Það var mörgum brugðið vegna frétta um hugsanlegar afleiðingar bólusetningar

Veiran frá Kína er vinalaus og hötuð. En þótt svo sé að vonum er þýðingarmest að umræðunni, sem að henni snýr og er sjálfsögð og nauðsynleg, sé haldið í jafnvægi. Sama gildir um stýringu hennar af hálfu opinberra aðila, hvernig sem hver og einn þeirra kemur þar að. Hún þarf í senn að vera hreinskilin og bera það með sér að ekki sé verið að halda því frá almenningi sem hann á rétt á að fá vitneskju um. Um leið skiptir miklu að þeir stjórnmála- og embættismenn sem þýðingarmest er að hafi trúverðugleika sem aldrei beri skugga á lendi ekki að óþörfu í vörn í málinu.

Óþægilegar fréttir bárust í gær um að þrír einstaklingar hefðu látist, en þeir höfðu fengið bóluefnið úr 5.000 manna skammti sem tekið var á móti með viðhöfn og auglýsingabrag. Í umræðunni í kjölfarið var mörgum brugðið svo sem vonlegt var. Sumir þeirra svo að þeir reiknuðu sig upp í að ætla mætti að allt að 200 Íslendingar kynnu að látast svo rekja mætti það til bólusetningarinnar ef þau markmið næðust að bólusetja alla þjóðina. En það henta ekki öll mál í einfaldan framreikning. Mbl.is hafði sagt frá tveimur dauðsföllum sem orðið höfðu í kjölfar bólusetningar, sem Lyfjastofnun hefði fengið upplýsingar um, en RÚV hafði svo sagt að tilvikin sem tilkynnt hefðu verið væru orðin þrjú. Var vitnað í Þórólf Guðnason sóttvarnalækni í RÚV sem hefði áréttað að óvíst væri hvort dauðsföllin þrjú tengdust bólusetningunum og áréttað að afla þyrfti meiri upplýsinga um heilsufar þessa fólks áður en komist væri að niðurstöðu um hvort bólusetningarnar tengdust andlátunum: „Maður þarf líka að muna að þarna var verið að bólusetja þá veikustu og elstu í samfélaginu, sem eru hrumir og með langvinna sjúkdóma. Það getur ýmislegt haft áhrif, sem ekki tengist bólusetningunni, þegar um er að ræða veikasta fólkið okkar. Þannig að spurningin er hvort þetta tengist bólusetningunni. Það getur verið erfitt að fullyrða nokkuð um það.“

Augljóst er að um leið og allrar varúðar er gætt þá má það aldrei leiða til þess að upplýsingum af þessum toga sé haldið leyndum.

Og eftir þessa opinberu atburðarás hlýtur það að verða ófrávíkjanlegur hluti af vinnubrögðum við þessa bólusetningu að það fólk sem er í áhættuflokki fái, ásamt nánustu trúnaðarmönnum, að vera upplýst um þá hugsanlegu áhættu sem sé fyrir hendi.

Það er öllum ljóst að rannsakendur og framleiðendur á borð við lyfjafyrirtæki hafa legið undir yfirþyrmandi þrýstingi að koma sem allra fyrst fram með bóluefni sem framleiða megi fyrir heimsbyggðina með öruggum hætti, eða a.m.k. af „ásættanlegu“ öryggi.

Þeir sem fylgjast af áhuga með umræðu um þróun baráttunnar við veiruna vita að það er samdóma álit að sambærilegt bóluefni hafi aldrei áður verið komið á framleiðslustig og á markað með jafnskömmum fyrirvara og nú hefur tekist. Það er vissulega mikið fagnaðarefni eftir þann skaða sem veirupestin hefur nú þegar valdið veröldinni og er þó hvergi nærri hætt.

En þessum fagnaðarboðskap hafa einnig fylgt fullyrðingar um að miklu minni tími hafi að þessu sinni gefist til að sannreyna gæði bóluefnisins og til að ganga úr skugga um að bólusetningunni fylgi ekki skaðlegir þættir sem fari yfir þau mörk sem almennt séu dregin.

Borið hefur á því að stjórnlynt fólk í valdaaðstöðu hafi notað „tækifærið“ nú, eins og því hættir ætíð til, að þrengja að rétti einstaklinganna umfram það sem þegar er orðið. Það er bölvað og er ástæða til að fara vel yfir þau efni þegar horfa má til þeirra gjörða án þess að hafa vofu veirunnar yfir sér. En hversu óþægilegar sem þessar fyrstu fréttir af bólusetningunni eru þá væru verstu viðbrögðin þau að draga fjöður yfir veruleikann, svo ekki sé sagt að leitast við að gera þá mynd sem þó liggur fyrir óljósari en hún er. Muna verður að sá kostur er enn fyrir hendi að tryggja að þeir hópar sem veikastir standa séu vel varðir fyrir því að veiran nái til þeirra. Um slíka kosti og um þá áhættu sem fylgir eða getur fylgt bólusetningu má ekki fela neitt fyrir neinum.