Þórarinn Eldjárn yrkir „Efstef“: Þéttan ljóða vef ég vef vel bið forláts ef ég gef ykkur svona stef og stef sem stolið hef. Hjálmar Jónsson sendi nýárskveðjur: Fram á veg flestu miðar, fárið mun hníga til viðar.

Þórarinn Eldjárn yrkir „Efstef“:

Þéttan ljóða vef ég vef

vel bið forláts ef ég gef

ykkur svona stef og stef

sem stolið hef.

Hjálmar Jónsson sendi nýárskveðjur:

Fram á veg flestu miðar,

fárið mun hníga til viðar.

Vinur minn góður,

hér vitja þín, hljóður

og óska þér árs og friðar.

Á nýársdag sendi Guðmundur Arnfinnsson Breiðfirðingum sem og landsmönnum öllum til sjávar og sveita nýársósk:

Víkur senn burt veirufár,

vorið strýkur milt um brár.

Gleðilegt og gott nýtt ár

gefi öllum Drottinn hár.

Dagbjartur Dagbjartsson sendi Breiðfirðingum til glaðnings eina eftir Eggert Stefánsson frá Kleifum og sagði, að hún gæti verið ort um snemmsumarsnótt:

Kvölda tekur dagur dvín

dögg er sveipuð jörðin.

Aldrei fegri sólarsýn

sást við Breiðafjörðinn.

Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson sendir þessa kveðju:

Verjum þessum vetri til

varnar öllum fárum.

Höfum ennþá handar bil,

hlífum sorg og tárum.

Helgi R. Einarsson segir, að mörgum reyndist gamla árið erfitt og að árið 2020 sé kvatt án trega:

Enn nú eitt er runnið

út að fullu brunnið.

Ei til fjár,

feigðarár.

Fátt var í það spunnið.

Enn segir Helgi að oft sé gott að hófstilla áramótaheitin; „Gömul saga og ný“:

Mikils vísir er mjór

með markmiðin göfug og stór.

Samt baslinu í

oft endar á því

annarra' að moka flór.

Helgi slær svo botninn í kveðskapinn með því að segja: „Verum bjartsýn á nýju ári!“

Bjarni Stefán Konráðsson yrkir í „Stöku-vísum“

Að vera að spá, það virðist mér

vera ljóta glíman,

sérstaklega ef það er

eitthvað fram í tímann.

Alltaf kastað út í horn

ef annað var á sveimi.

Svona er að vera sannleikskorn

í síljúgandi heimi.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is