Tímamót Bólusetning við kórónuveirunni hófst í síðustu viku.
Tímamót Bólusetning við kórónuveirunni hófst í síðustu viku. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Oddur Þórðarson Veronika S. Magnúsdóttir Þrír einstaklingar sem bólusettir voru gegn kórónuveirunni hér á landi hafa nú látist.

Oddur Þórðarson

Veronika S. Magnúsdóttir

Þrír einstaklingar sem bólusettir voru gegn kórónuveirunni hér á landi hafa nú látist. Alls hafa Lyfjastofnun borist 16 tilkynningar um aukaverkanir af bólusetningu gegn veirunni, þar af fjórar um alvarleg tilfelli. Ekki hefur komið fram hvers eðlis aukaverkanirnar eru. Þá var einn lagður inn á gjörgæslu vegna aukaverkana. Þetta staðfesti Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, í samtali við mbl.is í gær. Hún segir að ekkert bendi til þess að orsakasamhengi sé milli bólusetninga og dauðsfallanna, samt sem áður verði málið rannsakað.

„Við verðum að gera okkur grein fyrir því að í fyrstu bólusetningu er verið að bólusetja allra veikasta og elsta fólkið. Þetta eru háaldraðir einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma,“ segir Rúna. „Við höfum bólusett um eitt þúsund heilbrigðisstarfsmenn og enginn þeirra hefur greint frá alvarlegum aukaverkunum af bólusetningunni, einungis eymsli á stungustað,“ bætti hún við.

Gísli Páll Pálsson, forstjóri Hjúkrunarheimilisins Markar, tekur í svipaðan streng. Hann segist ekki eiga von á að nokkurt orsakasamhengi finnist milli bólusetninga og dauðsfalla á hjúkrunarheimilum. Einn þeirra sem létust eftir að hafa verið bólusettir var íbúi á Mörk.

„Ég á ekki von á því að neitt orsakasamhengi finnist þarna á milli en auðvitað verður þetta rannsakað. Þær rannsóknir geta tekið eitt til tvö ár og væntanlega verða sams konar tilfelli rannsökuð erlendis.“

Hann segir að bólusetning íbúa og starfsmanna hafi gengið ótrúlega vel og að allt því tengt hafi verið til fyrirmyndar. Spurður um líðan íbúa í kjölfar frétta af andlátum segir hann að þeir láti engan bilbug á sér finna: „Þetta er skynsamara fólk en svo.“

Ekki náðist í Þórólf Guðnason sóttvarnalækni vegna þessa í gærkvöldi. 14