Bordeaux Svava Rós Guðmundsdóttir með treyju liðsins.
Bordeaux Svava Rós Guðmundsdóttir með treyju liðsins. — Ljósmynd/Bordeaux
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Svava Rós Guðmundsdóttir bættist í gær í hóp íslenskra landsliðskvenna í knattspyrnu sem taka stór skref á ferlinum fyrir lokakeppni Evrópumótsins.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Svava Rós Guðmundsdóttir bættist í gær í hóp íslenskra landsliðskvenna í knattspyrnu sem taka stór skref á ferlinum fyrir lokakeppni Evrópumótsins.

Hún skrifaði þá undir átján mánaða samning við franska stórliðið Bordeaux, eða fram að lokakeppni EM sem fer fram sumarið 2022.

Landsliðskonurnar Sara Björk Gunnarsdóttir (Lyon), Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Le Havre), Anna Björk Kristjánsdóttir (Le Havre), Hlín Eiríksdóttir (Piteå), Hallbera Guðný Gísladóttir (AIK) og Sveindís Jane Jónsdóttir (Wolfsburg og Kristianstad) hafa allar farið í sterkari lið og deildir á síðasta hálfa árinu og þær Dagný Brynjarsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir eru líklegar til að feta í fótspor þeirra, ásamt fleirum.

Svava fer í lið sem er það eina sem veitir stórveldunum París SG og Lyon einhverja keppni í frönsku 1. deildinni um þessar mundir. Þegar deildin er hálfnuð er PSG með 31 stig, Lyon 30 og Bordeaux 23 í þremur efstu sætunum en einu ósigrar Bordeaux á tímabilinu eru gegn hinum tveimur, 1:2 í bæði skiptin. Fyrsti leikur Svövu verður væntanlega gegn PSG 17. janúar.

Bordeaux er þriðja lið Svövu á ferlinum í atvinnumennsku. Hún lék fyrst með Röa í Noregi og síðan tvö tímabil með Kristianstad í Svíþjóð. Svava, sem áður lék með Breiðabliki og Val, er 25 ára og hefur leikið 23 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.