Biskup Davíð Tencer hjá kaþólsku kirkjunni er ósáttur við reglurnar.
Biskup Davíð Tencer hjá kaþólsku kirkjunni er ósáttur við reglurnar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
David B. Tencer, biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, hefur aflýst öllum opinberum sunnudagsmessum og svonefndum vigilmessum á laugardagskvöldum. Starfsfólk kirkjunnar hefur verið beðið um að fylgja öllum sóttvarnareglum við messur á virkum dögum.

David B. Tencer, biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, hefur aflýst öllum opinberum sunnudagsmessum og svonefndum vigilmessum á laugardagskvöldum. Starfsfólk kirkjunnar hefur verið beðið um að fylgja öllum sóttvarnareglum við messur á virkum dögum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gær.

Of margir voru saman komnir við messu í Landakotskirkju á sunnudag en þetta var í annað skiptið á stuttum tíma sem það gerðist.

„Ég lýsi yfir að þrátt fyrir góðan vilja getum við ekki fylgt öllum gildandi sóttvarnareglum í sambandi við messuhald í kirkjum okkar. Með harm í hjarta hef ég tekið þá ákvörðun að aflýsa öllum opinberum sunnudagsmessum og vigilmessum á laugardagskvöldum. Ákvörðunin tekur þegar gildi.

Ég bið allt starfsfólk í kirkjum okkar að fara mjög varlega og fylgja öllum reglum í messum á virkum dögum líka.

Á sama tíma bið ég alla sem bera ábyrgð á sóttvarnareglum að breyta þeim reglum þar sem jafnræðis virðist ekki gætt. Kirkjur okkar eru ekki litlar. Ef hægt er að halda jarðarför eða jafnvel tónleika með 50 persónum, hvernig stendur þá á því að aðeins tíu manns geta verið í messu?

Hvernig á ég að útskýra það fyrir sóknarbörnum okkar að margir matsölustaðir mega taka á móti fleiri viðskiptavinum?

Hvernig á að útskýra það að í Landakotskirkju mega bara vera tíu persónur en til dæmis mega vera fleiri en tíu í gufubaði? Okkur finnst öllum erfitt að lifa við þessar aðstæður en slíkar ákvarðanir gera það enn erfiðara.

Ég bið fyrir öllum en sérstaklega þeim sem ráða þessum reglum að íhuga málin með visku og leiðrétta þetta óþægilega misræmi,“ segir í yfirlýsingu sem Tencer sendi til fjölmiðla í gær.