Tignarleg sjón Ekkert af stóru skemmtiferðaskipunum kom hingað í fyrra en vonir standa til að einhver komi í sumar. Celebrity Eclipse hefur komið hingað nokkrum sinnum undanfarin ár.
Tignarleg sjón Ekkert af stóru skemmtiferðaskipunum kom hingað í fyrra en vonir standa til að einhver komi í sumar. Celebrity Eclipse hefur komið hingað nokkrum sinnum undanfarin ár. — Morgunblaðið/RAX
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Búið var að bóka tæplega 200 komur skemmtiferðaskipa til Reykjavíkur næsta sumar.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Búið var að bóka tæplega 200 komur skemmtiferðaskipa til Reykjavíkur næsta sumar. En vegna faraldurs kórónuveirunnar eru blikur á lofti og síðustu vikurnar hafa afbókanir byrjað að berast, að sögn Ernu Kristjánsdóttur, markaðsstjóra Faxaflóahafna.

Bókunarstaðan hjá Faxaflóahöfnum eru 198 skipakomur með 217.399 farþega. „Hins vegar eru þetta væntingar skipafélaganna,“ segir Erna „Þau vilja hefja siglingar til Íslands en hinn almenni borgari er ekki tilbúinn að ferðast enn þá. Heimsfaraldurinn setur strik í reikninginn og fólk ekki jafn tilkippilegt að bóka ferðir. Fólk vill ferðast til öruggra landa og mestu máli skiptir að bólusetning hjá þjóðum gangi vel fyrir sig og beri árangur. Ég held að fólk fari ekkert að ferðast með skemmtiferðaskipum fyrr en búið er að ná betri tökum á faraldrinum í heiminum.“

Alls voru sjö komur farþegaskipa til Faxaflóahafna í fyrrasumar með 1.346 farþega. Þetta var gríðarlegur samdráttur frá árinu 2019. Það ár voru 190 komur farþegaskipa til Faxaflóahafna með 188.630 farþega. Samdrátturinn milli ára var um 99%, eða sem nemur 187.284 farþegum.

Tekjutap Faxaflóahafna var gríðarlegt. Tekjur fóru úr 597 milljónum árið 2019 niður í 11,2 milljónir í fyrra. Sama á við um aðrar hafnir.

Í fjárhagsáætlun Faxaflóahafna fyrir árið 2021 er ekki gert ráð fyrir miklum tekjum af skipakomum skemmtiferðaskipa, segir Erna. „Tímarammi farþegaskipanna er svipaður og farfuglanna, vanalega frá lok apríl til október með nokkrum undantekningum. Þar sem tímaramminn er stuttur mun taka aðeins lengri tíma fyrir þennan iðnað að rétta sig af en flugfélög, sem eru að fljúga til Íslands allt árið um kring. Við verðum hins vegar að vera bjartsýn og vona að árið 2021 verði betra en árið 2020 í skipakomum. Það koma fleiri skip en í fyrra en hversu mörg þau verða, það getum við ekki sagt til um að svo stöddu,“ segir Erna. Hún segir hins vegar að árið 2022 líti mjög vel út og kveðst ekki trúa öðru en þær bókanir muni standast.