Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Bresk stjórnvöld hófu í gær bólusetningar með bóluefni Oxford-háskóla og lyfjafyrirtækisins AstraZeneca, en stefnt er að því að um 530.000 Bretar verði bólusettir gegn kórónuveirunni í þessari lotu, en nú þegar hafa um 1,4 milljónir fengið bóluefni í Bretlandi.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Bresk stjórnvöld hófu í gær bólusetningar með bóluefni Oxford-háskóla og lyfjafyrirtækisins AstraZeneca, en stefnt er að því að um 530.000 Bretar verði bólusettir gegn kórónuveirunni í þessari lotu, en nú þegar hafa um 1,4 milljónir fengið bóluefni í Bretlandi.

Kórónuveirufaraldurinn er nú í mikilli sókn í Bretlandi og ákvað skoska heimastjórnin í gær að setja útgöngubann á þær fimm milljónir sem búa í Skotlandi, sem á að vara til loka janúarmánaðar. Þurfa Skotar frá og með deginum í dag að dvelja heima við nema þeir eigi brýnt erindi út fyrir hússins dyr. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti svo síðar um kvöldið um útgöngubann á Englendinga, en aðgerðirnar voru sagðar nauðsynlegar til að varna frekari útbreiðslu.

Von fyrir fátækari ríki?

Heilbrigðisyfirvöld í Argentínu og á Indlandi hafa einnig veitt bóluefni Oxford/AstraZeneca leyfi, en það er þróað eftir hefðbundnari leiðum en mRNA-bóluefnin sem Pfizer/BioNTech og Moderna hafa framleitt. Það er því bæði ódýrara í framleiðslu og auðveldara að flytja og geyma heldur en hin bóluefnin, og hafa því verið bundnar vonir við að fátækari ríki jarðar muni eiga auðveldara með að nýta sér bóluefnið.

Evrópska lyfjastofnunin hefur hins vegar lýst því yfir að ólíklegt sé að hún muni veita breska bóluefninu leyfi í þessum mánuði, en gert var ráð fyrir að stofnunin myndi veita bóluefni Moderna grænt ljós í vikunni.

Stofnunin hefur orðið fyrir gagnrýni að undanförnu, þar sem aðildarríki Evrópusambandsins hafa kvartað undan seinagangi við bólusetningar innan sambandsins.

Þannig hafa stjórnvöld í Bretlandi, Bandaríkjunum og Ísrael hvert um sig náð að bólusetja rúmlega milljón manns, á sama tíma og þýsk stjórnvöld hafa bólusett um 200.000 manns.

Reiði í Frakklandi

Þá hafa frönsk stjórnvöld fengið á sig harða gagnrýni vegna hægagangs í bólusetningarmálum, en rúmlega 500 Frakkar höfðu fengið bóluefni á nýársdag. Jean Rottner, forseti héraðsþings Grand Est-héraðs, sagði að hin hæga dreifing bóluefnis væri hneykslismál, en héraðið hefur glímt við mikla fjölgun nýsmita síðustu daga.

„Frakkar þurfa skýr og örugg skilaboð frá ríkisstjórn sem veit hvert hún stefnir. Ríkisstjórnin gefur ekki þá mynd sem stendur,“ sagði Rottner, en heimildir AFP-fréttastofunnar hermdu að Emmanuel Macron Frakklandsforseti væri verulega ósáttur við hversu illa hefði gengið að dreifa bóluefninu.

Jordan Bardella, varaformaður pópúlistaflokksins Þjóðfylkingarinnar, sagði Frakka hafa orðið að aðhlátursefni heimsbyggðarinnar. „Við bólusettum á einni viku jafnmarga og Þjóðverjarnir gerðu á hálftíma. Þetta er skammarlegt.“

Dánartölur ekki ýktar

Anthony Fauci, yfirmaður kórónuveiruteymis Hvíta hússins, þvertók fyrir það í fyrrinótt að dánartölur í landinu hefðu verið blásnar upp eða ýktar, en Donald Trump Bandaríkjaforseti gaf til kynna að bandaríska sóttvarnarstofnunin CDC hefði ýkt tölurnar. „Þetta eru raunverulegar tölur, raunverulegt fólk og raunveruleg dauðsföll,“ sagði Fauci, en rúmlega 351.000 manns hafa nú látist í Bandaríkjunum af völdum kórónuveirunnar.

Búið er að bólusetja um 4,2 milljónir manna í Bandaríkjunum, en það er nokkuð undir áætlunum stjórnvalda. Sagði Fauci það eðlilegt að byrjunarörðugleikar kæmu upp, þar sem um flókið ferli væri að ræða.