Óeirðir Lífverðir verja innganginn að sal fulltrúadeildarinnar í þinghúsinu á meðan þingmenn yfirgefa salinn.
Óeirðir Lífverðir verja innganginn að sal fulltrúadeildarinnar í þinghúsinu á meðan þingmenn yfirgefa salinn. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Gera þurfti hlé á talningu kjörmanna á Bandaríkjaþingi eftir að stór hópur stuðningsmanna Donalds Trump Bandaríkjaforseta náði að brjóta sér leið inn í þinghúsið um hálf-áttaleytið að íslenskum tíma í gærkvöldi.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Gera þurfti hlé á talningu kjörmanna á Bandaríkjaþingi eftir að stór hópur stuðningsmanna Donalds Trump Bandaríkjaforseta náði að brjóta sér leið inn í þinghúsið um hálf-áttaleytið að íslenskum tíma í gærkvöldi. Mótmælendur og lögreglan höfðu tekist á fyrir utan þinghúsið og beitti lögreglan táragasi og piparúða til þess að reyna að ná tökum á ástandinu, en án árangurs. Ekki var ljóst hver staðan var þegar Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöldi, en sjá mátti á fréttamyndum mótmælendur ganga um sali þinghússins án nokkurrar mótspyrnu.

Muriel Bowser, forsprakkar þingsins og lögreglan í Washington-borg kölluðu öll eftir aðstoð frá alríkisyfirvöldum, en nokkrir grunsamlegir pakkar fundust á víð og dreif um nágrenni þinghússins. Sendi Trump Bandaríkjaforseti þjóðvarðliða á vettvang. Hvatti hann mótmælendur á Twitter-síðu sinni til þess að vera friðsama, en forsetinn ávarpaði mótmælafundinn fyrr um daginn.

Innrás mótmælendanna truflaði umræðu sem þá var nýhafin í báðum deildum þingsins eftir að þingmenn repúblikana höfðu gert athugasemd við kjörmenn frá Arizona-ríki, einu af þeim ríkjum sem Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseti, vann af Trump í kosningunum í nóvember.

Snýst gegn varaforseta sínum

Lífverðir Mike Pence varaforseta leiddu hann úr sal öldungadeildarinnar og komu honum í skjól, en hann hóf sameiginlegan þingfund þingsins á því að lesa upp yfirlýsingu, þar sem hann tók fram að stjórnarskráin veitti sér enga heimild til þess að breyta niðurstöðu kosninganna, en Trump hafði haldið því fram að varaforsetinn hefði heimild til þess að telja þau atkvæði sem sér sýndist, þar á meðal „kjörmenn“ repúblikana í þeim ríkjum þar sem gerður hafði verið ágreiningur um niðurstöðuna. Trump brást reiður við yfirlýsingu Pence á Twitter-síðu sinni og sakaði Pence um að hafa „skort hugrekki“ til þess að gera hið rétta.

Nokkrir þingmenn repúblikana í báðum deildum höfðu lýst því yfir fyrirfram að þeir hygðust gera athugasemdir við talningu kjörmanna í allt að sex ríkjum, en hver athugasemd kallar á umræðu sem getur staðið yfir í allt að tvo tíma.

Ekki þótti neinn vafi leika á því að allar athugasemdirnar yrðu felldar og hóf Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, umræðuna með því að fordæma þá kollega sína í deildinni sem hygðust gera athugasemdir við talninguna. Sagði McConnell að með gjörðum sínum kynnu þingmennirnir að valda lýðveldi Bandaríkjanna „varanlegum skaða“, þar sem enginn efi væri lengur um að Biden hefði sigrað.

Demókratar með yfirhöndina

Fyrr um daginn hafði hagur demókrata á Bandaríkjaþingi þótt vænkast mjög, en allt benti þá til þess að Raphael Warnock og Jon Ossoff, frambjóðendur þeirra til öldungadeildarinnar í Georgíu, hefðu sigrað þau Kelly Loeffler og David Perdue í seinni umferð kosninga. Voru báðir demókratar komnir með forystu í gær í talningunni, en endanleg niðurstaða mun ekki liggja fyrir fyrr en á morgun, föstudag.

Sigur Warnocks, sem þjónar sem prestur í sömu kirkju og Martin Luther King var á sínum tíma, þótti ekki í vafa, en óvíst var enn hvort munurinn á milli Ossoffs og Perdue yrði nægur til þess að ekki þyrfti að endurtelja atkvæði.

Sendi framboð Perdue frá sér yfirlýsingu í fyrrinótt, þar sem lýst var yfir að það hygðist halda baráttunni áfram, og var jafnvel gert ráð fyrir að Perdue myndi reyna að kæra kosningarnar og framkvæmd þeirra. Bæði Perdue og Loeffler þykja nánir bandamenn Donalds Trump Bandaríkjaforseta, og hafa þau bæði tekið undir efasemdir Trumps um niðurstöðu forsetakosninganna. Óvíst er þó hvaða áhrif það hafi haft á gengi þeirra, en framámenn í Repúblikanaflokknum höfðu óttast að barátta Trumps við að snúa niðurstöðu kosninganna við hefði dregið úr kjörsókn meðal repúblikana í fyrradag.

Garland tilnefndur

Verði sigur Warnocks og Ossoffs staðfestur þykir það mikill sigur fyrir Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseta, þar sem demókratar munu þá hafa 50 þingsæti í öldungadeildinni á móti 50 þingsætum repúblikana, sem hingað til hafa haft meirihlutann í höndum sér.

Þar sem oddaatkvæðið er í höndum varaforsetans hverju sinni, þýðir það að um leið og Biden sver embættiseið sinn 20. janúar næstkomandi hljóta demókratar meirihlutann í deildinni, sem aftur auðveldar Biden að koma stefnumálum sínum í gegn, en deildin gegnir bæði mikilvægu hlutverki í utanríkismálum og við skipan bæði ráðherra og dómara.

Biden, sem sjálfur var öldungadeildarþingmaður í rúma þrjá áratugi, hafði til dæmis beðið með að útnefna í stöðu dómsmálaráðherra þar til ljóst væri hvernig kosningarnar færu, þar sem ekki var vitað hvort hann gæti treyst á stuðning deildarinnar, eða hvort Biden þyrfti að semja við McConnell um skipan ríkisstjórnar sinnar.

Biden tilkynnti svo í gær að hann hefði ákveðið að skipa dómarann Merrick Garland í stöðuna, en Garland er þekktastur utan Bandaríkjanna fyrir að hafa verið útnefndur af Barack Obama í stöðu hæstaréttardómara árið 2016. Repúblikanar lögðust þá gegn skipan Garlands, þar sem um kosningaár væri að ræða. Garland þykir miðjusinnaður demókrati líkt og Biden.

Þá þykir víst að öldungadeildin muni nú samþykkja ýmsar fjárveitingar sem fulltrúadeildin hefur lagt til, en þar á meðal er tillaga um að hver Bandaríkjamaður fái ávísun upp á 2.000 Bandaríkjadali frá ríkinu vegna kórónuveirufaraldursins, en bæði fulltrúadeildin og Trump Bandaríkjaforseti höfðu kallað eftir því í andstöðu við McConnell.

Stjórnmálaskýrendur vestanhafs sögðu þó að ekki mætti ætla að Biden og Demókrataflokkurinn myndu hafa frítt spil til að gera sem sér sýndist, jafnvel þótt bæði framkvæmda- og löggjafarvald yrðu nú á sömu hendi, þar sem meirihlutinn væri ekki traustari en svo að aðeins einn demókrata þyrfti til að fella mál. Þá bíða erfiðar þingkosningar árið 2022, en flokkur sitjandi forseta tapar jafnan þingsætum í þeim.