Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Sjálfseignarstofnunin Strandagaldur hefur undanfarin 20 ár byggt upp sýningar og söfn, sem tengjast göldrum, á tveimur stöðum á Ströndum. Í tilefni tímamótanna var sett upp sérstök afmælissýning í safninu á Hólmavík og verður hún út árið. „Þetta er sýning um það markverðasta sem hefur gerst og áunnist á undanförnum 20 árum,“ segir Anna Björg Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Strandagaldurs.
Undirbúningur að stofnun safnsins hófst 1996. Anna Björg rifjar upp að Strandamaðurinn Jón Jónsson, þjóðfræðingur og nú stjórnarformaður stofnunarinnar, hafi bent á í skýrslu hvernig þjóðfræðin gæti nýst samfélaginu. Hópur heimamanna hafi gripið hugmyndina á lofti, skipt með sér verkum, lagst í fræði- og rannsóknarvinnu og síðan fengið Árna Pál Jóhannesson leikmyndahönnuð til að hanna sýninguna í gamla kaupfélagshúsinu við höfnina, sem þar með hafi fengið nýtt hlutverk. Sigurður Atlason hafi verið einn stofnenda og verið framkvæmdastjóri frá byrjun til dánardags og hún síðan tekið við í ársbyrjun 2019.
„Safnið og vöxtur þess er fyrst og fremst Sigurði að þakka, það var opnað á Jónsmessunni árið 2000 og hefur verið opið síðan.“
Aðdráttarafl
Grunnsýningin á Hólmavík fjallar um galdrafárið á 17. öld og lýsir fjölbreyttum göldrum og galdrastöfum, sem notaðir voru á Íslandi, þjóðsögum sem tengjast göldrum og refsingum vegna galdra. Sýningin var hugsuð sem aðdráttarafl fyrir svæðið og upphaflega var gert ráð fyrir því að vera með sýningar á mismunandi stöðum til að vekja athygli á þeim, að sögn Önnu Bjargar.
Annar hluti sýningarinnar, Kotbýli kuklarans, var opnaður í eftirlíkingu bóndabæjar frá 17. öld í Bjarnarfirði 2005. „Flestir sem sakaðir voru um galdur voru úr hópi alþýðunnar, fólk sem barðist fyrir lífi sínu og greip til kukls í von um að það myndi veita því vernd og aukna veiði úr sjó,“ útskýrir Anna Björg. Kotbýli kuklarans hafi verið sett upp til að veita innsýn í þessa lífsbaráttu og sýna hlut kuklsins í henni.
Auk sýninga hefur stofnunin staðið að ýmsum viðburðum, sinnt rannsóknum og útgáfu, meðal annars gefið út bækur um galdrafárið, auk þess sem hún tengdist sérstakri þjóðfræðistofu sem nú er rannsóknarstofa Háskóla Íslands. Þá sé vakin athygli á því hvernig þjóðtrúin hafi verið gagnvart göldrum. „Við erum til dæmis með eftirlíkingu af nábrók, brók sem búin var til úr skinni af dauðum manni. Menn fóru í brókina, voru með galdrastaf, stálu peningum, settu í punginn og voru þar með komnir með peningapung.“
Anna Björg bætir við að til standi að opna þriðja hluta sýningarinnar í Árneshreppi. „Þar voru þrír menn brenndir og sagt hefur verið að það hafi markað upphaf galdrafársins.“