Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem í nóvember í fyrra sýknaði íslenska ríkið af 64 milljóna króna skaðabótakröfu Annþórs Karlssonar fyrir að hafa þurft að sæta vistun á öryggisdeild á Litla-Hrauni í samtals 541 dag í máli sem hann...

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem í nóvember í fyrra sýknaði íslenska ríkið af 64 milljóna króna skaðabótakröfu Annþórs Karlssonar fyrir að hafa þurft að sæta vistun á öryggisdeild á Litla-Hrauni í samtals 541 dag í máli sem hann var svo sýknaður í.

Fram kemur í dómi Landsréttar sem féll í gær, að Annþór hafi sætt rannsókn og síðar ákæru vegna ætlaðrar aðildar hans að stórfelldri líkamsárás sem leitt hefði til dauða samfanga hans í fangelsinu á Litla-Hrauni árið 2012. Í þágu rannsóknar málsins var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi, auk símhlustunar og hlerunar í klefa hans. Með dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, var Annþór sýknaður í málinu. Í kjölfarið sömdu Annþór og ríkið um greiðslu miskabóta vegna gæsluvarðhaldsins og eftir höfðun þessa máls féllst ríkið einnig á kröfu Annþórs um bætur vegna annarra aðgerða við rannsókn fyrrgreinds máls. Ekki er fallist á kröfu hans um bætur vegna vistunar á öryggisdeild.