Vöxtur Geo Silica, sem Fida Abu Libdeh stýrir, er á listanum.
Vöxtur Geo Silica, sem Fida Abu Libdeh stýrir, er á listanum. — Morgunblaðið/RAX
Ráðgjafarfyrirtækið Poppins & Partners (P&P), sem sérhæfir sig í nýsköpunargeiranum, hefur gefið út lista yfir efnilegustu sprotaverkefni ársins 2020, en listinn er birtur á vef fyrirtækisins.

Ráðgjafarfyrirtækið Poppins & Partners (P&P), sem sérhæfir sig í nýsköpunargeiranum, hefur gefið út lista yfir efnilegustu sprotaverkefni ársins 2020, en listinn er birtur á vef fyrirtækisins.

Hanna Kristín Skaftadóttir, annar stofnenda P&P, segir í samtali við Morgunblaðið að listinn sé nú birtur í fyrsta skipti, en verði árlegur héðan í frá. „Okkur fannst þörf á að draga fram þessi efnilegu fyrirtæki sem eru á Íslandi og gera smá samantekt á þeim sem voru að gera markverða hluti á árinu 2020. Við fengum fólk í grasrótinni og aðila með góð tengsl við nýsköpunargeirann til að hjálpa okkur við gerð listans,“ segir Hanna Kristín.

Hún segir að listinn sé þrískiptur. Í fyrsta lagi séu á honum fyrirtæki sem enn eru á hugmyndastigi. Í öðru lagi séu félög sem sett hafi vöru á markað, eða eru um það bil að senda frá sér fyrstu vörurnar. Í þriðja lagi séu á listanum fyrirtæki sem orðin eru þekkt á markaði.

„Sían sem við notuðum var hvort fyrirtæki hafði gert eitthvað markvert á árinu 2020, hvort það lagaði sig að breyttum aðstæðum á árinu, eða hvort það náði að loka fjármögnun.“

Airbnb fyrir föt

Meðal hugmynda á frumstigi sem eru á listanum er fyrirtækið Spjara, en það hyggst leigja fólki fatnað til tímabundinnar notkunar – nokkurs konar Airbnb fyrir föt. Fyrirtækið sigraði í Spjaraþon hugmyndasmiðjunni á síðasta ári. Þekkt fyrirtæki á listanum eru t.d. Lucinity, Geo Silica og YAY.