgangsröðun ríkisstjórnar að leyfa bíó og leikhús þessi jól en ekki kirkjusamkomur sem boðar trú sem er hornsteinn og uppspretta vonar fyrir ákveðin hluta af þjóðinni, og eftir erfitt ár og dimma daga er þörf á þessari von.

Ekki nóg með það þá hef ég hringt á marga staði, sent netpóst á heilbrigðisráðuneytið til þess að spyrja ítarlegar út í þetta til þess að reyna mitt besta að skilja hver í ósköpunum hugsunin að baki þessari ákvörðun sé en ekkert svar er að fá, og ekkert heyrir maður í fjölmiðlum sem eru að spyrja út í þessar ákvarðanir.

Svo við þennan pistil vil ég gera það sem ég geri nú oftast í prédikunum í kirkjunni okkar, ég vil leggja fram áskoranir.

Ég skora á Stjórnarráðið að breyta þessari ákvörðun eða gefa rök sem eru byggð á almennri skynsemi fyrir því af hverju bíó, leiklistarsýningar og „menningarviðburðir“ séu leyfðir þessi jól en ekki kirkjusamkomur, og í seinasta lagi vil ég skora á fjölmiðla landsins til að sýna dug við að spyrja skýrandi spurninga fyrir hag almennings í landinu.

Takk fyrir tíma ykkar og Guð gefi ykkur yndisleg og blessuð jól þar sem við minnumst frelsarans Jesú.

Höfundur er forstöðumaður í Loftstofunni Baptistakirkju. gunnar@loftstofan.is

Höf.: Gunnar Inga Gunnarsson