Viðar Guðjohnsen
Viðar Guðjohnsen
Eftir Viðar Guðjohnsen: "Eftir eitt mesta góðærisskeið sem sögur fara af eru allir sjóðir í borginni tómir og ekki bara það heldur eru skuldir og skattar í hættulegum hæðum."

Eftir kvartöld af nánast samfelldri stjórn jafnaðarmanna með fulltingi alls kyns meðreiðarsveina er ástandið í Reykjavík orðið einstaklega slæmt; skattar og skuldir eru í hæstu hæðum, mengun eykst dag frá degi, skólar drabbast niður og þrengsli eru farin að vega að framtíð Reykjavíkur sem fjölskylduborgar.

Skuldir, skattar og tómir sjóðir

Það segir margt að eftir eitt mesta góðærisskeið sem sögur fara af eru allir sjóðir í borginni tómir og ekki bara það heldur eru skuldir og skattar í hættulegum hæðum. Engan þarf að undra það enda virðist það löngu horfin viska að nota skuli feitu árin til varnar þeim mögru. Sama má segja um virðingu fyrir almannafé.

Almennt séð skapar hið opinbera ekki verðmæti þótt þegnarnir geri það og fjármagnar borgin sig þar af leiðandi eingöngu með beinni eða óbeinni skattheimtu. Í því samhengi er lántaka lítið annað en skattheimta framtíðarinnar. Lán þarf nefnilega að greiða til baka og sá dagur er skuldadagur nefnist getur ómögulega sett á sig feluliti nafna síns. Með framangreint í huga, þ.e. að öll verðmæti borgarinnar séu nú eða síðar runnin undan rifjum borgaranna, er hægt að slá því föstu að það sem einn fær án þess að vinna fyrir verður auðvitað einhver annar að vinna fyrir án þess að fá. Þetta er grundvallaratriði sem þarf að halda á lofti. Í verki sýna ábyrgir stjórnmálamenn þessu virðingu með hófsemi og ábyrgri forgangsröðun. Það er ekki hægt að segja að sú virðing sé til staðar hér í Reykjavík en á meðan skólar og vegir grotna niður er ekkert lát á kostnaðarsömum gæluverkefnum, s.s. bragga sem kostaði hálfan milljarð, þrengingu gatna og gleymum ekki borgarlínunni sem enginn getur sagt hvað á að vera; sumir segja lest en aðrir segja að þetta verði bara mjög dýr strætó; ef ekki dýrasti strætó sem sögur fara af. Slík meðferð á almannafé er ekkert annað en efnahagsspellvirki.

Holóttir vegir, þrengsli og svifryk

Í þessari nyrstu höfuðborg veraldar mætti ætla að borgarfulltrúar væru sammála um að það væri til happs að huga vel að vegakerfinu enda sé það augljóst að blautir, dimmir og kaldir vetur gera einkabíllinn að hinum almenna ferðamáta. Það sjónarmið að borgarbúar hjóli eða húki í strætó, ungir sem aldnir, mæður og börn í gegnum sudda og slyddu, er í besta falli draumsýn námsmanna eða tálsýn þeirra sem hafa aldrei þurft að mæta á réttum tíma í vinnuna. Sama hvernig menn stilla þessu upp búum við í nyrstu höfuðborg veraldar þar sem er vindasamt og kalt. Því þarf að leggja alla áherslu á að gatnakerfið sé hannað með það fyrir augum að umferð flæði. Þá þarf að huga að bílastæðum því bílastæðaskortur elur af sér umferðartafir með sama hætti og óhreinar götur auka svifryksmengun. Í Þýskalandi eru allar götur sópaðar vikulega. Allt árið um kring.

Þröng byggð og lítið andrými

Ofan á algjöra vanrækslu í vegaframkvæmdum hefur verið haldið fast í borgarsýn sem gengur út á þéttreist háhýsi og þrengsli. Er sú stefna farin að vega illa að eðlilegu andrými manna og dýra. Til þess að taka af allan vafa er hér átt við svokallaða „þéttingu byggðar“ sem hefur nú staðið yfir í kvartöld og beðið allsherjar skipbrot. Byggist sú sýn á fallvöltum sjónarmiðum um að íbúar þurfi ekkert annað en lágmarksrými, búi og vinni á sama stað og eigi ekki börn. Slíkt gengur ekki upp í framkvæmd. Þessu til rökstuðnings má benda á að í miðbænum eru þjónustustörf á hverju horni en varla hefur nokkur sem starfar í þjónustustarfi efni á að búa í miðbænum. Þá er það nú svo að fátt vegur jafn illa að fjölskyldulífi eins og þrengsli í bland við sósíalíska blokkastefnu. Í Evrópu hafa menn brennt sig illa á slíkri stefnu sem alls staðar hefur skilað aukningu í félagslegum vandræðum, mengun, fjölskylduflótta og umferðartöfum. Hér skal því haldið til haga að það eru takmörk fyrir því hversu langt má ganga í þeim efnum þar til stöðnun verður óafturkræf. Flugvallarmálið er afsprengi þessarar stefnu en aðförin að þessari einu samgöngumiðju okkar ber í brjósti sér algjört virðingarleysi gagnvart landsbyggðinni og mun eyðileggja stöðu Reykjavíkur sem höfuðborgar.

Stefnufesta er grundvöllur sigra

Til að hægt sé að snúa við þessari óheillaþróun þarf Sjálfstæðisflokkurinn að láta betur í sér heyra og það með afgerandi hætti. Hér er sérstaklega átt við borgarfulltrúa hans. Enginn annar stjórnmálaflokkur hefur til þess samsvarandi burði og hvílir því ríkari ábyrgð á kjörnum fulltrúum hans sem þurfa að ganga í takt, fylgja oddvitanum að málum, virða landsfundarsamþykktir og veita umrótinu sem hreiðrað hefur um sig í borginni raunverulega andstöðu. Í huga hins almenna kjósanda er nefnilega pólitísk þögn sama og samþykki.

Höfundur er lyfjafræðingur og sjálfstæðismaður.

Höf.: Viðar Guðjohnsen