Liverpool-hetja Gerry Marsden hampaði OBE-orðu árið 2003.
Liverpool-hetja Gerry Marsden hampaði OBE-orðu árið 2003. — AFP
Gerry Marsden, leiðtogi Liverpool-hljómsveitarinnar Gerry and the Pacemakers, er látinn, 78 ára að aldri.

Gerry Marsden, leiðtogi Liverpool-hljómsveitarinnar Gerry and the Pacemakers, er látinn, 78 ára að aldri. Marsden var samstiga sveitungum sínum og félögum í Bítlunum út á frægðarbrautina en þekktustu lög Gerry and the Pacemakers eru „Ferry Cross the Mersey“ og „You'll Never Walk Alone“, hinn víðfrægi einkennissöngur Liverpool-knattspyrnuliðsins.

Um og upp úr 1960 komu Gerry and the Pacemakers oft fram með Bítlunum en Brian Epstein var umboðsmaður beggja hljómsveita. Sveitirnar léku til að mynda samtímis í fjóra mánuði í Hamborg síðla árs 1960. Marsden átti eftir að rifja upp í viðtölum að meðlimir hljómsveitanna tveggja hefðu þá skemmt sér vel saman.

The Pacemakers komu fyrstu þremur smáskífunum sem sveitin sendi frá sér, árið 1963, öllum á topp breska vinsældalistans: „How Do You Do It?“ – sem Bítlarnir hljóðrituðu fyrst árið 1962 en ákváðu að gefa ekki út, „I Like It“ og „You'll Never Walk Alone“. Það síðastnefnda er lag eftir Rodgers & Hammerstein úr söngleiknum Carousel. Lagið var einkennissöngur Liverpool-liðsins, er sungið fyrir alla heimaleiki þess og félagið tísti að söngur Gerrys myndi lifa að eilífu með aðdáendum fótboltaliðsins.

Sir Paul McCartney minntist síns gamla félaga með twitter-færslu og sagði þá hafa verið vini í Liverpool í gamla daga en hljómsveit Gerrys hafi líka veitt þeim í Bítlunum mestu samkeppnina í heimabænum. Segir McCartney flutning Gerrys á hans vinsælustu lögum lifa í hjarta fólks sem minning um gleðitíma í breskri tónlist. Og Ringo Starr minntist Marsdens líka og bað honum Guðs blessunar.