Reynsla Guðbjörg Gunnarsdóttir er næstleikjahæsti landsliðsmarkvörður Íslands og hefur leikið í þremur lokakeppnum EM með íslenska liðinu.
Reynsla Guðbjörg Gunnarsdóttir er næstleikjahæsti landsliðsmarkvörður Íslands og hefur leikið í þremur lokakeppnum EM með íslenska liðinu. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Noregur Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Guðbjörg Gunnarsdóttir hefur sett stefnuna á að leika með íslenska landsliðinu á nýjan leik eftir tveggja ára fjarveru en í kjölfar þess að hún og sambýliskona hennar Mia Jalkerud sömdu báðar í gær við Arna-Björnar frá Bergen í Noregi til tveggja ára er hún tilbúin í slaginn um landsliðssæti fyrir lokakeppni EM á næsta ári.

Noregur

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Guðbjörg Gunnarsdóttir hefur sett stefnuna á að leika með íslenska landsliðinu á nýjan leik eftir tveggja ára fjarveru en í kjölfar þess að hún og sambýliskona hennar Mia Jalkerud sömdu báðar í gær við Arna-Björnar frá Bergen í Noregi til tveggja ára er hún tilbúin í slaginn um landsliðssæti fyrir lokakeppni EM á næsta ári.

„Þeir sem þekkja mig vita að ég geri allt hundrað prósent. Ef ég spila á því getustigi sem ég spilaði á undir lokin með Djurgården og í sterkri deild í Evrópu finnst mér eðlilegt að fá kallið aftur. Ég trúi alltaf að maður fái það sem maður eigi skilið og að þeir bestu eigi að spila. Út frá því sé ég ekkert sem ætti að standa í vegi fyrir því að ég spili aftur með landsliðinu.

EM 2022 hefur að sjálfsögðu spilað mikið inní og hefur verið mikil hvatning fyrir mig á leið minni til baka inn á völlinn eftir að ég eignaðist tvíburana. Ég er hrikalega stolt af stelpunum og hlakka gríðarlega til áframhaldsins,“ sagði Guðbjörg við Morgunblaðið eftir undirskriftina í gær.

Ég er hrikalega stolt

Hún sagði að aðdragandinn að félagaskiptunum hefði ekki verið langur og þær Mia hefðu ekki verið farnar að leggja drög að framhaldinu þegar keppni lauk í sænsku úrvalsdeildinni um miðjan nóvember. Guðbjörg lék þar fimmta árið í röð með Djurgården og níunda samtals en spilaði aðeins þrjá síðustu leikina á tímabilinu eftir að hafa eignast William og Oliviu snemma árs. Mia spilaði ekkert árið 2020 þar sem samningur hennar rann út í árslok 2019. Hún var markahæsti leikmaður liðsins það ár, sem og mörg önnur tímabil.

„Ég tók ákvörðun eftir tímabilið að hætta með Djurgården. Mér var boðinn áframhaldandi samningur en fannst þetta vera orðið gott eftir að hafa spilað með liðinu í mjög langan tíma. Ég setti mér það markmið að komast aftur í liðið eftir að hafa eignast tvíburana snemma á árinu 2020. Ég náði því og geng stolt frá borði. Ég er hrikalega stolt af því sem ég gerði í ár og mér finnst ég hafa sannað að það sé hægt að spila á hæsta getustigi þrátt fyrir barnsburð sem er frekar óvanalegt hér í Svíþjóð. Mér líkar ótrúlega vel að búa í Stokkhólmi en það var mjög erfitt að fá fótboltann og fjölskyldulífið að smella saman þar,“ sagði Guðbjörg.

Mikil hjálp með tvíburana

Hún kannast vel við sig í Noregi eftir að hafa leikið þar á árunum 2013 til 2015, eitt ár með Avaldsnes og síðan tvö meistaraár með Lilleström. Seinna árið var hún kjörin besti markvörður norsku úrvalsdeildarinnar.

„Umboðsmaðurinn minn kom upp með þann möguleika að fara til Arna-Björnar. Félagið vildi allt fyrir okkur gera og er fyrsta félagið sem ég hef komist í samband við sem er svo opið og skilningsríkt yfir því að við eigum tvö lítil börn sem fylgja með. Við fáum mikla hjálp með tvíburana þannig að ég sé fram á að geta einbeitt mér miklu betur að fótboltanum en ég hefði getað hjá Djurgården.

Þegar ég bar saman möguleikana sem við höfðum þá var þetta í rauninni eina félagið sem ég sá fyrir mér að geta spilað með af fullum krafti þrátt fyrir frekar mikið ströggl heima með svefn og annað. Æfingar liðsins eru allar á daginn nema ein og það hjálpar mjög mikið,“ sagði Guðbjörg.

Hjálpa liðinu í toppbaráttu

Markmiðin, auk þess að komast aftur í landsliðið, eru tiltölulega einföld hjá markverðinum sem lék síðast fyrir Íslands hönd gegn Finnum í júní 2019, sinn 64. landsleik.

„Ég er ekki enn farin að hugsa um neina markmiðssetningu aðra en þá að halda áfram því sem ég var að gera hjá Djurgården. Ég var komin í mjög gott stand þarna í lokin á tímabilinu og fékk að spila mikilvæga leiki sem héldu liðinu uppi. Arna-Björnar hefur metnað til að koma sér aftur á toppinn í norsku úrvalsdeildinni og ég vona svo sannarlega að ég geti hjálpað til við það.“

Sleppum við sóttkví í Noregi

Fjölskyldan er enn í Stokkhólmi en Guðbjörg segir að stefnt sé að því að flytja til Bergen í næstu viku.

„Þetta er mikið púsluspil og við erum núna að reyna að pakka saman því helsta áður en við förum til Noregs. Við ætlum samt að halda íbúðinni okkar sem við eigum í Stokkhólmi, við náum aldrei að tæma hana á svona stuttum tíma. Svo er þetta allt flóknara út af kórónuveirunni. Þetta var ekki eins og áður þegar maður pakkaði bara saman í nokkrar töskur og fór. Við erum „sem betur fer“ búin að fá Covid-19 þannig við sleppum alla vega við sóttkví sem gerir þetta örlítið einfaldara og við getum þá alla vega farið að æfa strax og við komum á staðinn,“ sagði Guðbjörg Gunnarsdóttir.

Þar með verða í það minnsta tvö „Íslendingalið“ í norsku úrvalsdeildinni á árinu 2021. Ingibjörg Sigurðardóttir leikur áfram með meisturum Vålerenga, sem hafa einnig krækt í hina 17 ára gömlu Amöndu Andradóttur frá Nordsjælland í Danmörku.