[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Fjallaverkefnin nutu mikilla vinsælda í fyrra og við sáum talsvert af nýju fólki koma inn í starf Ferðafélagsins.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Fjallaverkefnin nutu mikilla vinsælda í fyrra og við sáum talsvert af nýju fólki koma inn í starf Ferðafélagsins. Nýtt ár byrjar einnig af krafti, nýliðar síðasta árs halda áfram reynslunni ríkari og nýtt fólk hefur skráð sig,“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands. Á síðasta ári jókst þátttaka í fjallaverkefnum og ferðum um 20%. Fyrrnefnd fjallaverkefni hafa verið kynnt í vikunni á samfélagsmiðlum og áhugi verið mikill að sögn Páls.

Fjallaverkefnin eru 14 talsins og standa yfir í 4-12 mánuði. Á sjötta hundrað manns hafa skráð sig og er uppselt í tólf þessara verkefna. Á annað hundrað manns er á biðlista og verður bætt við verkefnum næstu daga.

Þau eru miserfið og sniðin að getu, áhuga og reynslu þátttakenda. Heiti þeirra gefa nokkra hugmynd um hvað er að ræða í hverju tilviki. Nefna má verkefnin alla leið, 52 fjallatindar, fyrsta skrefið, næsta skrefið, meistaradeildina, léttfeta, fótfráan og þrautseigan.

Meistaradeildin erfiðust

Af einsökum fjallaverkefnum nefnir Páll að í ár eru tíu ár síðan 52 fjalla verkefninu var hleypt af stokkunum. Þess verður m.a. minnst með því að í ár verða sömu fararstjórar og í upphaflegu göngunum, þau Hjalti Björnsson, Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir. Páll segir að Meistaradeildin sé líklega erfiðasta verkefnið, en það er ætlað fólki sem hefur mikla reynslu af fjallgöngum og er í góðu formi. Verkefnið samanstendur af 15 göngum, í flestum tilvikum á brattgeng og krefjandi fjöll í 1-2 þúsund metra hæð. Hápunkturinn verður ganga á Hvannadalshnúk um Virkisjökul og Dyrhamar.

Ferðafélag Íslands stendur fyrir Ferðafélagi barnanna og FÍ Ung. Uppselt er í allar ferðir Ferðafélags barnanna sumarið 2021 og verður bætt við ferðum.

Skálarnir vel bókaðir

Páll segir greinilegt að vaxandi áhugi sé á útivist og hafa bókanir í skála félagsins gengið vel. Þar sé þó talsverð óvissa vegna bókana ferðaskrifstofa fyrir erlenda ferðamenn vegna kórónuveikinnar. Aðspurður um vaxandi áhuga á útivist segist Páll telja að helstu skýringar fyrir utan heilnæma hreyfingu, útiveru og góðan félagsskap meðal annars þá að fleiri ferðist innanlands og færri fari til útlanda. Þá verði fólk háð því að fara út og hreyfa sig og endurnæra líkama og sál.

Ferðafélagið hefur gripið til margvíslegra ráðstafana til að koma í veg fyrir smit í ferðum og annarri starfsemi félagsins. Þannig er fjöldi þátttakenda í fjallaverkefnum t.d. takmarkaður við 30-50 manns og miðað er við að hægt sé að skipta hópum upp þannig að 10 manns með fararstjóra verði í hverju teymi. Iðulega sé farin hringleið til að hópar þurfi ekki að mætast, hugað sé að mismunandi brottfarartíma og fjölda fólks í skála og bílum. Allt sé gert til að mæta sóttvarnareglum og Páll segir að það sé hægt að ná miklum árangri í baráttu við veiruna með því að fylgja persónubundnum sóttvörnum.

Páll segir að Ferðafélaginu hafi tekist að „ná mjúkri lendingu“ í rekstri sínum þrátt fyrir erfitt ár 2020 vegna færri gistinátta í skálum félagsins samfara fækkun erlendra ferðamanna til landsins. Hann þakkar árangurinn aðhaldi í rekstri, frestun á stórum framkvæmdum, aukinni þátttöku í ferðum félagsins og auknum tekjum vegna fjölgunar félagsmanna sem eru nú 10 þúsund talsins.

Fjölbreytni
» Í ferðaáætlun Ferðafélags Íslands fyrir þetta ár má finna yfir 200 ferðir, allt frá ferðum á göngustígum í þéttbýli yfir í fjallgöngur á hæstu tinda landsins.