[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Núverandi hreinsistöð við Klettagarða í Sundahöfn uppfyllir gildandi starfsleyfisskilyrði og reiknað er með að stöðin geti áfram sinnt hlutverki sínu um ókomin ár nema ef til koma breytingar á lögum og reglum.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Núverandi hreinsistöð við Klettagarða í Sundahöfn uppfyllir gildandi starfsleyfisskilyrði og reiknað er með að stöðin geti áfram sinnt hlutverki sínu um ókomin ár nema ef til koma breytingar á lögum og reglum.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Veitna, við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Tilefni fyrirspurnarinnar var að Faxaflóahafnir voru með til kynningar drög að tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum vegna framkvæmda við dýpkun Viðeyjarsunds og landfyllinga. Þar kom m.a. fram að ráðist verði í frekari landfyllingar við Klettagarða vegna stækkunar skólphreinsistöðvar Veitna. Ekki liggur fyrir hvenær ráðist verður í þessa landfyllingu, að sögn Magnúsar Þórs Ásmundssonar, hafnarstjóra Faxaflóahafna.Verkið sé t.a.m. ekki á fjárfestinga- eða framkvæmdaáætlun ársins 2021.

Grófhreinsun á skólpinu

Skólphreinsistöðin í Klettagörðum var tekin í notkun árið 2002, segir í svari Ólafar. Í stöðinni fer fram grófhreinsun, en í því felst að öll föst efni stærri en þrír millimetrar í þvermál eru síuð frá skólpinu og að auki eru fita og sandur skilin frá. Eftir þessa hreinsun er skólpinu síðan dælt út í sjó um 5,5 kílómetra langa útræsislögn.

Til að mæta auknum kröfum sem búast má við í lögum og reglum, auk þess að uppfylla markmið Veitna um hreinar strendur, meiri nýtingu á orkustraumum og vegna umhverfissjónarmiða, þarf á næstu árum að bæta við hreinsiþrepum. Þetta felur í sér stækkun hreinsistöðvanna við Klettagarða og Ánanaust. Núverandi hreinsistöðvar eru við sjávarsíðuna og horft er til þess möguleika að stækka stöðvarnar á landfyllingum, gerist þess þörf.

Ekki er endanlega búið að meta þörf á landrými undir mannvirkin en samkvæmt útreikningum Veitna er plássþörf fyrir stækkun hreinsistöðvarinnar við Klettagarða u.þ.b. fimm hektarar.

Þessi áform eru í samræmi við áætlanir sem fram koma á deiliskipulagi Klettasvæðis sem var samþykkt 26. október 1999 þar sem fram kemur afmörkun fyllingar fyrir seinni þrep hreinsunar, þar sem heildarstærð fyllingar er 50.000 fm. Samkvæmt samningi um sameiningu Fráveitu Reykjavíkur og Orkuveitu Reykjavíkur ber Reykjavíkurborg að sjá til þess að fráveitan fái lóðir undir mannvirki. Þetta er talið nauðsynlegt til að fráveitan geti uppfyllt framtíðarkröfur um hreinsun skólps. Útfærsla skólphreinsistöðvarinnar liggur ekki fyrir, en unnið verður sérstakt mat á umhverfisáhrifum fyrir byggingu og rekstur stöðvarinnar þegar þau áform liggja fyrir.

Norðan við Laugarnes stendur til að halda áfram með landfyllingu sem byrjað var á 2019 og lokið 2020, segir í drögum að matsáætlun sem verkfræðistofan Efla vann. Landfylling verði lengd til norðausturs og verður fyrir utan skólphreinsistöð Veitna í Klettagörðum. Hún muni mæta stækkunarþörf skólphreinsistöðvar Veitna og framtíðarlandþörf þeirrar starfsemi. Ströndin á þessum kafla sé öll manngerð landfylling, engri náttúrulegri strandlengju verði raskað. „Athygli er vakin á því að umhverfisáhrif skólphreinsistöðvarinnar eru ekki til umfjöllunar í þessu umhverfismati, eingöngu landfyllingin. Unnið verður sérstakt mat á umhverfisáhrifum fyrir byggingu og rekstur skólphreinsistöðvarinnar þegar útfærsla og frekari áform liggja fyrir,“ segir í matsáætluninni.

Miðstöð hafnanna

Til stendur að byggja nýjar höfuðstöðvar Faxaflóahafna á þeirri landfyllingu sem tilbúin er við Klettagarða. Einnig verði þar aðstaða fyrir dráttarbáta. Engin ákvörðun hefur verið tekin um tímasetningu.

Landfyllingin, sem er rétt austan Laugarness, hefur verið umdeild síðan fréttir fóru að berast af framkvæmdinni. Meðal annars var á það bent í blaðagrein í Morgunblaðinu að Laugarnestangi væri vinsælt útivistarsvæði og einstakur útsýnisstaður. Byggingar á landfyllingunni myndu skyggja á útsýnið til Viðeyjar og Viðeyjarstofu, sem væri óviðjafnanlegt á þessum stað.