Annað kvöld fer fram fyrsti leikurinn í mjög sérstöku þriggja leikja einvígi gegn Portúgal þegar liðin mætast í undankeppni Evrópumóts karla í handbolta í portúgölsku borginni Matosinhos.
Annað kvöld fer fram fyrsti leikurinn í mjög sérstöku þriggja leikja einvígi gegn Portúgal þegar liðin mætast í undankeppni Evrópumóts karla í handbolta í portúgölsku borginni Matosinhos.

Á aðeins níu dögum mætast Ísland og Portúgal þrisvar, fyrst heima og heiman í undankeppni EM og síðan í fyrsta leiknum á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi.

Annað kvöld verður afar fróðlegt að sjá hvar íslenska liðið stendur í dag. Það fór á kostum í nóvember þegar það valtaði yfir Litháen í undankeppni EM í Laugardalshöll og vann þar fyrsta leik keppninnar með sextán marka mun.

Nú er staðan hins vegar talsvert breytt því Aron Pálmarsson verður ekki með, hvorki í þessum leikjum né á HM.

Ekki þarf að fjölyrða um hversu mikil áhrif það hefur á liðið að leika án síns besta sóknarmanns en nú þurfa Guðmundur þjálfari og leikmennirnir að bregðast rétt við.

Þegar lykilmaður heltist úr lestinni er besta leiðin til að fylla skarðið að allir hinir bæti leik sinn um fimm prósent og liðsheildin verði þéttari.

Þetta er líka tækifæri fyrir menn á borð við Ólaf Guðmundsson og Elvar Örn Jónsson til að taka meiri ábyrgð á sínar herðar og láta ljós sitt skína svo um munar í sóknarleik Íslands.

Ólafur hefur reynsluna af fjölda stórmóta og á annað hundrað landsleikja, ásamt því að vera með gríðarlega reynslu úr Meistaradeild Evrópu og Elvar hefur komið upp hratt sem einn af bestu sóknarmönnum liðsins. Boltinn er hjá ykkur, strákar.