Baksvið
Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Efnastofnun Evrópu (ECHA) stefnir að því að skila greinargerð um takmörkun við notkun blýs í skotfærum og veiðarfærum til Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) þann 15. janúar. Verði tillaga um takmörkun samþykkt gæti hún tekið gildi á EES-svæðinu síðla ársins 2023, gangi áætlunin ECHA eftir.
Ísak Sigurjón Bragason, sérfræðingur á sviði efna-, eftirlits- og veiðistjórnunar hjá Umhverfisstofnun, segir að nú sé rætt um markaðssetningu blýs og notkun þess í högl og kúlur skotfæra og veiðarfæri til fiskveiða.
Notkun blýs og efnasambanda þess er nú þegar ýmsum takmörkunum háð samkvæmt hinni samevrópsku REACH-reglugerð. Ísak bendir á að málið sé í vinnslu og eigi eftir að fara í gegnum tvær vísindanefndir hjá ECHA sem meta annars vegar hvaða hætta kann að fylgja þessari blýnotkun og hins vegar félagsleg áhrif af þeim takmörkunum sem lagðar verða til. Að auki fær samstarfshópur um efnaeftirlit tækifæri til að koma að ábendingum varðandi mögulegar áskoranir við að framfylgja tillögunni. Niðurstaðan verði heildstætt mat á því hvort ástæða sé til að takmarka notkun blýs í skot- og veiðarfærum innan EES. Þaðan mun tillagan fara aftur til Framkvæmdastjórnar ESB. Einnig mun ríkjanefnd sem fer með þessi mál í ESB ræða málið og kjósa um það. Að lokum verður tillagan rýnd af Evrópuþinginu og ráðinu áður en til samþykktar kemur. Ísak segir að tillagan geti tekið ýmsum breytingum áður en endanleg ákvörðun verður tekin. Hann segir ómögulegt að segja á þessu stigi hvort tímaáætlun ECHA standist. Verði tillagan samþykkt verði gefinn aðlögunartími áður en hún tekur gildi.
Skotveiðimenn bregðast við
Ísak segir að nú þegar hafi ríkjanefndin samþykkt að banna blýhögl við skotveiðar í votlendi, þótt bannið hafi ekki enn náð fram að ganga og sé í ferli. Nú þegar hafa 24 Evrópuríki þrengt að notkun blýs í skotfærum með einhverjum hætti. Sama gildir um fjölda annarra ríkja víða um heim, m.a. vestanhafs.
FACE – Evrópsk samtök um veiðar og verndun, gera nú netkönnun á meðal evrópskra skotveiðimanna um áhrif banns á notkun blýs í höglum og byssukúlum. Innan samtakanna eru landsfélög sem telja um sjö milljónir evrópskra skotveiðimanna. Eitt þeirra er Skotveiðifélag Íslands (Skotvís) en formaður þess er Áki Ármann Jónsson, líffræðingur og fyrrverandi veiðistjóri. Hann telur viðbúið að þrengt verði að notkun blýs í skotfærum og veiðarfærum innan EES.
„FACE er að kanna hversu mikil áhrif blýbann muni hafa og hvað aðlögunartíminn þyrfti að vera langur,“ sagði Áki. Hann sagði að FACE hafi kært ákvörðunina um bann við notkun blýhagla í votlendi vegna þess að óeðlilega hafi verið að henni staðið. Þá er FACE að skoða að kæra málið til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna þess að sönnunarbyrði sé snúið við. Veiðimaður sem er með blýskot við votlendi verði talinn sekur og þurfi því að sanna sakleysi sitt.
Auk þess telur FACE að ekki gangi að skilgreina votlendi samkvæmt vatnatilskipun ESB. Hún sé of víðtæk. Þannig teljist t.d. fráveituskurður sem fyllist af vatni á vorin vera votlendissvæði, þótt hann sé skraufþurr mestallt árið.
Högl, kúlur og sökkur
Á heimasíðu Efnastofnunar Evrópu (ECHA) segir að 21-27 þúsund tonn af blýi fari út í umhverfið í Evrópusambandinu (ESB) á ári vegna notkunar blýs í skot- og veiðarfærum. Það er talið geta valdið blýeitrun hjá villtum dýrum eins og til dæmis fuglum. Einnig er talið að heilsu manna kunni að stafa hætta af blýleifum í villibráð sem veidd er með blýskotfærum.Blýbannið er talið munu geta náð til allrar skotiðkunar utanhúss, það er bæði skotveiða og iðkunar skotíþrótta. Skotfæraframleiðendur hafa brugðist við og sett á markað blýlaus skotfæri. T.d. eru fáanleg haglaskot með höglum úr stáli, blöndu af bismút og tini eða tungstenhöglum. Margar eldri gerðir haglabyssa eru ekki gerðar fyrir stálhögl. Þannig er talið að í Bretlandi einu muni um 500.000 haglabyssur úreldast verði bannað að nota blýhögl.