Gaman Tilfinningin er óviðjafnanleg, segir Hjörtur sem hefur farið víða um heim til að stunda þessa skemmtilegu íþrótt.
Gaman Tilfinningin er óviðjafnanleg, segir Hjörtur sem hefur farið víða um heim til að stunda þessa skemmtilegu íþrótt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Iðkendum í vængbrettasporti á Íslandi fjölgar. Stífur stormur veit á gott og á góðri stundu má fljúga upp í tíu metra hæð. Íþróttin er fyrir alla, sem krefst réttra handtaka og góðs læsis á veður og vindáttir.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Flugdreka bar hátt við himin um sl. helgi þar sem vængbrettafólk lék sér á Skógartjörn á sunnanverðu Álftanesi. Í stífum vindi sköpuðust þar frábærar aðstæður, en tengt við flugdreka feykjast brettin og fólkið sem á þeim stendur svo eftirtekt vekur. Á sunnudag mátti sjá fólk fara fram og aftur um tjörnina og á flug í hviðunum. „Oft kemst maður í fimm til sjö metra hátt flug og sumir alveg í tíu metra. Tilfinningin er óviðjafnanleg og hver stund í þessu er adrenalínkikk,“ segir Hjörtur Eiríksson vængbrettamaður.

Minni væng í meira roki

Liðin eru 13 ár síðan Hjörtur byrjaði í þessu sporti, sem á hug hans allan. Iðkendum fer fjölgandi og þegar góðar aðstæður skapast hópast fólk í sportinu saman og fer í leik.

„Miklu skiptir að velja stað samkvæmt aðstæðum; vera á sjó eða vatni þar sem vindur stendur að landi,“ segir Hjörtur. „Því er gott að vera á Skógartjörn í suðaustanátt, og hafa eiðið á Hliðsnesi að baki sér. Í sömu vindátt hentar Langisandur við Akranes vel, Geldinganes er best í austanátt og Grótta á Seltjarnarnesi þegar átt er vestanstæð eða norðlæg.“

Gott er að hver vængbrettamaður eigi í pússi sínu vængi af nokkrum stærðum og noti samkvæmt aðstæðum. Eftir því sem hvassar blæs þarf minni væng eða flugdreka, útskýrir Hjörtur sem hefur tiltækan fimm fermetra væng og sá stærsti er átján fermetrar. Ein af minnstu stærðunum var notuð í strekkingnum á sunnudag.

„Jú, þegar allt fer á flug fylgja slíku mikil átök sem reyna á allan líkamann, mest á magavöðva og læri. Þar er átakið mest, enda er ég alveg búinn eftir tveggja tíma sprett,“ segir Hjörtur sem hefur farið til fjölda landa til að iðka sport sitt þar. Má þar nefna Grænhöfðaeyjar, Jamaíka, Kosta Ríka, Kenía og Bandaríkin.

Vill á Ólympíuleika

„Ég finn frelsið í vindinum,“ segir Rannveig Grímsdóttir tannlæknir sem var í þeim góða hópi sem steig dans við storminn á Skógtjörn um helgina. Hún byrjaði í vængbrettasportinu fyrir ellefu árum, þá búsett í Síle þangað sem hún flutti með foreldrum sínum ellefu ára gömul. Ytra hefur Rannveig tekið þátt í alþjóðlegum keppnum í sportinu, verið Sílemeistari í hraðsiglingu á vængbretti í mörg ár og fleira.

„Ég er nýlega flutt aftur heim til Íslands og á mér þann draum að keppa fyrir hönd Íslands á vængbretti á Ólympíuleikum í framtíðinni. Forysta íþróttahreyfingarinnar á Íslandi hefur þó ekki verið neitt sérstaklega áhugasöm að taka þetta inn sem nýja ólympíugrein en við sjáum hvað setur.“

Rannveig segir vængbrettaflug íþrótt fyrir alla, en mikilvægt sé þó að byrjendur fái í upphafi leiðbeiningar hjá sér reyndara fólki. Mikilvægt sé að læra á vindinn og kunna réttu handtökin þegar tekið er í strenginn sem tengir saman bretti og væng.

„Þetta sport krefst ekki krafta, heldur þess að beita líkamanum og tækinu rétt. Dóttir mín, níu ára gömul, byrjaði fyrir nokkru að æfa sig á vængbretti og er strax orðin nokkuð góð. Brettasportið er grein í miklum vexti, iðkendum um allan heim fer fjölgandi, enda finnur fólk fljótt að þessa íþrótt býður upp á mörg ævintýri,“ segir Rannveig.

Instagram: Ranny kite