Brúargerð Unnið við gerð göngubrúar í Kerlingarfjöllum árið 2014.
Brúargerð Unnið við gerð göngubrúar í Kerlingarfjöllum árið 2014. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Um 140 milljónum króna verður varið til bráðaaðgerða og uppbyggingar innviða á svæðum sem friðlýst voru árið 2020. Fram kemur á vef umhverfisráðuneytisins, að á Geysissvæðinu, sem friðlýst var sl. sumar, verði m.a.

Um 140 milljónum króna verður varið til bráðaaðgerða og uppbyggingar innviða á svæðum sem friðlýst voru árið 2020.

Fram kemur á vef umhverfisráðuneytisins, að á Geysissvæðinu, sem friðlýst var sl. sumar, verði m.a. smíðaðir timburpallar við Konungshver, Strokk og útsýnisskífu og ráðist í gerð malarstíga.

Þá verði farið í uppbyggingu innviða í Kerlingarfjöllum, en svæðið er á rauðum lista í ástandsmati vegna mikils álags af völdum ferðamanna og hætta á að svæðið tapi verndargildi sínu ef ekkert verður að gert. Segir ráðuneytið, að álagið sé hvað sýnilegast á Neðri-Hveravöllum þar sem mikill skortur sé á stýringu og innviðum til að verja einstök hverasvæði og leirkenndan jarðveginn.

Göngubrú við Hveradali

Einnig á að ráðast í gerð göngubrúar á 5 km langri gönguleið úr Ásgarði í Hveradali. Þá leggur verkefnisstjórnin til að ráðist verði í vinnu í umhverfi Búrfells og Búrfellsgjár, en gönguleiðin í Búrfellsgjá er mjög vinsæl og mikið álag á henni. Viðkvæmur gróður á svæðinu liggur því sums staðar undir skemmdum vegna traðks.

Önnur verkefni sem sem ráðuneytið nefnir eru gerð upplýsinga- og gönguleiðaskilta við Goðafoss, sem og vinna í Þjórsárdal við viðhald innviða við Háafoss og frumathugun á uppbyggingarþörf í Gjánni og við Hjálparfoss.