Reykjavíkurmótið í knattspyrnu hefst eftir aðeins ellefu daga, 16. janúar, svo framarlega sem heimild hefur fengist til þess að hefja keppni á þeim tíma af sóttvarnaástæðum.

Reykjavíkurmótið í knattspyrnu hefst eftir aðeins ellefu daga, 16. janúar, svo framarlega sem heimild hefur fengist til þess að hefja keppni á þeim tíma af sóttvarnaástæðum. Knattspyrnuráð Reykjavíkur tilkynnti þetta í gær og ennfremur að Egilshöll standi öllum liðum til boða en þau lið sem þess óski geti spilað heimaleikina á sínum heimavöllum.

Sömu níu félög og vanalega leika í meistaraflokki karla, KR, Valur, Fram, Þróttur, Víkingur, Fjölnir, Fylkir, ÍR og Leiknir. Þar er leikið í tveimur riðlum og keppni er áætluð 16. janúar til 6. febrúar.

Fram bætist við í kvennaflokki þannig að þar verða nú sjö lið í tveimur riðlum. Hin liðin eru KR, Valur, Þróttur, Víkingur, Fjölnir og Fylkir en keppni er áætluð frá 17. til 27. janúar. KR er ríkjandi Reykjavíkurmeistari í karlaflokki og Fylkir í kvennaflokki.